60. fundur 11. nóvember 2025 kl. 15:00 - 17:31
Nefndarmenn
  • Guðmundur Haukur Jakobsson forseti
  • Ragnhildur Haraldsdóttir aðalmaður
  • Zophonías Ari Lárusson aðalmaður
  • Grímur Rúnar Lárusson aðalmaður
  • Elín Aradóttir aðalmaður
  • Jón Gíslason aðalmaður
  • Sævar Björgvinsson varamaður
  • Elín Ósk Gísladóttir varamaður
  • Maríanna Þorgrímsdóttir varamaður
Starfsmenn
  • Pétur Arason sveitarstjóri
Fundargerð ritaði: Pétur Arason sveitarstjóri

Dagskrá

  1. Viðaukar við fjárhagsáætlun 2025

Jón Ari Stefánsson kom inn á fundinn og fór yfir viðauka 6 sem skilgreinist á eftirfarandi hátt:

  • Eignfærðar endurbætur á íbúð í Hnitbjörgum að upphæð 25,0 millj. kr.

Viðaukanum er mætt með lækkun á handbæru fé að sömu upphæð.

Sveitarstjórn samþykkir samhljóða viðauka 6.

  1. Kosning í velferðarnefnd

Guðmundur Haukur Jakobsson, forseti sveitarstjórnar lagði fram eftirfarandi tillögu um skipan í velferðarnefnd:

Aðalmenn verði: Ragnhildur Haraldsdóttir, Elín Ósk Gísladóttir, Berglind Hlín Baldursdóttir, Ásdís Adda Ólafsdóttir og Þorbjörg Bjarnadóttir.

Varamenn verði: Zophonías Ari Lárusson, Jón Gíslason, Grímur Rúnar Lárusson, Ásdís Ýr Arnardóttir og Agnar Logi Eiríksson.

 

Bókun fundar

Sveitarstjórn Húnabyggðar staðfestir tillögu forseta um skipan velferðarnefndar samhljóða.

  1. Slit á Fasteignum Húnavatnshrepps ehf.

Fyrir fundinum lá fundargerð stjórnar Fasteigna Húnavatnshrepps sem leggur til við sveitarstjórn að félaginu verði slitið. Ráðgjafar KPMG hafa farið vel yfir málið og talið er hagkvæmast fyrir sveitarfélagið að sem flestar eignir þessu séu í eignasjóði en ekki í einkahlutafélögum. Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að slíta félaginu og felur sveitarstjóra að sjá til þess að það verði gert.

  1. Byggðarráð Húnabyggðar 121. fundur

Fundargerð 121. fundar byggðarráðs Húnabyggðar lögð fram til staðfestingar á 60. fundi sveitarstjórnar eins og einstök erindi bera með sér. Liður 4 þarfnast sérstakrar afgreiðslu. Að loknum umræðum um fundargerðina var hún borin upp og staðfest af sveitarstjórn með níu atkvæðum samhljóða.

  1. Kálfshamarsvík - vatnsmál

Lögð fram til kynningar drög að samkomulagi við landeiganda Kálfshamars vegna vatnsveitu fyrir Kálfshamarsvík. Byggðarráð leggur áherslu á að þau samningsatriði sem voru í fyrra samkomulaginu um efnistöku og vatnsveitu í þjónusthús flytjist með inn í nýjan samning. Byggðarráð samþykkir að öðru leiti samningsdrögin og felur sveitarstjóra að ganga frá samningnum.

  1. Fyrirspurn frá hótel Blönduósi

Byggðarráð felur sveitarstjóra að kanna hvaða svæði kæmi best til greina fyrir tímabundið tjaldsvæði nálægt gamla bænum vegna viðburðar sem þar verður haldinn sumarið 2026.

  1. Umsókn um rannsóknarleyfi á vatnasviði Vatnsdalsár

Byggðarráð vísar málinu til umfjöllunar Skipulags- og samgöngunefndar og Umhverfisnefndar.

  1. Gjaldskrá bóka- og skjalasafns

Byggðarráð samþykkir samhljóða framlagða gjaldskrá bóka- og skjalasafns og felur sveitar­stjóra að setja hana í auglýsingu.

Bókun fundar

Sveitarstjórn staðfestir framlagða gjaldskrá.

  1. Samningur við Farskólann

Byggðarráð samþykkir samhljóða endurnýjaðann samning við Farskólann og felur sveitarstjóra að ganga frá samningnum.

  1. Fagráð um málefni fatlaðs fólks fundargerð 38. fundar

Lagt fram til kynningar.

  1. Fundargerð 129. fundar stjórnar SSNV

Lagt fram til kynningar.

  1. Málefni fatlaðs fólks á Norðurlandi vestra - fjárhagsáætlun 2026

Lagt fram til kynningar.

  1. ÖBÍ - biðtími eftir NPA þjónustu

Lagt fram til kynningar.

  1. Kvennafrídagur 2025

Þar sem 50 ár eru liðin frá því að fyrsti kvennafrídagurinn var haldinn á Íslandi hefur framkvæmdastjórn Kvennaárs boðað til kvennaverkfalls þann 24. október.

Byggarráð styður réttindabaráttu kvenna og samþykkir að konum og kvárum sem vinna hjá sveitarfélaginu sé heimilt að leggja niður störf á launum þennan dag milli klukkan 14:00-16:00. Á þeim tíma fer fram útifundur á Arnarhóli í Reykjavík. Þeir starfsmenn Húnabyggðar sem óska eftir að leggja niður störf er bent á að tilkynna það yfirmönnum sínum ekki seinna en 20. október. Forstöðumenn stofnanna Húnabyggðar er falið að gera viðeigandi ráðstafanir varðandi afleysingar eða lokanir og að tryggt sé að allir þjónustuþegar séu vel upplýstir um breytingar á þjónustu á þeim tíma sem um ræðir.

