Í upphafi fundar óskaði forseti eftir heimild fundarins til að breyta niðurröðun dagskrár fundarins þannig að liður 2 yrði liður 1 þar sem að utanaðkomandi gestur þarf að vera viðstaddur umfjöllun þess liðar. Var það samþykkt samhljóða.
Dagskrá
1. Viðaukar við fjárhagsáætlun
Jón Ari Stefánsson kom inn á fundinn og fór yfir viðauka 5 sem skilgreinist á eftirfarandi hátt:
- Gjaldfærðar endurbætur á þaki og norðurgafli kvennaskólans að upphæð 2,0 millj. kr.
2. Eignfærðar framkvæmdir við nýtt ráðhús á Húnabraut 5 að fjárhæð 30,0 millj. kr.
3. Aðgengismál í félagsheimilinu en áætluð eignfærsla nemur 4,5 millj. kr.
Breyting afskrifta ársins vegna viðaukans nemur 443 þús. kr. Viðaukanum er mætt með lækkun á handbæru fé.
Bókun fundar sveitarstjórnar
Sveitarstjórn samþykkir viðauka 5 á eftirfarandi hátt:
- Gjaldfærðar endurbætur á þaki og norðurgafli kvennaskólans að upphæð 2,0 millj. kr.
Sveitarstjórn samþykkir þennan lið samhljóða.
2. Eignfærðar framkvæmdir við nýtt ráðhús á Húnabraut 5 að fjárhæð 30,0 millj. kr.
Sveitarstjórn samþykkir þennan lið með átta atkvæðum og EA situr hjá.
3. Aðgengismál í félagsheimilinu en áætluð eignfærsla nemur 4,5 millj. kr.
Sveitarstjórn samþykkir þennan lið samhljóða.
- 2. Samþykktir Húnabyggðar
Fyrir fundinum láu breytingar á samþykktum Húnabyggðar sem nauðsynlegt er að gera vegna slita byggðarsamlaga sem nú eru að formgerast og vegna stofnunar nýrrar velferðarnefndar sem fara mun með málefni félagsþjónustunnar eftir slit byggðarsamlags um félags- og skólaþjónustu.
Bókun fundar sveitarstjórnar
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða í fyrri umræðu drög að breytingum samþykkta Húnabyggðar og vísar frekari vinnu við breytingu samþykktanna samkvæmt umræðum á fundinum til byggðarráðs og vísar staðfestingu breytinganna til næsta fundar sveitarstjórnar.
- Samstarfssamningur um félagsþjónustu
Samningur um félagsþjónustu við Sveitarfélagið Skagaströnd tekin fyrir í seinni umræðu.
Bókun fundar sveitarstjórnar
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða í seinni umræðu samning um félagsþjónustu milli Húnabyggðar og Sveitarfélagsins Skagastrandar.
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða í seinni umræðu þjónustusamning um meðferð barnaverndarmála milli Húnabyggðar og Sveitarfélagsins Skagastrandar.
- Umhverfisnefnd 6. fundur
Fundargerð 6. fundar umhverfisnefndar Húnabyggðar lögð fram til staðfestingar á 56. fundi sveitarstjórnar eins og einstök erindi bera með sér. Að loknum umræðum um fundargerðina var hún borin upp og staðfest af sveitarstjórn með níu atkvæðum samhljóða.
1. Umhverfisverðlaun
Tilnefningar ræddar og skipulag skiltamála umhverfisverðlaunanna.
2. Framtíðarsýn gámasvæða í sveitarfélaginu
Umræðu um þennan lið er frestað.
5. Byggðarráð Húnabyggðar 111. fundur
Fundargerð 111. fundar byggðarráðs Húnabyggðar lögð fram til staðfestingar á 56. fundi sveitarstjórnar eins og einstök erindi bera með sér. Liður 1 og 7 þarfnast sérstakrar afgreiðslu. Að loknum umræðum um fundargerðina var hún borin upp og staðfest af sveitarstjórn með níu atkvæðum samhljóða.
