Vatnsdæla á refli er verkefni sem hófst 16. júlí 2011 en undirbúningur hafði staðið yfir frá árinu 2008. Refillinn, sem er 47 metra langur og 50 sentímetrar að hæð, er hugmynd Jóhönnu Erlu Pálmadóttur á Akri. Annars árs nemendur á hönnunar- og arkitektadeild Listaháskóla Íslands árið 2011 teiknuðu undir stjórn Kristínar Rögnu Gunnarsdóttur teiknara. Fyrstu sporin tóku frú Vigdís Ágústsdóttir á Hofi og Ingimundur Sigfússon á Þingeyrum. Nöfnin og bæirnir tengjast sögunni beint en Hof var höfuðból og bústaður Vigdísar og Ingumundar gamla en sagan er talin skrifuð í klaustrinu á Þingeyrum árið 1270.

Sunnudaginn 24. nóvember 2024 voru lokaspor Vatnsdælurefilsins tekin í Kvennaskólanum á Blönduósi, eftir níu þúsund vinnustundir síðustu 13 ár.  Vatnsdælurefillinn var formlega afhentur samfélaginu í A-Hún við hátíðlega athöfn í íþróttahúsinu á Blönduósi 29. águst 2025.

Refillinn segir Vatnsdæla sögu og fyrir sögufróða á að vera hægt að rekja sig eftir honum með því að horfa á myndirnar. Meginmálið er í miðju en fyrir ofan og neðan það er bætt við eftir þörfum áherslum eða efni sem ekki hefur komist að í meginmáli. Haldið var utan um hversu oft var saumað og hve lengi með því að viðkomandi skrifaði nafn sitt í bók sem fylgir reflinum. Einnig var skrifað niður fæðingarár þess sem saumaði, tímafjöldann sem saumað var og hvað var saumað. 

 

 

Getum við bætt efni þessarar síðu?