  1. Framlög til verkefna á sviði almenningssamgangna

Byggðarráð felur menningar- íþrótta-, tómstundafulltrúa Húnabyggðar að vinna málið áfram og stofna um það verkefnahóp sem vinnur tillögur að útfærslu verkefnisins. Tillögur séu lagðar fyrir byggðarráð áður en að vinnu við fjárhagsáætlun líkur í nóvember.

  1. Lóðarmál við Húnabraut 4 og 6

Byggðarráð samþykkir að gerðar verði nauðsynlegar bráðabirgðaaðgerðir til að bæta aðgengi á svæðinu og vísar til gerð fjárhagsáætlunar frekari umbótum á umræddu svæði.

  1. Fjármál Húnabyggðar

Sigurður Erlingsson kom inn á fundinn undir þessum lið og fór yfir minnisblöð um úrgangsmál og veitustarfsemi Húnabyggðar. Þá var einnig farið yfir forsendur fjáhagsáætlunar Húnabyggðar og tímalínu fjárhagsáætlunarvinnunnar sem þegar er hafin.

 

  1. Skipulags- og samgöngunefnd Húnabyggðar 48. fundur

Fundargerð 48. fundar skipulags- og samgöngunefnd Húnabyggðar lögð fram til staðfestingar á 60. fundi sveitarstjórnar eins og einstök erindi bera með sér. Að loknum umræðum um fundargerðina var hún borin upp og staðfest af sveitarstjórn með níu atkvæðum samhljóða.

  1. Aðalskipulag sameinaðara þriggja sveitarfélaga

Áframhaldandi vinna við nýtt aðalskipulag sameinaðra sveitarfélaga.

Farið var yfir skipulag miðhálendisins.

 

  1. Byggðarráð Húnabyggðar 122. fundur

Fundargerð 122. fundar byggðarráðs lögð fram til staðfestingar á 60. fundi sveitarstjórnar eins og einstök erindi bera með sér. Liður 1 þarfnast sérstakrar afgreiðslu. Liðir 1 og 4 þarfnast sérstakrar afgreiðslu. Að loknum umræðum um fundargerðina var hún borin upp og staðfest af sveitarstjórn með níu atkvæðum samhljóða.

  1. Slæmt ástand vega í dreifbýli Húnabyggðar

Byggarráð tekur undir þær áhyggjur og athugasemdir sem komið hafa frá skólabílstjórum og sendar hafa verið af skólastjóra Húnaskóla til Vegagerðarinnar. Í fyrri bókunum byggðarráðs á þessu ári hafa komið fram ábendingar um slæmt ástand vega í dreifbýli Húnabyggðar. Það er því miður á mörgum stöðum algjörlega óviðunandi. Það á ekki síst við um Svínvetningabraut frá þjóðveginum við Svartárbrú að Kjalvegi sem er á köflum hættulegur og einnig þaðan niður Svínvetningabraut að bundna slitlaginu. Þá eru vegir í vestanverðum Svínadal og beggja vegna í Blöndudal slæmir og beinlínis hættulegur að austanverðu. Þá er vegurinn í Svartárdal mjög slæmur. Að lokum skal nefna veginn út á Skaga, en í nýrri skýrslu um banaslys í umferðinni sem gefin var út af Rannsóknarnefnd samgönguslysa er uppbygging vegarins, skortur á merkingum o.fl. gagnrýnt.

Bókun fundar

Sveitarstjórn tekur undir bókun byggðarráðs um slæmt ástand vega í dreifbýli Húnabyggðar og gerir sér væntingar um að ný samgönguáætlun muni tryggja að þær framkvæmdir sem þegar hafa verið skilgreindar verði settar á dagskrá.

  1. Skýrsla um refa- og minkaveiði 2024

Refaveiði hefur gengið vel og veiði hefur aukist á milli ára. Minkaveiði hefur staðið í stað og ljóst að þar verður gera átak næsta vor.

  1. Norðurá – fundargerð stjórnar og ný gjaldskrá

Lagt fram til kynningar og byggðaráð sem áður mótmælir því að stjórn Norðurár setji sig á móti því að færa gjaldskrá Stekkjarvíkur að gjaldskrám annarra urðunarstaða. Byggðarráð tekur undir bókun stjórnar Norðurár þess efnis að endurskoða þurfi verklagsreglur um móttöku úrgangs, viðbrögð við frávikum og verklag við eftirlit. Byggðaráð hefur um nokkra ára skeið bent á mikilvægi þess að eftirlitsferlar séu bættir hvað varðar þau efni sem urðuð eru í Stekkjarvík.

  1. Fundargerð sáttafundar vegna landamerkja á Skagaheiði

Lagt fram til kynningar og byggðarráð leggur til við sveitarstjórn Húnabyggðar að staðfesta samkomu­lagið.

Bókun fundar

Sveitarstjórn staðfestir niðurstöðu sáttarfundur vegna landamerkja á Skagaheiði.

  1. Fundargerðir fagráðs Barnaverndarþjónustu Mið-Norðulands

Lagt fram til kynningar.

  1. Framlag ríkisins 2025 vegna barna með fjölþættan vanda

Lagt fram til kynningar.

  1. Fundargerð 986. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga

Lagt fram til kynningar.

  1. Fjárhagsáætlunargerð fyrir árið 2026

Inn á fundinn kom Magnús Kristjánsson frá KPMG og fór yfir stöðu slita þriggja byggðarsamlaga sem nú standa yfir. Umtalsverð áhrif á fjárhag sveitarfélagsins verða af þessum slitum og reiknað er með að jákvæðra áhrifa gæti farið að gæta strax á næsta ári.

Inn á fundinn kom einnig kom Þorsteinn Þorsteinsson frá KPMG og fór yfir málefni Fasteigna Húnabyggðar ehf.

