Heimilisfang: Árbraut 31, 540 Blönduós
Sími: 452-4030
Netfang: textilmidstod@textilmidstod.is
Heimasíða: www.textilmidstod.is
Textílmiðstöð Íslands er staðsett í fögru umhverfi í sögufrægri byggingu, Kvennaskólanum á Blönduósi.
Textílmiðstöðin varð til vegna samþættingar Textílseturs Íslands (stofnað 2005) og Þekkingarsetursins á Blönduósi (stofnað 2012). Samþættingin felst í því að fulltrúaráð og stjórnir beggja stofnana eru sameinaðar og var ný stjórn kosin samkvæmt nýjum skipulagsskrám 8. janúar 2019.
Textílmiðstöðin er miðstöð öflugrar rannsóknar- og þróunarstarfssemi í textíl og sköpunarver ("creative hub"). Lögð er áhersla á nýsköpunar-, þróunar- og samstarfsverkefni sem stuðla að atvinnuuppbyggingu í tengslum við textíl og hringrásarhagkerfi. Jafnframt sinnir Textílmiðstöðin því hlutverki að bjóða upp á aðstöðu fyrir háskólanám, fullorðinsfræðslu og próftöku í samstarfi við Húnabyggð og aðila háskóla og símenntunarstöðva.
Starfsemi Textílmiðstöðvar byggir á samningi við Menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneytið. Þann 22. apríl 2020 voru formlega stofnuð Samtök þekkingarsetra (SÞS) sem Textílmiðstöð Íslands er aðili að. Um er að ræða netverk þekkingarsetra á landsbyggðinni sem starfa samkvæmt samningi við mennta- og menningarmálaráðuneytið. Meðal samningsbundinna verkefna setranna eru rannsóknir og þróun til eflingar byggðar, þjónusta við háskólanema, hagnýting og miðlun þekkingar sem og efling nýsköpunar, atvinnu og samfélagsþróunar.
Ós Textíllistamiðstöð hefur verið starfrækt í Kvennaskólanum síðan 2013. Ós er ætluð listafólki, fræðafólki og hönnuðum sem vinna með textíl.
Hægt er að senda inn umsóknir allt árið (open call). Dvölin í listamiðstöðinni er að lágmarki einn mánuður en geta verið fleiri. Boðið er upp á gisti- og vinnuaðstöðu fyrir allt að 14 einstaklinga. Listafólkið fær m.a. kynningu á Ullarþvottastöð Ístex og Heimilisiðnaðarsafninu á Blönduósi.
Hægt er að sækja um dvöl í listamiðstöðinni hvenær sem er á heimasíðu www.textilmidstod.is. Mikilvægt er að sækja um með góðum fyrirvara. Vinsamlegast athugið að aðgangur að Textíllabinu á Þverbrautinni og TC2 vefstóll er ekki innifalin og þarf að bóka sér.
