8. fundur 13. september 2022 kl. 15:00 - 17:55 í fundarsal að Hnjúkabyggð 33
Nefndarmenn
  • Guðmundur Haukur Jakobsson forseti
  • Grímur Rúnar Lárusson 1. varaforseti
  • Ragnhildur Haraldsdóttir aðalmaður
  • Zophonías Ari Lárusson aðalmaður
  • Ásdís Ýr Arnardóttir varamaður
    Aðalmaður: Birgir Þór Haraldsson
  • Auðunn Steinn Sigurðsson aðalmaður
  • Elín Aradóttir aðalmaður
  • Jón Gíslason aðalmaður
  • Edda Brynleifsdóttir aðalmaður
Starfsmenn
  • Valdimar O. Hermannsson
Fundargerð ritaði: Atli Einarsson ritari
Dagskrá
Við upphaf fundar óskaði Guðmundur Haukur Jakobsson eftir því að einu máli verði bætt á dagskrá og verður það mál nr. 6 á dagskrá.
Samþykkt samhljóða.

Jón Gíslason lagði fram eftirfarandi bókun vegna dagskrár fundarins:
Ég geri athugasemdir við að reglur um skólaakstur sem vísað var til þessa fundar á síðasta fundi sveitarstjórnar séu ekki á dagskrá.
Einnig tel ég að tillaga að viðauka við fjárhagsáætlun 2022 vegna skólaaksturs hefði átt að liggja fyrir þessum fundi.

1.Gjaldskrá leikskóla Húnabyggðar

2209011

Endurupptekið frá 7. fundi sveitarstjórnar.
Gjaldskrá leikskóla Húnabyggðar borin upp til samþykktar og samþykkt af sveitarstjórn með 8 atkvæðum (EA, ZAL, RH, EB, ÁÝA, ASS, GRL, GHJ).
Einn sat hjá við afgreiðslu málsins (JG).

Jón Gíslason lagði fram eftirfarandi bókun:
Sit hjá vegna þess að útgjalda aukning sveitarfélagsins liggur ekki fyrir eða tillaga að viðauka við fjárhagsáætlun 2022, jafnframt fagna ég því að málið skuli tekið til afgreiðslu að nýju þar sem að við afgreiðslu þess á síðasta sveitarstjórnarfundi voru brotin ákvæði 15. greinar sveitarstjórnarlaga og 9. greinar samþykkta Húnabyggðar.

Guðmundur Haukur Jakobsson óskaði eftir því að hlé yrði gert á fundinum kl. 15:13.

Funarhléi lauk kl. 15:24.

2.Gjaldskrá mötuneytis grunnskóla Húnabyggðar

2208020

Endurupptekið frá 7. fundi sveitarstjórnar.
Gjaldskrá mötuneytis Grunnskóla Húnabyggðar borin upp og samþykkt með 7 atkvæðum (EA, ZAL, RH, ÁÝA, ASS, GRL, GHJ).

Tveir sátu hjá við afgreiðslu málsins (JG, EB).

3.Reglur um styrki vegna aksturs leikskólabarna

2209012

Endurupptekið frá 7. fundi sveitarstjórnar.
Reglur um styrki vegna aksturs leikskólabarna bornar upp og samþykktar með 7 atkvæðum (EA, ZAL, RH, ÁÝA, ASS, GRL, GHJ).

Tveir sátu hjá við afgreiðslu málsins (JG, EB).

4.Byggðaráð Húnabyggðar - 5

2208006F

Fundargerð 5. fundar byggðaráðs lögð fram til staðfestingar á 8. fundi sveitarstjórnar eins og einstök erindi bera með sér.