Að lokum fór Sigurður Erlingsson yfir stöðu fjárfestinga og áætlun um í hvaða fjárhæð fjárfestingaáætlun ársins 2025 endar. Útlit er fyrir að áætlun ársins verði nýtt að fullu og að auka þurfi við áætlunina vegna endurnýjunar íbúðar í Hnitbjörgum sem nú er í eigu Húnabyggðar. Rædd voru nokkur þeirra atriða sem koma til með að vera í fjárfestingaáætlun Húnabyggðar 2026-2029. Enn á eftir að vinna fjárfestingaráætlunina töluvert áfram sem gert verður á næstu fundum byggðarráðs. Þá var farið yfir lántöku Húnabyggðar á árinu 2025 en áætlað er að klára lántökur ársins á næstu vikum.

 

  1. Umhverfisnefnd Húnabyggðar 7. fundur

Fundargerð 7. fundar umhverfisnefndar Húnabyggðar lögð fram til staðfestingar á 60. fundi sveitarstjórnar eins og einstök erindi bera með sér. Að loknum umræðum um fundargerðina var hún borin upp og staðfest af sveitarstjórn með níu atkvæðum samhljóða.

  1. Loftlagsstefna Húnabyggðar og Norðurlands vestra

Lögð fram nýleg loftlagsstefna Norðurlands vestra sem unnin var af KPMG í samstarfi við sveitarfélögin. Vinnan stendur ennþá yfir og verið er að skilgreina endanlegar áherslur sem stefnan býr til fyrir svæðið í heild sinni o.s.frv.

Ljóst er að ýmis tækifæri eru fyrir Húnabyggð að vinna með þennan málaflokk og þegar eru hafin verkefni sem hafa áhrif á kolefnisspor sveitarfélagsins. Þá hafa bændur unnið með þessar áherslur í sinni framleiðslu um árabil. Stærsta áskorun Húnabyggðar hvað þetta varðar er almennt hugarfar íbúa sem þarf að vinna með og virkja alla til þátttöku í aðgerðum í þessum málaflokki.

Ákveðið að bíða með frekari afgreiðslu á þessu máli þar til að fulltrúi SSNV getur komið og hitt nefndina.

  1. Gámasvæði í Húnabyggð

Til umræðu var ástand gámasvæða í sveitarfélaginu og hvaða hugmyndir ætti að vinna með í framtíðarsýn þeirra mála.

Hvað varðar gámasvæðið á Blönduósi er það í daglegum rekstri verktaka, Terra, og er gildandi samningur þar um. Lagt er til að rætt verði við Terra um að skoða opnunartíma til að búa til meiri sveigjanleika fyrir íbúa. Ennfremur að kanna möguleika þess að íbúum sé hleypt inn á gámasvæðið utan opnunartíma með einhverskonar aðgangsstýringu.

Hvað varðar gámasvæði í dreifbýli er ljóst að endurhugsa þarf það skipulag frá grunni. Kemur til greina að hætta með þessi gámasvæði? Ættum við að loka gámasvæðunum og aðgangsstýra þeim? Ættu þau að vera stærri? Ættu þau að vera minni og fleiri? Landbúnaður er atvinnugrein þar sem ýmiskonar úrgangur verður til og þetta þarf að hugsa vel.

Nefndin ákveður að vísa málinu til frekari umræðu á næsta fundi nefndarinnar.

  1. Umsókn um rannsóknarleyfi

Fyrir fundinum lá erindi frá Orkusölunni vegna rannsóknarleyfis vegna vatns­aflsvirkjunar á vatnasviði Vatnsdalsár. Nefndin ræddi málið en ákveður að fresta formlegri fyrirtöku til næsta fundar þar sem að á fundinn vantar tvo fastamenn nefndarinnar.

 

  1. Byggðarráð Húnabyggðar 123. fundur

Fundargerð 123. fundar byggðarráðs Húnabyggðar lögð fram til staðfestingar á 60. fundi sveitarstjórnar eins og einstök erindi bera með sér. Liðir 2 og 11 þarfnast sérstakrar afgreiðslu. Að loknum umræðum um fundargerðina var hún borin upp og staðfest af sveitarstjórn með níu atkvæðum samhljóða.

  1. Kosning setts formanns byggðarráðs í fjarveru formanns og varaformanns

Grímur Rúnar Lárusson lagði fram þá tillögu að Jón Gíslason gegni formennsku í bygggðarráði á 123. fundi byggðarráðs í fjarveru formanns og varaformanns. Engar aðrar tillögur láu fyrir og Jón Gíslason því réttkjörinn.

  1. Erindisbréf velferðarnefndar

Nýtt erindisbréf velferðarnefndar Húnabyggðar lagt fram til kynningar og það staðfest af hálfu byggðarráðs.

Bókun fundar

Sveitarstjórn staðfestir erindisbréf velferðarnefndar með áorðnum breytingum.

  1. Samgöngumál Húnabyggðar

Rædd voru samgöngumál Húnabyggðar og staða þeirra stóru verkefna sem í gangi eru og/eða fyrirhuguð hjá Vegagerðinni. Erindi hefur verið sent á innviðaráðherra og sveitarstjóra er falið að kanna stöðu Vatnsdalsvegarverkefnisins sem á að vera hafið og fylgja á eftir erindinu sem sent var til innviðaráðuneytisins sem varðaði Vatnsdalsveg, Svínvetningabraut og Skagaveg.

  1. Þingeyrakirkjugarður

Tekið fyrir erindi frá sóknarnefnd Þingeyrasóknar er varðar umsókn um styrk vegna Þingeyrakirkjugarðs. Byggðarráð samþykkir að leggja til 1.000.000kr. í verkefnið og að tekið verði tillit til þess í fjárhagsáætlun 2026.

  1. Samningar við Textílmiðstöð Íslands, Þekkingarsetur og Ós textílmiðstöð

Gildandi samningar við Textílmiðstöðvarinnar lagðir fram til kynningar og hugmyndir um útfærslu framtíðarsamnings ræddar. Sveitarstjóra falið að vinna málið áfram.

