Afréttarlöndin sem smöluð eru fyrir Undirfellsrétt eru Grímstungu- og Haukagilsheiði ásamt hluta úr Víðidalsfjalli.

Undirfellsrétt er í vestanverðum Vatnsdal við bæinn Undirfell. Undirfellsrétt í Vatnsdal hefur lengi verið ein af stærstu réttum landsins, og er enn, þótt fjárfjöldinn sé mun minni en hann var þegar flest var.  Gera má þó ráð fyrir að til réttar komi 10- 15.000 fjár á hverju hausti.

Núverandi rétt var byggð árið 1976.  Almenningurinn er á steyptum grunni, og er úr krossviði og vatnsrörum, dilkar eru um 50. Þegar réttin var byggð var blómatími sauðfjárræktar og kindur á hverjum bæ, en nú eru margir dilkar sem engin kind kemur í um réttaleytið.  Sumir aðrir eru hins vegar yfirfullir og segir það allt um búskaparþróunina, búum fækkar, og þau stækka.  Fjárlausu dilkarnir nýtast hins vegar vel fyrir fólk sem vill fylgjast með réttarstörfum, enda eru margir aðkomumenn sem koma í Undirfellsrétt á haustin til þess að taka þátt og spjalla við bændur.

Við hliðina á réttinni var reist aðstöðuhús með hreinlætisaðstöðu fyrir nokkrum árum og nefnist það Fellsbúð.  Þar er einnig veitingasala og hægt er að setjast niður og hvíla lúin bein, og jafnvel taka Vatnsdælingastemmu ef svo ber undir. 

Undirfellsrétt hefur lengi verið á svipuðum slóðum og nú er, og má vel sjá rústir tvennra eldri rétta á grundinni ofan hennar, rétta sem fyrst og fremst voru hlaðnar úr torfi.  Næsta rétt á undan þeirri sem nú stendur var á sama stað, en var rifin vorið 1976 og hin reist á sama stað.

Getum við bætt efni þessarar síðu?