Að loknum umræðum um fundargerðina var hún borin upp og staðfest af sveitarstjórn með 9 atkvæðum samhljóða.
  • Byggðaráð Húnabyggðar - 5 Staðgengill sveitarstjóra greindi frá samskiptum sínum við Vegagerðina vegna þeirra framkvæmda sem fyrirhugaðar hefa verið við klifið hjá Bollastöðum.
    Byggðaráð Húnabyggðar ítrekar hér með við Vegagerðina að gerðar verði þær ráðstafanir sem um hefur verið rætt og áætlað hafði verið á þessu ári. Þá óskar byggðaráð eftir því að fá fulltrúa Vegagerðarinnar á næsta fund byggðaráðs, til þess að fara yfir stöðu vegamála í sveitarfélaginu. Sveitarstjóra falið að fylgja málinu eftir.
  • Byggðaráð Húnabyggðar - 5 Byggðaráð Húnabyggðar óskar eftir nánari upplýsingum og kostnaðarmati á verkefninu, frá Fjallskiladeild Grímstungu- og Haukagilsheiða í samráði við Fjallskilastjórn Víðdælinga.
  • 4.3 2202019 Framkvæmdir 2022
    Byggðaráð Húnabyggðar - 5 Á síðasta fundi byggðaráðs var farið yfir helstu framkvæmdir í þéttbýli Húnabyggðar, en staða helstu framkvæmd eru að öðru leyti eftirfarandi:

    A: Húnaver: Lokið er við að skipta um þak á hluta hússins (ekki yfir sal) en unnið er við að gera upp íbúð, og einnig er varmadæla í pöntun.
    B: Dalsmynni: Klæða á húsið að utan í haust/vetur og er búið að kaupa efni og semja við verktaka um að sjá um verkið.
    C: Auðkúlurétt: Steypuviðgerðir á réttinni, í áföngum og endurnýjun á girðingum í nátthaga gerðar að hluta. Búið að semja við verktaka um þessa verkþætti.
    D: Húnavellir: Vinna hefur verið í gangi við endurgerð íbúða, sem ekki var lokið í vor en einnig hefur verður áfram viðhaldsvinna við sundlaug en viðgerð í leikskóla er lokið
    E: Öndvegi:Verið er að klára ýmis mál og unnið að frágangi í skála.
    F: Þrístapar: Verk í vinnslu, og mun halda áfram á móti fenginni styrkveitingu.
    G: Skólahúsið við Sveinstaði: Búið er að einangra húsið og múra að utan, en fyrir liggur að taka næst glugga, hurðir og frágang á þaki og niðurfallsrörm.

    Til athugunnar: Byggðaráð felur sveitarstjóra að skipuleggja skoðunarferð með sveitarstjórn um sveitarfélagið, sem fyrst, þar sem skoðaðar verði helstu framkvæmdir og eignir sveitarfélagsins.
  • 4.4 2208026 Notendaráð
    Byggðaráð Húnabyggðar - 5 Staðgengill sveitarstjóra greindi frá því að kallað hafi verið eftir tilnefningum frá Þroskahjálp og Öryrkjabandalaginu í notendaráð Húnabyggðar, svo hægt sé að klára tilnefningar í ráðið á næsta fundi sveitarstjórnar.
  • Byggðaráð Húnabyggðar - 5 Upplýst var um nýleg samskipti við STEFNU, og vísað í verksamning frá því í lok júni.
    Hönnun átti að vera lokið en vegna sumarleyfa og mannabreytinga hjá STEFNU hefur verkið því tafist. Byggðaráð ítrekar að þessi vinna verði kláruð sem allra fyrst og ný heimasíða kynnt.
  • Byggðaráð Húnabyggðar - 5 Byggðaráð Húnabyggðar tekur vel í erindið og vísar kostnaði til fjárhagsáætlunar f.v. Húnavatnshrepps. Einnig óskar byggðaráð eftir því að fá kostnaðar- og verkáætlun fyrir verkið.
  • Byggðaráð Húnabyggðar - 5 Málið er ennþá í vinnslu og verður tekið fyrir á næsta fundi byggðaráðs.
  • Byggðaráð Húnabyggðar - 5 Staðgengill sveitarstjóra upplýsti um vinnufund hans með sveitarstjóra, arkitekt og framkvæmdastjóra Stíganda ásamt stjórnendur leikskólans, sem fram fór mánudaginn 22.ágúst s.l., og kynnti minnisblað sem gert var eftir fundinn um framhald aðgerða þar sem fram koma m.a. aðgerðir um bætt aðgengi að báðum inngöngum leikskólans.
    Þá samþykkir byggðaráð að lagfært verði aðgengi frá leikskóla að gangbraut yfir Heiðarbraut. Einnig þarf að huga að framtíðarlausn á húsnæðismálum leikskólans sem allra fyrst.
  • Byggðaráð Húnabyggðar - 5 Umræður urðu um umferðaröryggi við Húnabraut, þar sem skólar eru nú hafnir og Félagsmiðstöðin Skjólið hefur fengið inni tímabundið að Húnabraut 5.

