Þrístapar liggja vestast í Vatndalshólunum norðan þjóðvegarins og eru þetta nokkrir einstakir smáhólar og á einum stað eru þeir þrír samliggjandi sem kallast Þrístapar. Við veginn er skilti og bílaplan og um 200 metra frá planinu er að finna síðasta aftökustaðinn á Íslandi sem fór fram þann 12 janúar 1830. Þá voru tekin af lífi þau Friðrik Sigurðsson og Agnes Magnúsdóttir vegna morðs á Natani Ketilssyni og Pétri Jónssyni. Agnes var bústýra Natans að Illugastöðum í V-húnavatnssýslu og var Pétur einnig staddur á Illugastöðum en tildrög morðmálsins voru þau að fjandskapur var á milli Natans og Friðriks og taldi Friðrik, sem þá var 18 ára, að Natan hafði svikið sig í viðskiptum. Fjölmargir voru viðriðnir málið eða vissu um tilætlan Friðrik og reyndu að hylma yfir glæpinn, allt þetta fólk hlaut dóm en aðeins Friðrik, Agnes og Sigríður, sem einnig bjó á Illugastöðum, voru dæmd til að hálshöggvast en Sigríður fékk náðu konungs sökum aldurs, var aðeins 16, en dæmd í ævilanga þrælkun í staðin.


Guðmundur Ketilsson, bróðir Natans framdi verknaðinn og var mörgum bændum gert skylt að vera við athöfnina og var bannað að líta undan. Höfuðin voru sett á stöng en líkin dysjuð á staðnum. Höfuðin hurfu reyndar fljótlega af stöngunum. Líkin voru síðar grafin upp og jarðsett að Tjörn á Vatnsnesi.

Höggstokkurinn og öxin eru varðveitt á Þjóðminjasafni Íslands en minningarsteinn er á aftökustaðnum.

(Vatnsdalur Hveravellir, Elsa Gunnarsdóttir Þuríður Helga Jónasdóttir, Leiðsöguskólinn-gönguleiðsögn vorið 2006)

Getum við bætt efni þessarar síðu?