Laxárdalur er oft kallaður Laxárdalur fremri til aðgreiningar frá Laxárdal í Skefilsstaðahrepp í Skagafjarðarsýslu. Laxárdalur gengur fram af Refasveit. Liggur hann nær samhliða Langadal, frá Norðurá og fram undir Hlíðarskarð upp af Bólstaðarhlíð. Allmikil byggð var áður á dalnum og fram um 1930 voru þar um 20 býli en nú eru aðeins tvö í byggð, Balaskarð og Gautsdalur. Víða er grösugt á Laxárdal og margar jarðir þóttu þar góar bújarðir en ákaflega snjóþungt á vetrum.

Munnmæli herma að Máni landsnámsmaður byggi i Mánaskál og sé hann heygður á Illviðrahnjúk sem er austan dalsins, nálægt sýslumörkum. Sér þar enn fyrir þúst upphlaðinni sem þó er farin að láta á sjá. En sagt er að ekki hafi það leitt til giftu að grafa í Mánahaug eða raska honum.

(Landið þitt Ísland Þorsteinn Jósepsson Steindór Steindórsson, 1980)

Getum við bætt efni þessarar síðu?