Dagskrá
1. Loftlagsstefna Húnabyggðar og Norðurlands vestra
Lögð fram nýleg loftlagsstefna Norðurlands vestra sem unnin var af KPMG í samstarfi við sveitarfélögin. Vinnan stendur ennþá yfir og verið er að skilgreina endanlegar áherslur sem stefnan býr til fyrir svæðið í heild sinni o.s.frv.
Ljóst er að ýmis tækifæri eru fyrir Húnabyggð að vinna með þennan málaflokk og þegar eru hafin verkefni sem hafa áhrif á kolefnisspor sveitarfélagsins. Þá hafa bændur unnið með þessar áherslur í sinni framleiðslu um árabil. Stærsta áskorun Húnabyggðar hvað þetta varðar er almennt hugarfar íbúa sem þarf að vinna með og virkja alla til þátttöku í aðgerðum í þessum málaflokki.
Ákveðið að bíða með frekari afgreiðslu á þessu máli þar til að fulltrúi SSNV getur komið og hitt nefndina.
2. Gámasvæði í Húnabyggð
Til umræðu var ástand gámasvæða í sveitarfélaginu og hvaða hugmyndir ætti að vinna með í framtíðarsýn þeirra mála.
Hvað varðar gámasvæðið á Blönduósi er það í daglegum rekstri verktaka, Terra, og er gildandi samningur þar um. Lagt er til að rætt verði við Terra um að skoða opnunartíma til að búa til meiri sveigjanleika fyrir íbúa. Ennfremur að kanna möguleika þess að íbúum sé hleypt inn á gámasvæðið utan opnunartíma með einhverskonar aðgangsstýringu.
Hvað varðar gámasvæði í dreifbýli er ljóst að endurhugsa þarf það skipulag frá grunni. Kemur til greina að hætta með þessi gámasvæði? Ættum við að loka gámasvæðunum og aðgangsstýra þeim? Ættu þau að vera stærri? Ættu þau að vera minni og fleiri? Landbúnaður er atvinnugrein þar sem ýmiskonar úrgangur verður til og þetta þarf að hugsa vel.
Nefndin ákveður að vísa málinu til frekari umræðu á næsta fundi nefndarinnar.
3. Umsókn um rannsóknarleyfi
Fyrir fundinum lá erindi frá Orkusölunni vegna rannsóknarleyfis vegna vatnsaflsvirkjunar á vatnasviði Vatnsdalsár. Nefndin ræddi málið en ákveður að fresta formlegri fyrirtöku til næsta fundar þar sem að á fundinn vantar tvo fastamenn nefndarinnar.
