Á fjórða áratug síðustu aldar setti Jakob H. Líndal (1936: Náttúrufræðingurinn, 6) fram aðrar kenningar um myndun Vatnsdalshóla og voru þær kenningar síðar studdar af Sigurði Þórarinssyni (1954: Náttúrfræðingurinn, 24) og Ólafi Jónssyni (1976: Berghlaup).

Jakob benti á að hvergi væri að finna vott af núinni möl eða steinum innan hólanna og að þeir væru ekki mengaðir af venjulegum jökulleir. Taldi hann líklegt að fell nokkurt hefði verið fyrir norðan Jörundarfell sem steypst hefði niður hlíðina. Því til stuðnings benti hann á að bergtegundir að norðanverðu í hólunum væru sömu gerðar og nyrst í skriðufarinu og sama væri upp á teningnum að sunnanverðu. Jakob áleit ennfremur að hólarnir hefðu myndast eftir ísöld og því til sönnunar benti hann á ummerki um hærri sjávarstöðu innar og utar í dalnum, en ekki fann hann neinn vott um strandlínur, fjörur né sjávarleir í hólunum sjálfum. Taldi hann að framhlaup hefði orðið í lok ísaldar, einkum vegna veikra millilaga í berggrunni.

Til skýringar á dreifingu hólanna, hélt Jakob að framhlaupið hefði verið blandað jökulstykkjum. Bergstykkin hafi síðan veðrast niður í keiluhóla og einstakir hólar jafnvel veðrast úr einu og sama bergstykkinu. Á tveimur stöðum innan hólanna fann Jakob hvalbakaðar basaltklappir með stefnu samhliða Vatnsdal og þóttist hann viss um að þær væru jökulsorfnar undirstöður hólanna.

Það sem vegur líklega þyngst er sú staðreynd að hvalbak sem finnst við Vatnsdalshólabæinn er innan um hóla sem rísa um 20-30 m upp yfir hvalbakið. Þarna er því um að ræða sönnun þess að hólarnir séu ekki úr föstum berggrunni, enda ólíklegt að jökull hafi sorfið basaltið í hvalbakinu, en látið hólana, sem eru úr rhýólíti og mun hærra í landslaginu, ósnerta. Þá fannst ekkert sem bendir til jökulræns uppruna hólanna, hvorki silt né núnir steinar.

(Vatnsdalur Hveravellir, Elsa Gunnarsdóttir Þuríður Helga Jónasdóttir, Leiðsöguskólinn Gönguleiðir, vorið 2006)

 

Vatnsdalshólar er víðáttumikil og sérkennileg hólaþyrping (hæst 84 m.y.s.) yst í Vatnsdal og girðir dalinn þveran, merkilegt náttúrufyrirbæri. Talið er að hólarnir hafi myndast af hruni úr Vatnsdalsfjalli, löngu fyrir Íslandsbyggð. Bergskriðan hefur stíflað Vatnsdalsá og myndað stöðuvatn sem nú er neðst í Vatnsdal. Flóðið varð hins vegar til þegar Bjarnastaðaskriða féll, árið 1720. Vatnsdalshólar ná yfir rúmlega fjögurra ferkílómetra svæði. Hafa þeir verið taldir meðal þriggja óteljandi náttúrufyrirbæra á Íslandi, hin tvö voru vötnin á Arnarvatnsheiði og eyjarnar á Breiðafirði.

Vestast í Vatnsdalshólum og norðan þjóðvegarins eru nokkrir einstakir smáhólar og á einum stað þrír samliggjandi, lágir hólar, Þrístapar. Þar fór fram síðasta aftaka á Íslandi, 12. janúar 1830, er hálshöggvin voru Friðrik Sigurðsson og Agnes Magnúsdóttir vegna morðs á Natani Ketilssyni og Pétri Jónssyni. Höggstokkurinn er varðveittur í Þjóðminjasafni Íslands en minningarsteinn er á aftökustaðnum.

Samnefndur bær hólunum, Vatnsdalshólar, er austan undir þeim við Flóðið.

(Landið þitt Ísland Þorsteinn Jósepsson Steindór Steindórsson, 1980)

Getum við bætt efni þessarar síðu?