Matslisti Gerd Strand fyrir 4 ára er huglægur matslisti, þýddur og staðfærður, með leyfi höfundar, af Guðjóni E. Ólafssyni, sérkennslufræðingi og Kristínu Björk Guðmundsdóttur, sérkennara. Niðurstöður mats eru ekki tilefni til endanlegs úrskurðar um frávik en geta gefið vísbendingar um að þörf sé á frekari athugunum. Hún tekur á flestum færni- og getuþáttum sem hafa áhrif á gengi nemenda í leikskólanámi en eftirfarandi þættir eru metnir; gróf- og fínhreyfingar, hegðun, mál- og tal, virkni, samskipti og þekking. Niðurstöður eru skráðar á línurit og ef í ljós koma áhyggjur vegna einhverra fyrrnefndra þátta, er brugðist við því í samstarfi við foreldra eða forráðamenn og sérfræðiaðstoðar óskað ef þess þykir þörf.
Matslisti Gerd Strand til að meta færni 7 ára skólanemenda var unnin af sérkennurum í húnvetnskum skólum ásamt fræðslustjóra A-Hún á árunum 2005-2008, útfrá hugmyndafræðinni á bak við matslistann fyrir 4 ára börn. Það voru sérkennararnir Gréta Björnsdóttir, Guðbjörg I. Guðmundsdóttir og Helga Ó. Aradóttir sem unnu að gerð listans, ásamt Sigríði B. Aadnegard leik- og grunnskólakennara og Guðjóni Ólafssyni sérkennslufræðingi og fræðslustjóra sem stýrði verkinu. Listinn er byggður upp af safni spurninga úr helstu færni- og getuþáttum sem hafa áhrif á nám og líðan nemenda í grunnskólum.
Matslistinn veitir foreldrum og kennurum mikilvægar upplýsingar um stöðu nemandans í ákveðnum færni – og getuþáttum. Þær upplýsingar auðvelda síðan fagfólki skólanna að koma til móts við þarfir hvers og eins nemanda á réttum forsendum. Matslistinn byggir á níu spurningaflokkum sem allir hafa mikla þýðingu í sambandi við nám og skólagöngu sjö ára barna. Spurningaflokkarnir varða: málþroska, eftirtekt/einbeitingu, fljótfærni/hvatvísi, virkni, samskipti, fín-og grófhreyfingar, sértæka erfiðleika, tilfinningar og líðan og almennan skilning og þekkingu. Allt eru þetta flokkar sem mikilvægt er fyrir kennara og foreldra að hafa sem réttasta mynd af til að nám og líðan viðkomandi nemanda verði sem best.
Húnabyggð hefur til sölu Gerd Strand matslista fyrir annars vegar 4 ára börn og hins vegar 7 ára börn. Skólar sem vilja kaupa listana er bent á að senda tölvupóst á dagny@hunabyggd.is