- Framkvæmdir við nýtt ráðhús
Skipulags- og byggingarfulltrúi kom inn á fundinn undir þessum lið og fór yfir stöðu verkefnisins. Framkvæmdir hafa gengið vel, en hafa verið meiri en áætlað var í fyrstu. Sérstaklega hefur ástand eldra hússins kallað á meiri aðgerðir en reiknað var með. Tafir á afhendingu ýmiskonar hluta frá birgjum hafa tafið verkefnið og nú er tímí sumarfría þannig að reiknað er með að húsnæðið verði tekið í notkun á haustmánuðum. Ljóst er að til að koma starfsmönnum félags- og skólaþjónustunnar einnig inn í nýtt húsnæði þarf að auka fjárheimilidir verkefnisins og því er sótt um auka 30 milljónir til að geta klárað þennan hluta verkefnsins. Byggðarráð samþykkir samhljóða auknar fjárheimildir og vísar gerð viðauka til sveitarstjórnar.
Bókun fundar sveitarstjórnar
Viðaukinn var afgreiddur undir lið 1 í þessari fundargerð.
- Umboð á aðalfund Ámundakinnar
Byggðarráð veitir Guðmundi Hauki Jakobssyni umboð til að fara með atkvæði sveitarfélagsins á aðalfundi Ámundakinnar sem fram fer föstudaginn 11. júlí 2025. Byggðarráð felur sveitarstjóra að útbúa umboðið fyrir hönd Húnabyggðar.
- Erindi frá íbúum á Smárabraut
Fyrir fundinum lá erindi frá íbúum við Smárabraut vegna lagningu gangstétta. Þetta verkefni var ekki inn á fjárhagsáætlun 2025 en málinu vísað til gerðar fjárhagsáætlunar fyrir árið 2026.
- Drög að samningi við skólasálfræðing
Fyrir fundinum láu drög að nýjum samningi við skólasálfræðing frá félags- og skólaþjónustunni. Byggðarráð felur félagsmála- og fræðslustjóra að klára samninginn við skólasálfræðinginn.
- Uppfærsla á fjármála- og bókhaldskerfi Húnabyggðar
Samningar við Wise vegna uppfærslu Navision fjármála- og bókhaldskerfis lagðir fram til kynningar. Áætlað er að fara í uppfærslu snemma árs 2026.
- Tímabundið tjaldsvæði á Jobbatúni
Vegna Húnavöku er ákveðið að setja upp tímabundið tjaldsvæði á túninu milli blokkarinnar og Jobbahlöðu til að auka pláss fyrir gesti Húnavöku. Umsjónarmanni Húnavöku falið að upplýsa hagsmunaaðila um þessa tímabundnu ráðstöfun.
- Blönduósflugvöllur
Fyrir fundinum lá upplýsingagjöf Isavia um stöðu framkvæmda við Blönduósvöll en oddviti sveitarstjórnar, Guðmundur Haukur Jakobsson, hafði farið fram á upplýsingar um málið sem sjá má hér að neðan:
Vettvangsskoðun á Blönduósflugvelli þann 12. júní 2025 leiddi þetta í ljós:
Tilgangur skoðunar var að meta ástand flugbrautar og flughlaðs eftir veturinn. Síðsumars 2024 var efsti hluti burðarlags flugbrautar og flughlaðs jarðvegsskipt, ófrostþolið efni var fjarlægt og frostþolið efni sett í staðin, síðan var sett eitt lag af klæðingu yfir.
Flugbraut. Hæðarlega virðist vera óbreytt eftir veturinn og því ekki lengur um frostlyftingu í jarðvegi að ræða. Klæðing lítur vel út en þó eru tvær skemmdir sem þarf að laga áður en seinna lagið er sett á. Verktaki þarf því að skera skemmdirnar frá og klæða í sárin og þjappa vandlega. Að því loknu skal seinna lagið sett yfir alla flugbrautina skv. verklýsingu.