  1. Leigusamningur við SSNV

Lagður fram til kynningar leigusamningur við SSNV vegna aðstöðu í kvennaskólanum og sveitarstjóra falið að vinna að endanlegri útgáfu samningsins.

  1. Úthlutun úr Námsgagnasjóði 2025

Lagt fram til kynningar en Húnaskóli hefur fengið úthlutað 330.621kr. í námsgagnakaup.

  1. Fundargerð 987. fundar stjórnar Sambandsins

Lagt fram til kynningar.

  1. Framkvæmdaráð málefna fatlaðs fólks á Norðurlandi vestra – 39. fundur.

Lagt fram til kynningar.

  1. Öryggismál við Húnaskóla

Erindi barst frá foreldrafélagi Húnaskóla vegna hættu sem skapast þegar börn eru að leik í kirkjubrekkunni á snjóþotum, snjósleðum o.s.frv. og eiga það til að lenda á vegg Íþróttamiðstöðvarinnar. Erindinu fylgdu hugmyndir að lausnum sem byggðarráð felur sveitarstjóra að skoða ásamt Þjónustumiðstöð með það fyrir augum að finna leið til að auka öryggi barnanna.

  1. Fjárhagsáætlunargerð fyrir árið 2026

Inn á fundinn komu Jón Ari Stefánsson og Sigurður Erlingsson og fóru yfir forsendur og uppstillingu fjárhagsmódels Húnabyggðar fyrir árið 2026. Einnig var farið yfir drög að útgöngu­spá fyrir 2025.

Byggðarráð ákveður að framvegis verði almennar gjaldskrárhækkanir Húnabyggðar næsta árs miðaðar við verlagsþróun undangenginna 12 mánaða. Á þennan hátt mun sveitarfélagið fylgja verðlagsþróun hvers tíma, með smá seinkun, en þó þannig að aldrei er verið að van- eða ofáætla hækkanir á gjaldskrám. Almennar gjaldskrárhækkanir ársins 2026 verða því 3,8% sem er verðlagsþróun síðustu 12 mánaða. Skoða þarf sérstaklega gjaldskrár úrgangsmála og fráveitu í dreifbýli og mun það verða gert á næstu fundum byggðarráðs.

Byggðarráð samþykkir að farið verði í endurbætur á einni íbúð í Hnitbjörgum á árinu 2025 og að gerður verði viðauki á fjáhagsáætlun 2025 upp á 25 milljónir vegna þessa.

Tekin var fyrir lántökuþörf Húnabyggðar á árinu 2025 og byggðarráð leggur til við sveitarstjórn að tekið verði allt að 140.000.000kr. lán núna og að þannig verði heildarlántaka Húnabyggðar allt að 340.000.000kr. á árinu 2025.

Fjárfestingaáætlun ársins 2026 var rædd og farið yfir hvaða helstu verkefni eiga að vera í fókus. Sveitarstjóra falið að vinna áætlunina áfram fyrir næsta fund.

Formaður leggur til að haldnir verði tveir fundir í næstu viku þ.e. á þriðjudag klukkan 15:00 og fimmtudag klukkan 15:00. Sveitarstjóra falið að boða til fundanna. Tillagan samþykkt samhljóða.

Bókun fundar

Sveitarstjórn heimilar að sótt verði um allt að 140.000.000kr. lán til Lánasjóðs Íslenskra Sveitarfélaga og felur sveitarstjóra að undirbúa lántökuna og leggja fram formleg gögn á næsta fundi sveitarstjórnar láninu til staðfestingar.

  1. Fjallskilanefnd Húnabyggðar 4. fundur

Fundargerð 4. fundar fjallskilanefndar Húnabyggðar lögð fram til staðfestingar á 60. fundi sveitarstjórnar eins og einstök erindi bera með sér. Að loknum umræðum um fundargerðina var hún borin upp og staðfest af sveitarstjórn með níu atkvæðum samhljóða.

  1. Girðingamál

Eins og áður hefur verið bent á er ýmislegt á Skrapatungu- og Laxárdalsafrétta sem mætti skoða t.d. í Norðurárdal og Langadal. Fjallskilastjórum falið að skoða málið, sem er stórt, og koma með tillögur sem lagðar verða fyrir fjallskilanefnd. Endurýjaður verði hluti af innnrekstrarhólfi á Fossárrétt.

Skoða möguleika á því að hætt verði að sleppa fé á þau svæði þar sem fé leitar í Blöndugil (bæði vestan- og austanmegin). Fjallskilastjórum falið að ræða þessi mál í sínum deildum og koma með tillögur fyrir fjallskilanefnd.

Skoða stuttan kafla upp á Svínadalsfjalli þar sem tengist Hrafnabjargarhólf og Gafl. Skoða hvort að hægt sé að laga aðstæður við að setja á bíl fyrir fé á Hrafabjargartungu.

Setja fókus á að ná að taka niður girðingar á Auðkúluheiði sem talað hefur verið um síðustu ár.

Huga að viðhaldi á girðingu á milli Húnabyggðar og Húnaþingsvestra norðan Víðidalsfjalls.

Annars er almennn ánægja hjá fjallskiladeildum með þá girðingavinnu sem framkvæmd var í sumar.

  1. Styrkvegir

Skoða þarf Landbrotasjóð eða svipaða sjóði til að sækja um fjármagn til að verja veginn við Stafnsrétt.

Skoða vegstubbinn frá Skrapatungu að Skrapatungurétt. Eins að skoða árlegt viðhald á Laxárdalsvegi.

Að öðru leiti verði horft til áframhaldandi framkvæmda á Grímstuguheiði og fyrir ofan Kárdalstungu.

  1. Framkvæmdir við skála o.fl.

Framkvæmdir við Galtarárskála eru komnar vel á veg en verið er að skipta um gólf í húsinu og gert er ráð fyrir að þessar framkvæmdir verði kláraðar á næsta ári.