    Vegna aukinnar umferðar skólabarna að Húnabraut 5, þar sem frístundastarf fer fram, felur byggðaráð Húnabyggðar Skipulags- og bygginganefnd að koma með tillögur að auknu umferðaröryggi gangandi og hjólandi vegfarenda á þessu svæði.

5.Byggðaráð Húnabyggðar - 6

2209001F

Fundargerð 6. fundar byggðaráðs lögð fram til staðfestingar á 8. fundi sveitarstjórnar eins og einstök erindi bera með sér. Liðir 5.2, 5.8 og 5.13 þarfnast sérstakrar afgreiðslu.

Að loknum umræðum um fundargerðina var hún borin upp og staðfest af sveitarstjórn með 9 atkvæðum samhljóða.
  • Byggðaráð Húnabyggðar - 6 Þorgils Magnússon, Byggingarfulltrúi fór yfir minnisblað um mögulega tilhögun á lóðaúthlutun í nýju hverfi, drög að reglum fyrir úthlutun byggingarlóða í Húnabyggð og
    reglur hjá nokkrum sveitarfélögum til viðmiðunar. Málið verður tekið fyrir til kynningar á fundi Skipulagsnefndar í næstu viku, og einnig á fundi sveitarstjórnar, en kemur síðan aftur fyrir fund byggðaráðs til frekari vinnslu.
  • Byggðaráð Húnabyggðar - 6 Erindi vísað til byggðaráðs frá 7. fundi sveitarstjórnar til frekari vinnslu.
    Byggðaráð samþykkir fram lagðar tillögur fyrir sitt leyti og þakkar fyrir þá vinnu sem lögð hefur verið í tillögurnar. Kostnaði vísað til endurskoðunnar/viðauka við fjárhagsáætlun 2022, og til vinnu við fjárhagsáætlun 2023.
    Bókun fundar Tillögur að aðgerðum til að liðka fyrir ráðningum starfsfólks á leikskóla bornar upp og samþykktar með 9 atkvæðum samhljóða.
  • 5.3 2206054 Byggðamerki
    Byggðaráð Húnabyggðar - 6 Samkvæmnt ákvörðun sveitarstjórnar þá hefur verið auglýst eftir tillögum um byggðamerki fyrir Húnabyggð, og var frestur til að skila tillögum til 1. sept.,2022. Alls komu 17 tillögur innan þess frests sem gefin var.
    Þegar hafa verið skipaðir í matsnefnd þeir Gísli Arnarson, Formaður FÍT, og Hringur Hafsteinsson Framkvæmdastjóri Gagarín.
    Formaður byggðaráðs lagði til að fulltrúi sveitarstjórnar verði Pétur Arason sveitarstjóri. Samþykkt samhljóða.
  • 5.4 2208026 Notendaráð
    Byggðaráð Húnabyggðar - 6 Óskað hefur verið eftir tilnefningum í Notendaráð frá ÖBÍ og Þroskahjálp, eins og gert er ráð fyrir í reglum um Notendaráð. Tilnefningar hafa ekki borist en fyrir fundinum liggja leiðbeiningar frá ÖBÍ og Samþykkt fyrir samráðshóp um málefni fatlaðs fólks í Akureyrarbæ. Áfram verður unnið að tilnefningum fyrir Notendaráð Húnabyggðar.
  • Byggðaráð Húnabyggðar - 6 Gerð hefur verið uppfærð tímaáætlun vegna vinnu við fjárhagsáætlun 2023, en einnig var haldinn fundur með endurskoðendum KPMG um mögulega aðkomu þeirra að þessari vinnu og breyttu vinnulagi. Sveitarstjóri greindi frá þeim áherslubreytingum sem kynntar voru. Einnig var rætt um tilhögun undirbúnings á framkvæmdum og fjárfestingum næstu ára, þar sem byggðaráð myndi bera mesta ábyrgð og kalla til þá aðila sem gætu legt þar gott til.
  • Byggðaráð Húnabyggðar - 6 Byggðaráð Húnabyggðar samþykkir fram lögð gögn og felur STOÐ ehf að auglýsa útboðið samkvæmt umræðu á fundinum.