Flughlað. Hæðarlega virðist vera óbreytt efir veturinn. Klæðing lítur ekki vel út þar sem hjólför sjást víða. Við skoðun kom í ljós að asfalt er enn mjúkt og ekki að fullu storknað. Ástæða þessa er sennilega sú að klæðingin hefur ekki verið nægilega þjöppuð síðasta haust og einnig að tjara sem nú er notuð virðist storkna seinna en var hér áður. Til að lagfæra flughlaðið þarf því að þjappa það að nýju með þungum stáltromlu valtara og einnig hjólavaltara þar til yfirborðið er að fullu stétt. Síðan þarf að skera stakar skemmdir frá og klæða í sárin og þjappa vandlega. Að þessu loknu skal seinna lagið sett yfir allt flughlaðið sbr. verklýsingu.
Verktakinn er í dag að valta flughlaðið og farið verður í yfirlögnina núna á allra næstu dögum/vikum.
Byggðarráð felur sveitarstjóra að fylgja málinu eftir og bindur vonir við að verkefninu miði vel áfram og ljúki í sumar.
Bókun fundar sveitarstjórnar
Sveitarstjórn vill koma því á framfæri að búið er að ganga frá þeim lagfæringum sem tilteknar voru í bókun byggðarráðs og einnig er búið að leggja seinna lag yfir flugbraut og flughlað og flughlaðið jafnframt stækkað.
- Þátttaka Húnabyggðar í Pride viku
Fyrir fundinum lá erindi frá íbúa varðandi þátttöku Húnabyggðar í Pride viku. Byggðarráð vísar erindinu til atvinnu- og menningarnefndar.
- Forsendur fjárhagsáætlana sveitarfélaga 2026 – 2029
Lagt fram til kynningar.
- Framkvæmdaráð um barnavernd á Mið-Norðurlandi
Fundargerð 5. fundar framkvæmdaráðsins lög fram til kynningar.
- Framkvæmdaráð um málefni fatlaðs fólks á Norðurlandi vestra
Fundargerð 8. fundar framkvæmdaráðsins lög fram til kynningar.
- Ársreikningur byggðarsamlags um félags- og skólaþjónustu
Lagt fram til kynningar.
6. Atvinnu- og menningarnefnd Húnabyggðar fundur
Fundargerð 20. fundar atvinnu- og menningarnefndar Húnabyggðar lögð fram til staðfestingar á 56. fundi sveitarstjórnar eins og einstök erindi bera með sér. Að loknum umræðum um fundargerðina var hún borin upp og staðfest af sveitarstjórn með níu atkvæðum samhljóða.
- Húnavaka
Kristín Ingibjörg Lárusdóttir kom inn á fundinn undir þessum lið og fór yfir stöðu undirbúnings vegna Húnavöku 2025. Allt er meira og minna klárt og ákveðið hefur verið að bjóða gestum upp á auka tjaldsvæði við Jobbahlöðu þar sem mikið af gestum fylgir keppendum torfærukeppninnar sem er nú árlegur viðburður á Húnavöku. Dagskrá Húnavökunnar verður fjölbreytt og sérstök áhersla er lögð á viðburði fyrir fjölskyldufólk. Vöfflubakstur í heimahúsum verður aftur í ár enda heppnaðist það mjög vel í fyrra. Nefndin vill koma á framfæri þökkum til allra sem komið hafa að undirbúningi Húnavökunnar. Dagskrá Húnavöku hefur verið gefin út og bent er á að hægt er að fá eintak á helstu stöðum á Blönduósi (Kjörbúðinni, veitingastöðum, sundlauginni o.s.frv.). Einnig má sjá allar upplýsingar um Húnavökuna á FaceBook síðu Húnavökunnar.
- 100 ára afmæli Skáksambandsins
100 ára afmæli Skáksambands Íslands sem haldið var í júní heppnaðist í alla staði mjög vel. Viðburðurinn teygði sig yfir heila viku þar sem stærsti einstaki viðburðurinn var alþjóðlegt meistaramót með rúmlega 40 keppendum. Margvíslegir minni viðburðir voru einnig í gangi sem heppnuðust einnig mjög vel og skákin greinilega vinsæl í Húnabyggð. Skáksamband Íslands hefur ítrekað þakkir sínar til sveitarfélagsins og allra heimamanna fyrir frábærar viðtökur og hjálpsemi í undirbúningi og framkvæmd viðburðarins. Til hátíðarkvöldverðar 100 ára afmælisins mætti forseti Íslands, frú Halla Tómasdóttir, ásamt eiginmanni sínum Birni Skúlasyni og var það virkilega skemmtilegur heiður fyrir okkur að fá forsetahjónin í heimsókn. Atvinnu- og menningarnefnd tekur undir ánægju með viðburðinn og telur að fullt tilefni sé til þess að skoða framkvæmd svipaðs viðburðar á næsta ári.