Á næsta ári mun verða settur fókus á Áfangaskála en þar þarf sömuleiðis að skipta um gólf í anddyri og salernum. Skoða þarf járn á hesthúsunum á Hveravöllum (skoða eignarhald á því húsi).

  1. Fjallskil og gangnaseðlar

Nokkur umræða um ábyrgð og ábyrgðarsvæði fjallskiladeilda, skoða þarf þessi mál og athuga hvort hægt sé að hagræða og hugsa hlutina að einhverju leiti upp á nýtt hvað sum landsvæði varðar.

  1. Fjallskilasamþykkt A-Hún

Nokkur umræða var um fjallskilasamþykktina og ljóst er að okkur atriði hennar þarfnast breytinga. Ákveðið að vísa umræðunni til næsta fundar og vinna málið áfram á fundum fjallskilanefndar í vetur. Formönnum fjallskiladeilda falið að safna saman þeim hugmyndum sem kunna að vera hjá bændum um þessi mál.

  1. Réttir og göngur

Skoða þarf réttardaga á næsta ári sem mögulega eru of seint miðað við hvernig dagatalið lítur út.

  1. Annað

Fjallskilanefnd vill koma á framfæri þökkum til Landsvirkjunar vegna skjótra viðbragða við hættulegum aðstæðum sem sköpuðust við veituskurð Blönduvirkjunar. Þar höfðu í sumar fest fé á bröttum bökkum sem myndast höfðu við veituskurðinn, en nú er búið að búa til aflíðandi fláa og þar með geta þessar hættulegu aðstæður ekki skapast.

Ekkert annað rætt og ákveðið að næsti fundur nefndarinnar verði 24. nóvember.

  1. Umhverfisnefnd Húnabyggðar 8. fundur

Fundargerð 8. fundar umhverfisnefndar Húnabyggðar lögð fram til staðfestingar á 60. fundi sveitarstjórnar eins og einstök erindi bera með sér. Að loknum umræðum um fundargerðina var hún borin upp og staðfest af sveitarstjórn með níu atkvæðum samhljóða.

  1. Umsókn um rannsóknarleyfi

Fyrir fundinum lá erindi frá Orkusölunni vegna rannsóknarleyfis vegna vatns­aflsvirkjunar á vatnasviði Vatnsdalsár.

Bókun fundar

Umhverfisnefnd Húnabyggðar hefur tekið til umsagnar erindi Umhverfis- og orkustofnunar, dags. 10. október 2025, varðandi umsókn Orkusölunnar ehf. um rannsóknarleyfi á vatnasviði Vatnsdalsár í Austur-Húnavatnssýslu.

Nefndin tekur undir ábendingar Náttúruverndarstofnunar Íslands um að svæðið sé viðkvæmt og að framkvæmdin geti haft víðtæk og neikvæð áhrif á náttúru, vistkerfi og fuglalíf á svæðinu.

Að mati nefndarinnar er uppsett stærð þ.e. 28MW hlutfallslega lítið miðað við umfang þeirra framkvæmda og umhverfisáhrifa sem um ræðir.

Helstu umhverfisáhrif samkvæmt samantekt Náttúruverndarstofnunar Íslands (Náttúruverndar­stofnun, 10. október 2025) eru:

  • Vatnafar og vatnalíf: Miðlunarlón myndi breyta rennslismynstri árinnar og skerða rennsli á fossaröðinni í efri hluta árinnar. Þetta hefði áhrif á lífríki árinnar, lax- og silungsstofna, seiði og hryggleysingja.
  • Fossar og náttúruminjar: Rennslisskerðing myndi hafa veruleg áhrif á fossana Skínanda, Kerafoss, Rjúkanda, Skessufoss og Bótarfoss sem eru á náttúruminjaskrá.
  • Gróður og vistgerðir: Miðlunarlón myndi leggja undir sig víðfeðmt votlendi, vötn og tjarnir sem njóta sérstakrar verndar samkvæmt 61. gr. náttúruverndarlaga. Rask á mýrum og votlendi er óafturkræft.
  • Fuglalíf: Svæðið er hluti af mikilvægu fuglasvæði (Víðidalstunguheiði–Blanda) og hefur alþjóðlegt gildi fyrir álft, himbrima og mófugla. Virkjunin myndi skerða búsvæði þeirra með lónmyndun, vatnsborðsbreytingum og raski á votlendi.
  • Landslag og víðerni: Uppbygging stíflu, lóns og pípulagnar myndi hafa mikil áhrif á ósnortið landslag og skerða upplifun af víðernum. 23 km² lón og stíflumannvirki væru mjög áberandi í landinu.

Að mati Náttúruverndarstofnunar yrðu umhverfisáhrif Vatnsdalsvirkjunar mjög víðtæk og gætu orðið neikvæð, einkum á fossaröð í Vatnsdalsá, vistkerfi vot­lendis, landslag og víðerni og fuglalíf svæðisins. Slíkar framkvæmdir myndu raska alþjóðlega mikilvægum búsvæðum fugla og skerða náttúruminjar sem njóta sérstakrar verndar samkvæmt 61. gr. náttúruverndarlaga.

Umhverfisnefnd tekur undir umsögn Náttúruverndarstofnunar og vill einnig benda á að umrætt miðlunarlón þekur að minnsta kosti 27 ferkílómetra af beitar­landi og myndi þannig skerða nýtingu Auðkúlu- og Grímstunguheiða verulega.

Auk þess sem fram hefur komið vill nefndin benda á að þegar liggur fyrir áætlun um frekari rennslisvirkjanir og stækkun Blönduvirkjunar. Að mati nefndarinnar er eðlilegra og hagkvæmara að klára það verkefni og hámarka nýtingu núverandi virkjunar á þegar röskuðu svæði, fremur en að hefja nýtt og umdeilt rannsóknar­ferli á viðkvæmu svæði með óvissu um hagkvæmni og áhrif.