  • Byggðaráð Húnabyggðar - 6 Málinu vísað til vinnu við fjárhagsaætlun 2023, þar sem kostnaður við framkvæmdir verða metnar.
  • Byggðaráð Húnabyggðar - 6 Byggðráð Húnabyggðar samþykkir fyrir sitt leyti að taka þátt í umdæmisráði barnaverndar á landsbyggðinni og felur sveitarstjóra að fylgja málinu eftir með hlutaðeigandi. Hvatt er til þess að samræmi ríki varðandi starfsemi þeirra þriggja umdæmmisráða sem eiga að starfa á landinu. Þá samþykkir byggðaráð fram komna tillögu um að Akureyri verði fyrsta sveitarfélagið til þess að annast umsýslu umdæmisráðsins á landsbyggðinni. Bókun fundar Sveitarstjórn samþykkir, með 9 atkvæðum samhljóða, samning um umdæmisráð ásamt erindisbréfi og viðauka við sameiginlegt umdæmisráð barnaverndar á landsvísu samkvæmt nýjum lögum og tekur undir bókun byggðaráðs.
  • 5.9 2202019 Framkvæmdir 2022
    Byggðaráð Húnabyggðar - 6 Farið var yfir stöðu helstu framkvæmda ársins, sem verið hafa til umfjöllunar á síðustu tveimur fundum byggðaráðs ásamt samskipti við Vegagerðina frá síðasta fundi.
    A. Fulltrúi Vegagerðarinnar hefur samþykkt að mæta á næsta fund byggðaráðs, og einnig að áætlað sé að fara í umbeðnar lagfæringar við Klifið hjá Bollastöður fyrir veturinn.
    B. Rætt var um stöðu á endurnýjun á götulýsingu bæði í þéttbýli og í dreifbýlinu. Þarf að skoða stöðu og áætlun.
    C. Byggðaráð felur sveitarstjóra, ásamt hlutaðeigandi, að setja á stað hönnun og kostnaðargreiningu á endurbættri Ennisbraut, frá nýjum Þverárfjallsvegi að núverandi klæðningu.
    D. Klára þarf uppbyggingu á reiðvegi við Miðholtið ásamt tengingu við þjóðveginn, samkvæmt leiðbeingum Vegagerðarinnar.
  • Byggðaráð Húnabyggðar - 6 Byggðaráð Húnabyggðar fagnar því að mótuð verði stefna um nýtingu vindorku á Íslandi og að ofangreindur starfhópur taki saman tillögur og ýmis sjónarmið í því sambandi. Byggðaráð vísar málinu til umsagnar bæði Skipulagsnefndar og Umhverfisnefndar, og mun kalla eftir sjónarmiðum innan tilskilins fresta, eða fyrir 30. september n.k.
  • Byggðaráð Húnabyggðar - 6 Lögð fram til kynningar.
  • Byggðaráð Húnabyggðar - 6 Lagt fram til kynningar
  • Byggðaráð Húnabyggðar - 6 Byggðaráð Húnabyggðar tekur undir með stjórn SSNV og byggðaráði Skagafjarðar vegna vaxandi halla á rekstri málaflokks fatlaðs fólks. Í bókun byggðaráðs Skagafjarðar segir m.a. "Lögbundið framlag til sveitarfélaganna og fjárframlög Jöfnunarsjóðs standa engan vegin undir rekstri málaflokksins og hefur svo verið um nokkurra ára skeið." Skipaður hefur verið starfshópur félags- og vinnumarkaðsráðherra um mótun tillagna um kostnaðarskiptingu ríkis og sveitarfélaga vegna þjónustu við fatlað folk og skorar byggðaráð Húnabyggðar á ráðherra að hraða þeirri vinnu. Byggðaráð tekur jafnframt undir bókun stjórnar SSNV um að bregðast þurfi við vandanum með auknum fjárframlögum strax á þessu ári. Bókun fundar Sveitarstjórn Húnabyggðar tekur undir bókun byggðaráðs vegna vaxandi halla á rekstri málaflokks fatlaðs fólks með vísan til bókana SSNV og byggðaráðs Skagafjarðar.