- Rabbabarahátíðin
Rabbabarahátíðin var haldin helgina 28-29. júní og heppnaðist mjög vel. Sveitarfélagið hefur enga beina aðkomu að þessari hátíð sem er einkaframtak brottfluttra Blönduósinga og heimamanna. Greinilegt er að hátíðin vex frá fyrra ári og mikil ánægja var hjá gestum sem þyrsti í fróðleik og upplifun tengdum rabbabaranum og þá var mikil ánægja með hjólaferð í kringum Svínavatn sem farin var í tengslum við hátíðina. Kvöldinu lauk með tónleikum í Krúttinu þar sem brottfluttir Blönduósingar stigu á stokk og fóru á kostum. Atvinnu- og menningarnefnd þakkar öllum aðstandendum Rabbabarahátíðarinnar fyrir frábært framtak sem svo sannarlega hleypir skemmtilegu lífi í bæinn og sveitarfélagið.
- Prjónagleðin
Atvinnu- og menningarnefnd vill beina því til byggðarráðs að horft verði til þess að alþjóðlegi prjónadagurinn er annan sunnudag í júní og hvort að horfa eigi til þess með dagsetningu Prjónagleðinnar. sem hann var ekki
- Vatnsdælan 2025
Ekki er fyrirhugað að halda Vatnsdæluhátíð með sama sniði og undanfarin tvö ár að þessu sinni. Hátíðin í ár verður tengd sýningu Vatnsdælurefilsins, sem nú er fullklár og verður sýndur almenningi 29. ágúst. Skoða þarf hvort að halda eigi formlega opun Þrístapa í samhengi við Vatnsdæluna og ákveðið er að halda næsta fund atvinnu- og menningarnefndar þann 16. Júlí klukkan 10:00.
- Pride viðburður
Erindi barst frá íbúa varðandi þáttöku Húnabyggðar í Pride viðburði. Ekkert slíkt hefur verið skipulagt af Húnabyggð, en tekið er vel í að aðstoða aðila sem vilja gera eitthvað því tengt. Maríönnu Þorgrímsdóttur falið að afla frekari upplýsinga um þær hugmyndir sem verið er að vinna með.
- Annað
Ekkert annað lá fyrir fundinum.
7. Atvinnu- og menningarnefnd Húnabyggðar fundur
Fundargerð 21. fundar atvinnu- og menningarnefndar Húnabyggðar lögð fram til staðfestingar á 56. fundi sveitarstjórnar eins og einstök erindi bera með sér. Að loknum umræðum um fundargerðina var hún borin upp og staðfest af sveitarstjórn með níu atkvæðum samhljóða.
- Vatnsdælan 2025
Jóhanna Pálmadóttir kom inn á fundinn undir þessum lið og fór yfir skipulagið vegna afhendingar Vatsdælurefilsins sem sýndur verður almenningi í íþróttahúsinu 29-30. ágúst. Hugmyndir að dagskrá við formlega afhendingu sem fram fer föstudagin 29. ágúst eru m.a. formleg afhending með gestum, ræðuhöld o.s.frv. Haft verður samband við ráðherra menningarmála og ýmsa aðila sem komið hafa að gerð refilsins og þeim boðið að vera viðstödd. Uppboð á munum tengdum reflinum verða til sölu en andvirðið fer í sjóð sem stofnaður hefur verið um gerð húsnæðis undir refilinn. Undirbúa þarf viðburðinn frekar og því var ákveðið að halda annan fund með Jóhönnu í nefndinni miðvikudaginn 6. ágúst klukkan 13:00.
Einnig var ákveðið að formleg opnun Þrístapa verði í samhengi við Vatnsdæluna og að sá viðburður verði annaðhvort 29. ágúst eða 30. ágúst.