Umhverfisnefnd Húnabyggðar leggur því til að beiðninni verði hafnað.

  1. Skipulags- og samgöngunefnd Húnabyggðar 49. fundur

Fundargerð 49. fundar skipulags- og samgöngunefndar Húnabyggðar lögð fram til staðfestingar á 60. fundi sveitarstjórnar eins og einstök erindi bera með sér. Liðir 1, 2, 3, 4, 5, 6, 7, 8, 9, 10, 11 og 13 þarfnast sérstakrar afgreiðslu. Að loknum umræðum um fundargerðina var hún borin upp og staðfest af sveitarstjórn með níu atkvæðum samhljóða.

  1. Auðkúluheiði, stærðarbreyting á þjóðlendu

Forsætisráðuneytið sækir um leiðréttingu á stærð á þjóðlendu Auðkúluheiðar L234257 samkvæmt úrskurði Óbyggðanefndar í máli nr. 1-5/2023.

Skipulags- og samgöngunefnd leggur til við sveitarstjórn að samþykkja stærðarbreytinguna.

Bókun fundar

Sveitarstjórn samþykkir stærðarbreytinguna.

  1. Eyvindarstaðaheiði, stærðarbreyting á þjóðlendu

Forsætisráðuneytið sækir um leiðréttingu á stærð á þjóðlendu Auðkúluheiðar L234257 samkvæmt úrskurði Óbyggðanefndar í máli nr. 1-5/2023.

Skipulags- og samgöngunefnd leggur til við sveitarstjórn að samþykkja stærðarbreytinguna með fyrirvara um að leiðrétting á stærðarskráningu og eigandaskráningu berist.

Bókun fundar

Sveitarstjórn samþykkir stærðarbreytinguna með sömu fyrirvörum og skipulags- og samgöngunefnd.

  1. Umsókn um breytingu á aðalskipulagi vegna efnistökusvæðis við Hvammsá

Tekin fyrir beiðni Vegagerðarinnar um skilgreiningu efnistökusvæðis við Hvammsá í Langadal. Sömuleiðis er óskað eftir heimild til framkvæmda vegna bakkavarna að Hvammi í Langadal við Blöndu. Fyrir liggur skipulagslýsing dags. 7. október s.l. frá Landslagi ehf.

Skipulags- og samgöngunefnd leggur til við sveitarstjórn að skipulagslýsing vegna efnistökusvæðis við Hvammsá verði samþykkt með fyrirvara um nákvæma afmörkun og samþykki landeigenda. Skipulags- og byggingarfulltrúa verði í framhaldinu falið að kanna umhverfismatsskyldu hjá Skipulagsstofnun og kynna skipulagslýsingu almenningi skv. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Bókun fundar

Sveitarstjórn samþykkir breytinguna með fyrirvara um nákvæmri afmörkun efnistökusvæðisins og leyfi landeigenda.

  1. Vatnsdalsá, umsagnarbeiðni um rannsóknarleyfi

Orkusalan ehf. sækir um rannsóknarleyfi vegna vatnsaflsvirkjunar á vatnasviði Vatnsdalsár. Málinu var vísað til Skipulags- og samgöngunefndar frá 121. fundi Byggðarráðs sem haldin var þann 15. október 2025.

Skipulags- og samgöngunefnd ákveður að vísa málinu til sveitarstjórnar.

Samþykkt með fjórum atkvæðum ZAL situr hjá.

Bókun fundar

Sveitarstjórn samþykkir með sjö atkvæðum (GRL sat hjá) að veita ekki formlega umsögn um umsókn um rannsóknarleyfi þar sem ekki liggur fyrir formlegt samþykki allra landeigenda á umræddu svæði. Þá telur sveitarstjórn að skýra þurfi betur í umsókninni hvert uppsett afl fyrirhugaðrar virkjunar á að vera og hver stærð miðlunarlóns sé nákvæmlega.

JG vék af fundi undir þessum lið.

  1. Umsókn um stofnun þjónustulóðar á Hveravöllum.

Húnabyggð sækir um að stofna þjónustulóð á Hveravöllum L14300 samkvæmt uppdrætti gerðum af Mateusz Wiktorowicz. Lóðin verður 21.466m2 að stærð og fær staðfangið Hveravellir Þjónustulóð.

Skipulags- og samgöngunefnd leggur til við sveitarstjórna að samþykkja stofnun lóðar.

Bókun fundar

Sveitarstjórn samþykkir stofnun lóðarinnar.

  1. Deiliskipulag fyrir vatnsaflsstöðina Blöndustöð

Tekin fyrir tillaga að deiliskipulagi Blöndustöðvar. Markmið deiliskipulagsins er að skilgreina núverandi starfsemi vatnsaflsstöðvarinnar Blöndustöðvar ásamt fyrirhugaðri uppbyggingu.

Landsvirkjun áformar frekari nýtingu falls á núverandi veituleið Blöndustöðvar, frá Blöndulóni að Gilsárlóni skammt ofan Blöndustöðvar. Markmið verkefnisins er að fullnýta til orkuöflunar allt að 69 m fall á veituleið Blöndu frá Blöndulóni að inntakslóni Blöndustöðvar.

Tillagan er í samræmi við skipulagslýsingu sem kynnt var þann 14.12.2023 til 14.01.2024.

Skipulags- og samgöngunefnd felur skipulags- og byggingarfulltrúa að kynna vinnslutillögu fyrir opnu húsi í samræmi við 4. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Nefndin leggur til við sveitarstjórn að tillaga að deiliskipulagi Blöndustöðvar verði samþykkt til auglýsingar í samræmi við 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Bókun fundar

Sveitarstjórn samþykkir tillögu að deiliskipulagi við Blöndustöð.