6.Skipulags- og byggingarnefnd Húnabyggðar - 3

2208002F

Fundargerð 3. fundar skipulags- og bygginganefndar lögð fram til staðfestingar á 8. fundi sveitarstjórnar eins og einstök erindi bera með sér.

Að loknum umræðum um fundargerðina var hún borin upp og staðfest af sveitarstjórn með 9 atkvæðum samhljóða.
  • 6.1 2209003 Reglur um úthlutun nýrra lóða
    Skipulags- og byggingarnefnd Húnabyggðar - 3 Umræður urðu um núverandi reglur og reglur um byggingartíma. Drög lögð fram til kynningar.
  • 6.2 2208028 Umferðaröryggismál við Húnabraut
    Skipulags- og byggingarnefnd Húnabyggðar - 3 Nefndin leggur til eftirfarandi atriði til að bæta umferðaröryggi við félagsmiðstöð og grunnskóla. Sett verði skilti "Börn á leið í skóla" á Melabraut og tveimur stöðum á Húnabraut,upplýst gangbrautarmerki, þrenging, hraðahindrun og gangbraut við Húnabraut 5.
    Loka gönguleið út á Húnabraut til bráðabirgða á móts við Húnabraut 5 þar til gangbraut kemur.

    Nefndin leggur til að farið verði í umferðaröryggisáætlun fyrir sveitarfélagið.
  • 6.3 2209006 Umsókn um lóð Sunnubraut 11
    Skipulags- og byggingarnefnd Húnabyggðar - 3 Lóðin er skipulögð sem einbýlishúsalóði og tilbúin til úthlutunar. Bent er á að núverandi nýtingarhlutfall á lóðum á svæðinu er 0,15-0,3, nýtingahlutfall á húsinu sem fylgir umsókninni er 0,085. Úthlutun lóðarinnar er vísað til byggðarráðs.
  • 6.4 2209013 Bergsstaðir land - umsókn um framkvæmdaleyfi
    Skipulags- og byggingarnefnd Húnabyggðar - 3 Skipulags- og byggingarnefnd frestar afgreiðslu þar sem misræmi er í gögnum á afsali og lóðaruppdætti er varðar stærð lóðar. Nefndin getur ekki tekið afstöðu fyrr en fyrir liggur þinglýstur lóðaruppdráttur sem er hnitsettur og undirritaður af aðliggjandi landeigendum.


7.Önnur mál

2206034

1. Umhverfisakademía

Valdimar O. Hermannsson lagði fram minnisblað um stöðu Umhverfisakademíu.

Einari Kristjáni Jónssyni var falið á 3. fundi sveitarstjórnar að boða til stofnfundar Umhverfisakademíu.
Sveitarstjórn samþykkir að fela Pétri Arasyni, sveitarstjóra, að taka við málinu og boða til stofnfundar og fara með atkvæði sveitarfélagsins á fundinum.

2. Lokun Húnavallaskóla

Jón Gíslason lagði fram eftirfarandi bókun:

Vegna bókunar meirihluta sveitastjórnar Húnabyggðar á 6. fundi þar sem segir að minnihlutinn hafi ekki skilning á þeim lýðræðislegu sjónarmiðum sem liggja að baki ákvörðunar um lokun Húnavallaskóla strax í haust, vil ég taka fram að sú ákvörðun brýtur algerlega í bága við þann málefnasamning sem gerður var af samstarfsnefnd um sameiningu sveitarfélaganna tveggja, þar sem tveir sveitarstjórnarmenn meirihlutans sátu í og kosið var um í sameiningarkosningunum. Þar var lögð rík áhersla á að gefa sér góðan tíma til að sameina skólana á einn kennslustað svo tími gæfist til að nýta það besta úr báðum skólum við sameiningu þessara stofnana, og til þess gæfu menn sér tíma með rekstri skólana á báðum stöðum í 1 til 2 ár. Þessi ákvörðun á því að mínu mati ekkert skylt við lýðræðisleg vinnubrögð. Lokun Húnavallaskóla með svo fyrirvaralausum hætti er dapurleg og ótímabær endir á 53 ára farsælu skólastarfi Húnavallaskóla. Þau viðbrögð sem fulltrúar meirihlutans viðhöfðu við bókun minnihlutans um þessa ákvörðun á þarsíðasta fundi, þar á ég við framkomu við Guðnýju Ósk Jónasdóttur, þar sem hún mætti á sinn fyrsta sveitarstjórnarfund, voru að mínu mati algerlega óviðunandi og tel ég rétt að meirihlutinn biðjist afsökunar á þeirri framkomu.

Auðunn Steinn Sigurðsson óskaði eftir að hlé yrði gert á fundinum kl. 16:29.

Fundarhléi lauk kl. 16:39.

Guðmundur Haukur Jakobsson lagði fram eftirfarandi bókun fyrir hönd meirihluta sveitarstjórnar:

Meirihluti sveitarstjórnar vill árétta að í þeim málefnasamningi sem gerður var af samstarfsnefnd um sameiningu sveitarfélaganna tveggja kom orðrétt fram um fræðslumál: „Starfsemin verði sameinuð á einn kennslustað eigi síðar en haustið 2024.“ Framangreint orðalag útilokaði ekki að starfsemin yrði sameinuð strax undir eitt þak. Eins og komið hefur fram á fyrri sveitarstjórnarfundum, óskaði yfirgnæfandi meirihluti foreldra nemenda í Húnavallaskóla eftir því að börn þeirra myndu stunda nám á Blönduósi strax í haust. Ákvörðun um sameinað grunnskólhald á Blönduósi byggir á þeirri grundvallarafstöðu að ekki sé hægt að ganga gegn sterkum vilja meirihluta foreldra og skikka nemendur til þess að sækja Húnavallaskóla áfram. Slík vinnubrögð hefðu verið afar ólýðræðisleg og ekki til þess fallin að auka sátt í samfélaginu.
Þá vill meirihluti sveitarstjórnar benda á að vel hefur tekist til við sameiningu skólanna þrátt fyrir skamman undirbúningstíma.
Þá vísar meirihluti sveitarstjórnar ásökunum fulltrúa H-lista um óviðunandi viðbrögð á 6. fundi á bug og harmar það að upplifun Guðnýjar Óskar hafi verið þeim hætti sem fulltrúi H-lista heldur fram. Meirihlutinn vill jafnframt árétta það að þegar stærri og veigameiri mál eru rædd og tekin fyrir á sveitarstjórnarfundum þá sé það fullkomlega eðlilegt og liggi í hlutarins eðli að sveitarstjórnarfulltrúar eigi í skoðanaskiptum, sér í lagi þegar alvarlegar ásakanir og stór orð eru látin falla.

3. Framtíð Húnavallasvæðisins

Sveitarstjórn telur mikilvægt að mótuð sé stefna um framtíð Húnavallasvæðisins og mögulega sölu á eignum á svæðinu og felur viðræðuhóp sem skipaður var á 1. fundi sveitarstjórnar Húnabyggðar að taka formlega til starfa. Forseta sveitarstjórnar falið að boða fyrsta fund.
Hugheilar þakkir til allra þeirra sem sýnt hafa hluttekningu og samúð

Sveitarstjórn Húnabyggðar vill þakka sérstaklega allar þær hlýju kveðjur sem okkur hafa borist frá einstaklingum, embættismönnum, sveitarfélögum og fyrirtækjum um land allt. Það er gott að finna samhug og samkennd á erfiðum tímum og fyrir það erum við hjartanlega þakklát. Um leið og við þökkum fyrir okkur minnum við á að enn á fólk um sárt að binda og öll hlýja og náungakærleikur sem berst til þeirra fer á góðan stað.


Með góðum kveðjum,


Sveitarstjórn Húnabyggðar

Fundi slitið - kl. 17:55.

Getum við bætt efni þessarar síðu?