- Pride viðburður
Umræðu um þennan dagskrárlið var frestað til næsta fundar.
8. Byggðarráð Húnabyggðar 112. fundur
Fundargerð 112. fundar byggðarráðs Húnabyggðar lögð fram til staðfestingar á 56. fundi sveitarstjórnar eins og einstök erindi bera með sér. Liðir 1, 2 og 6 þarfnast sérstakrar afgreiðslu. Að loknum umræðum um fundargerðina var hún borin upp og staðfest af sveitarstjórn með níu atkvæðum samhljóða.
- Safnamál Húnabyggðar
Katharina Schneider kom inn á fundinn undir þessum lið og fór yfir stöðu safna í Húnabyggð. Flóra og umfang safna er að aukast umtalsvert nú þar sem Húnabyggð hefur tekið yfir rekstur Héraðsskjalasafnsins og Heimilisiðnaðarsafnsins. Ljóst er að vinna þarf töluverða vinnu til að koma safnamálum á betri stað, þannig að hægt sé að ná utan um öll söfnin og þá muni sem þar eru. Hér má t.d. nefna að refilinn mun verða afhentur í lok ágúst og með komu hans verður enn mikilvægara að framtíð safnamála Húnabyggðar verði mörkuð. Katharina mun leiða þennan málaflokk fyrst um sinn á meðan stefnumótunin fer fram og framtíðarsýnin verður skilgreind. Unnin hefur verið töluverð vinna við að greina þá möguleika sem eru í stöðunni og t.d. horft til Dalvíkurbyggðar en þar er búið að vinna mikla vinnu hvað þessi mál varðar. Byggðarráð leggur til við sveitarstjórn að Heimilisiðnaðarsafnið verði skilgreint sem stofnun innan skipulags Húnabyggðar. Að hafa öll safnamál með þessum hætti á einum stað mun tryggja skilvirkan rekstur safnanna. Byggðarráð þakkar Katharinu fyrir góða kynningu og vinnu við að ná utan um safnamálin áður en eiginleg stefnumótunarvinna hefst.
Bókun fundar sveitarstjórnar
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða að Heimilisiðnaðarsafnið verði deild innan sveitarfélagsns og staðfestir afgreiðslu byggðarráðs um framtíðarskipan Heimilisiðnaðarsafnsins.
- Aðgengismál
Fyrir fundinum lá tilboð í lyftulausn í félagsheimilinu og byggðarráð samþykkir samhljóða að farið verði í þessa framkvæmd upp á u.þ.b. 4,5 milljónir og vísar gerð viðauka til sveitarstjórnar.
Bókun fundar sveitarstjórnar
Viðaukinn var afgreiddur undir lið 1 í þessari fundargerð.
- Upplýsingagjöf til foreldra sem ekki tala íslensku
Fyrir fundinum lá erindi frá íbúa varðandi upplýsingagjöf sveitarfélagsins til foreldra sem ekki tala íslensku. Byggðarráð vísar erindinu til fræðslunefndar til frekari umfjöllunar.
- Leiðbeiningar til sveitarfélaga um samræmingu skipulagsáætlana og leyfisveitinga við lög um stjórn vatnamála
Fyrir fundinum láu upplýsingar Umhverfis- og orkustofnunar til sveitarfélaga um samræmingu skipulagsáætlana og leyfisveitinga við lög um stjórn vatnamála. Lagt fram til kynningar.
- Fundargerð 82. fundar Samtaka sveitarfélaga á köldum svæðum
Lagt fram til kynningar.
- Vatnsdalsvegur
Húnabyggð fékk 11.07.2025 upplýsingar frá Vegagerðinni að ákveðið hafi verið að stytta fyrirhugaðar framkvæmdir við Vatnsdalsveg úr u.þ.b. 13km í 9km. Ástæðan var sögð sú að Vegagerðin hafi fengið boð um niðurskurð á þessu verkefni.