  1. Skúlahorn, umsókn um stækkun lóðar

Neglan Byggingafélag ehf og Hafurð ehf óska eftir að fá lóð umhverfis gömlu steypustöð á Skúlahorni L145154 stækkaða um 12m til austur.

Skipulags- og samgöngunefnd leggur til við sveitarstjórn að samþykkja fyrirhugaða stækkun lóðar.

Bókun fundar

Sveitarstjórn samþykkir afgreiðslu skipulags- og samgöngunefndar.

  1. Ósk Vegagerðarinnar um breytingar á aðalskipulagi Húnavatnshrepps vegna efnistökusvæðis við Hnjúk í Vatnsdal

Tekin fyrir að nýju tillaga að breytingu á Aðalskipulagi Húnavatnshrepps 2012-2022 vegna skilgreiningar efnistökusvæðis að Hnjúki, Vatnsdal. Breytingin felst í því að sett er inn nýtt efnistökusvæði í landi Hnjúks og er til komin vegna áforma landeigenda að hefja landmótun að Hnjúki og nýta efni sem til fellur í vegagerð og framkvæmdir við endurbyggingu hluta Vatnsdalsvegar og tilfallandi viðhaldsverkefna. Erindið var síðast á dagskrá skipulagsnefndar þann 20. maí s.l. þar sem skipulagsnefnd lagði til við sveitarstjórn að tillagan skyldi auglýst skv. 3. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Tillagan var auglýst á tímabilinu 12.09.2025 - 24.10.2025. Umsagnir bárust frá 5 umsagnaraðilum.

Skipulagsnefnd hefur farið yfir umsagnir við tillögu að breytingu á Aðalskipulagi Húnavatnshrepps 2012-2022. Skipulagsnefnd leggur til við sveitarstjórn að skipulags- og byggingarfulltrúa verði falið að annast gildistöku skipulagsins í samræmi við 2. mgr. 32. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Bókun fundar

Sveitarstjórn felur skipulags- og byggingarfulltrúa að annast gildistöku skipulagsins í samræmi við 2. mgr. 32. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

  1. Norðurhagi, merkjalýsing

Ragnhildur Ásta Ragnarsdóttir, sækir staðfestingu á hnitsetningu og stærð á Norðurhaga L144726, samkvæmt merkjalýsingu gerðri af Káraborg ehf. dagsettri þann 20.10.2025.

Skipulags- og samgöngunefnd leggur til við sveitarstjórn að samþykkja hnitsetninguna.

Bókun fundar

Sveitarstjórn samþykkir hnitsetninguna.

  1. Bakkakot, umsókn um stofnun lóðar

Rökkva Retreat ehf., sækja um að stofna 40,000m² lóð úr landi Bakkakots L145405, samkvæmt merkjalýsingu gerðri af Káraborg ehf. dagsettri þann 29.10.2025. Sótt er um að lóðin fái staðfangið Friðvík.

Skipulags- og samgöngunefnd leggur til við sveitarstjórn að samþykkja stofnun lóðar og að lóðin fái staðfangið Friðvík.

Bókun fundar

Sveitarstjórn samþykkir stofnun lóðarinnar.

  1. Húnaver, umsókn um stofnun lóðar

Húnabyggð, sækir um að stofna 2881 m2 lóð úr landi Húnavers L145373 samkvæmt merkjalýsingu gerðri af Elísu Ýr Sverrisdóttur dagsettri þann 5.11.2025. Lóðin er stofnuð utan um samkomuhúsið F2138094 og sótt er um að lóðin fái staðfangið Húnaver 2. Lóðin er afmörkuð samkvæmt deiliskipulagsuppdrætti sem gerður var þann 27. september 1995.

Skipulags- og samgöngunefnd leggur til við sveitarstjórn að samþykkja stofnun lóðar og að lóðin fái staðfangið Húnaver 2.

Bókun fundar

Sveitarstjórn samþykkir stofnun lóðarinnar.

  1. Afgreiðslufundur byggingarfulltrúa - 22

Lögð fram til kynningar 22. fundargerð afgreiðslufundar byggingafulltrúa.

  1. Brautarhvammur umsókn um lóð/lóðir

GRL og ZAL viku af fundi undir þessum lið.

Lárus B Jónsson fyrir hönd Blöndu ehf óskar eftir lóð á svæði ofan áfanga 4 í Brautarhvammi samkvæmt meðfylgjandi gögnum.

Skipulags-og samgöngunefnd tekur vel í erindið og leggur til við sveitarstjórn að skipulags-og byggingarfulltrúa verði falið að hefja breytingar á deiliskipulagi svæðisins.

Bókun fundar

ZAL, GHJ og GRL viku af fundi undir þessum lið.

Sveitarstjórn felur skipulags- og byggingarfulltrúa að hefja þróun deiliskipulags svæðisins.

  1. Byggðarráð Húnabyggðar 124. fundur

Fundargerð 124. fundar byggðarráðs lögð fram til staðfestingar á 60. fundi sveitarstjórnar eins og einstök erindi bera með sér. Að loknum umræðum um fundargerðina var hún borin upp og staðfest af sveitarstjórn með níu atkvæðum samhljóða.

  1. Fjárhagsáætlunargerð fyrir árið 2026

Inn á fundinn komu Jón Ari Stefánsson og Sigurður Erlingsson sem fóru ítarlega yfir yfir forsendur og uppstillingu fjárhagsmódels Húnabyggðar fyrir árið 2026. Helstu forsendur voru skilgreindar og þau atriði sem hafa áhrif á útkomu fjárhags sveitarfélagsins á næsta ári stillt af og skoðuð. Einnig var farið yfir útgönguspá ársins 2025 sem nú er nær tilbúin.

Skoðaðar voru sérstaklega gjaldskrár úrgangsmála og fráveitu og endanlegar tillögur þeirra gjaldskráa verður lögð fram á næsta fundi.

