8. fundur 03. nóvember 2025 kl. 17:00 - 17:30
Nefndarmenn
  • Elín Ósk Gísladóttir formaður
  • Höskuldur Sveinn Björnsson aðalmaður
  • Anna Margrét Jónsdóttir aðalmaður
  • Berglind Hlín Baldursdóttir aðalmaður
  • Ingvar Björnsson aðalmaður var fjarverandi
Starfsmenn
  • Pétur Arason sveitarstjóri
Fundargerð ritaði: Pétur Arason sveitarstjóri

Dagskrá

 

  1. Umsókn um rannsóknarleyfi

Fyrir fundinum lá erindi frá Orkusölunni vegna rannsóknarleyfis vegna vatns­aflsvirkjunar á vatnasviði Vatnsdalsár.

 

Bókun fundarins

 

Umhverfisnefnd Húnabyggðar hefur tekið til umsagnar erindi Umhverfis- og orkustofnunar, dags. 10. október 2025, varðandi umsókn Orkusölunnar ehf. um rannsóknarleyfi á vatnasviði Vatnsdalsár í Austur-Húnavatnssýslu.

 

Nefndin tekur undir ábendingar Náttúruverndarstofnunar Íslands um að svæðið sé viðkvæmt og að framkvæmdin geti haft víðtæk og neikvæð áhrif á náttúru, vistkerfi og fuglalíf á svæðinu.

 

Að mati nefndarinnar er uppsett stærð þ.e. 28MW hlutfallslega lítið miðað við umfang þeirra framkvæmda og umhverfisáhrifa sem um ræðir.

 

Helstu umhverfisáhrif samkvæmt samantekt Náttúruverndarstofnunar Íslands (Náttúruverndarstofnun, 10. október 2025) eru:

 

  • Vatnafar og vatnalíf: Miðlunarlón myndi breyta rennslismynstri árinnar og skerða rennsli á fossaröðinni í efri hluta árinnar. Þetta hefði áhrif á lífríki árinnar, lax- og silungsstofna, seiði og hryggleysingja.
  • Fossar og náttúruminjar: Rennslisskerðing myndi hafa veruleg áhrif á fossana Skínanda, Kerafoss, Rjúkanda, Skessufoss og Bótarfoss sem eru á náttúruminjaskrá.
  • Gróður og vistgerðir: Miðlunarlón myndi leggja undir sig víðfeðmt votlendi, vötn og tjarnir sem njóta sérstakrar verndar samkvæmt 61. gr. náttúruverndarlaga. Rask á mýrum og votlendi er óafturkræft.
  • Fuglalíf: Svæðið er hluti af mikilvægu fuglasvæði (Víðidalstunguheiði–Blanda) og hefur alþjóðlegt gildi fyrir álft, himbrima og mófugla. Virkjunin myndi skerða búsvæði þeirra með lónmyndun, vatnsborðsbreytingum og raski á votlendi.
  • Landslag og víðerni: Uppbygging stíflu, lóns og pípulagnar myndi hafa mikil áhrif á ósnortið landslag og skerða upplifun af víðernum. 23 km² lón og stíflumannvirki væru mjög áberandi í landinu.

 

Að mati Náttúruverndarstofnunar yrðu umhverfisáhrif Vatnsdalsvirkjunar mjög víðtæk og gætu orðið neikvæð, einkum á fossaröð í Vatnsdalsá, vistkerfi vot­lendis, landslag og víðerni og fuglalíf svæðisins. Slíkar framkvæmdir myndu raska alþjóðlega mikilvægum búsvæðum fugla og skerða náttúruminjar sem njóta sérstakrar verndar samkvæmt 61. gr. náttúruverndarlaga.

 

Umhverfisnefnd tekur undir umsögn Náttúruverndarstofnunar og vill einnig benda á að umrætt miðlunarlón þekur að minnsta kosti 27 ferkílómetra af beitar­landi og myndi þannig skerða nýtingu Auðkúlu- og Grímstunguheiða verulega.

 

Auk þess sem fram hefur komið vill nefndin benda á að þegar liggur fyrir áætlun um frekari rennslisvirkjanir og stækkun Blönduvirkjunar. Að mati nefndarinnar er eðlilegra og hagkvæmara að klára það verkefni og hámarka nýtingu núverandi virkjunar á þegar röskuðu svæði, fremur en að hefja nýtt og umdeilt rannsóknar­ferli á viðkvæmu svæði með óvissu um hagkvæmni og áhrif.

 

Umhverfisnefnd Húnabyggðar leggur því til að beiðninni verði hafnað.

Getum við bætt efni þessarar síðu?