Farið var yfir fjárfestingaáætlun ársins 2026 og áætlunin unnin áfram miðað við þær áherslur sem vinna á með á næsta ári.

Sveitarstjóra og ráðgjöfum falið að vinna áfram að gerð fjárhagsáætlunar þannig að klára megi hana á næsta fundi byggðarráðs fyrir fyrri umræðu sveitarstjórnar.

  1. Byggðarráð Húnabyggðar 125. fundur

Fundargerð 125. fundar byggðarráðs lögð fram til staðfestingar á 60. fundi sveitarstjórnar eins og einstök erindi bera með sér. Að loknum umræðum um fundargerðina var hún borin upp og staðfest af sveitarstjórn með níu atkvæðum samhljóða.

  1. Íbúðakjarni fyrir fólk með fötlun

Sigurður Erlingsson kom inn á fundinn undir þessum lið.

Fyrir fundinum lá uppfærð hönnun á þjónustukjarna fyrir fólk með fötlun sem samþykkt er að hálfu byggðarráðs. Þá ákveður byggðarráð að taka út úr verkefninu parhús sem átti að byggja við hlið þjónustukjarnans. Þetta er gert til að tryggja að heildarverkefnið fari ekki fram úr þeim kostnaði sem Húnaborg ses ræður við og að ekki þurfi að fresta framkvæmdum af þeim sökum. Byggðarráð felur sveitarstjóra að halda verkefninu áfram miðað við þessar breytingar og umræðu fundarins.

  1. Bókun fundar Sjálfseignarstofnunar Grímstungu- og Haukagilsheiða

Fyrir fundinum lá fundargerð fundar Sjálfseignarstofnunar Grímstungu- og Haukagilsheiða, þar sem sjálfseignarstofnunin leggst gegn fyrirhugaðri rannsóknarvinnu vegna virkjunarkosts í Vatnsdalsá.

  1. Persónuvernd

Fyrir fundinum láu upplýsingar um umfang og kostnað vegna persónuverndarþjónustu. Byggðarráð felur sveitarstjóra að vinna málið áfram.

  1. Heimilisiðnaðarsafnið

Fundargerð fundar stjórnar Heimilisiðnaðarsafnsins lögð fram til kynningar.

  1. Ágóðahlutur til aðildarsveitarfélaga EBÍ

Lagt fram til kynningar en Húnabyggð fær í sinn hlut 656.000kr. í arðgreiðslu frá EBÍ fyrir árið 2025.

  1. Stekkjarvík - úrgangsmagn

Lögð fram til kynningar skýrsla Norðurár um urðað magn í Stekkjarvík það sem af er þessu ári. Hvað varðar Húnabyggð stingur í augun aukning á flokknum „Almenn spilliefni sem flokka þarf frá“ sem aukist hefur um 73% það sem af er þessu ári miðað við 2024. Norðurá bendir jafnframt á það í samantekt sinni að hafa beri áhyggjur af þessum sama urðunarflokki þvert á öll sveitarfélög sem urða í Stekkjarvík en það sem af er þessu ári hafa komið rúmlega 32 tonn í þessum urðunarflokki.

  1. Leiðaráætlun landsbyggðarvagna

Farið var yfir kynningarefni Vegagerðarinnar varðandi breytingar á leiðaráætlun lands­byggðavagna. Ljóst er að þjónustan er að minnka á Norðurlandi vestra þar sem ferðum vagns númer 57 (Reykjavík-Akureyri) fækkar úr tveimur í eina á dag. Vagninn verður minnkaður (43 sæti) sem eykur öryggi og nú mun leið 57 keyra fram hjá Akranesi sem styttir leiðartímann. Leið 84 (Blönduós-Skagaströnd) verður pöntunarþjónusta áfram.

  1. Bók um fjárréttir Íslands

Lagt fram til kynningar erindi um stuðning við gerð bókar um fjárréttir Íslands og byggðarráð ákveður að leggja verkefninu til 100.000kr.

  1. Erindi frá Markaðsstofu Norðurlands

Byggðarráð hafnar erindi frá Markaðsstofu Norðurlands vegna Air 66N Flugklasans um aðstoð vegna markaðssetningar flugvallarins á Akureyri. Eins og áður hefur komið fram í bókunum byggðarráðs um málið er það skoðun Húnabyggðar að Isavia eigi að fjármagna markaðs­setningu alþjóðaflugvalla á Íslandi.

EA vék af fundi undir umræðu þessa liðar.

  1. Fundargerð 131. fundar stjórnar SSNV

Lagt fram til kynningar.

  1. Fjárhagsáætlunargerð fyrir árið 2026

Inn á fundinn komu Jón Ari Stefánsson og Sigurður Erlingsson og fóru yfir uppstillingu fjárhagsmódels Húnabyggðar fyrir árið 2026 og útgönguspá 2025. Farið var yfir gjaldskrár í fráveitu- og úrgangsmálum og álagningarprósentu fasteignaskatts. Unnið var áfram með fjárfestingaáætlun 2026.

  1. Skýrsla sveitarstjóra

Sveitarstjóri fór yfir helstu verkefni síðasta mánaðar, yfirstandandi og framundan á næstu vikum er vinna við að klára fjárhagsáætlun ársins 2026. Skrifstofa Húnabyggðar er að flytja inn í nýtt húsnæði að Húnabraut 5 í vikunni og reiknað er með að félagsþjónustan flytji einnig á næstu dögum eða vikum.

  1. Fundir sveitarstjórnar

Forseti lagði fram tillögu um að bætt verði við fundinn einum lið um fundi sveitarstjórnar. Tillagan var samþykkt samhljóða.

Sveitarstjórn ákveður að næstu tveir fundir sveitarstjórnar verði annnarsvegar 27. nóvember sem er aukafundur sveitarstjórnar og 15. desember sem er færsla á reglulegum fundi sveitarstjórnar í desember.

Getum við bætt efni þessarar síðu?