Bókun fundar
Framkvæmdir við Vatnsdalsveg
Upplýsingar sem sendar voru sveitarfélaginu 11.07.2025 frá Vegagerðinni staðfesta að ákveðið hefur verið að stytta fyrirhugaðar framkvæmdir við Vatnsdalsveg sem upphaflega var áætlaður u.þ.b. 15km, seinna 13km en nú 9km. Ástæða þess sé sú að Vegagerðin hafi fengið boð um þennan niðurskurð. Á fundi byggðarráðs 02.07.2025 voru bókuð mótmæli vegna þess að búið væri að fresta framkvæmdum við Skagaveg þvert á gefi loforð. Í þeirri bókun lýsti byggðarráð áhyggjum sínum yfir því að mögulega myndu fyrirhugaðar framkvæmdir við Vatnsdalsveg einnig verða fyrir neikvæðum áhrifum sem nú er að raungerast.
Byggðarráð mótmælir harðlega þessum aðgerðum Vegagerðarinnar og yfirvalda og lýsir furðu sinni á því að þrátt fyrir að aukin framlög, þrír milljarðar, hafi verið sett í samgöngumál á landsbyggðinni sé fjármagn í vegaframkvæmdir í landshluta sem rekur lestina í samgöngumálum landsins minnkað og/eða framkvæmdum frestað þvert á gefin loforð. Sé það raunin að aukin framlög til vegaframkvæmda á landsbyggðinni séu fjármögnuð með því að taka það fjármagn af löngu ákveðnum framkvæmdum á landsbyggðinnin er ekki um aukið fjármagn út á landsbyggðina að ræða. Byggðarráð fer fram á að Vegagerðin og ráðherra svari Húnabyggð og gefi upp ástæður þessara ákvarðanna.
Bókun fundar sveitarstjórnar
Sveitarstjórn tekur undir bókun byggðarráðs og harmar þann trúnaðarbrest sem orðið hefur milli sveitarfélagsins og yfirvalda vegna stjórnunar samgöngumála. Í þessu máli hafa loforð verið margsvikin og upplýsingagjöf verið sein og/eða engin. Þá hefur Vegagerðin að sama skapi tekið þátt í þessum gjörningi og ekki hjálpað til með gegnsæi í þessum málum.
Í lok fundar lagði Jón Gíslason fram eftirfarandi bókun:
Óska hér með eftir að skipan byggðarráðs sé skráð á heimasíðu samkvæmt núverandi skipan byggðarráðs. Jafnframt verði byggðarráðsfundir auglýstir framvegis samkævmt 29. grein samþykkta Húnabyggðar eða með tveggja sólarhringa fyrirvara.
9. Fjallskilanefnd Húnabyggðar fundur
Fundargerð 5. fundar fjallskilanefndar Húnabyggðar lögð fram til staðfestingar á 56. fundi sveitarstjórnar eins og einstök erindi bera með sér. Liður 4 þarfnast sérstakrar afgreiðslu. Að loknum umræðum um fundargerðina var hún borin upp og staðfest af sveitarstjórn með níu atkvæðum samhljóða.
- Undirbúningur fyrir fjallskil
Magnús Sigurjónsson og Sigurður Erlingsson komu inn á fundinn undir þessum lið. Fjallskilastjórar allra deilda fóru yfir skipulag fjallskila þ.e. hvernig gjöld eru lögð á lönd og eigendur búfjár. Það er ljóst að á milli deildanna eru mismunandi reglur og hefðir. Eitthvað af þessum er hægt að samræma og það væri til einföldunar, en málið þarf að ræða betur og velta fyrir sér hugmyndum um hvaða útfærslur gætu hentað sem reglur sameinaðs sveitarfélags.
- Girðingamál
Björn Þórisson kom inn á fundinn undir þessum lið og fór yfir þá girðingavinnu sem fram hefur farið í sumar. Búið er að fara með nánast öllum afréttagirðingum á öllum heiðum og eitthvað af öðrum girðingum. Enn er töluverð vinna eftir á ýmsum stöðum t.d. hvað varðar stýrigirðingar og lagfæringar á girðingum við réttir og nátthólf. Þá eru tvö stór verkefni sem stendur til að gera þ.e. nýgirðing á Víðidalsfjalli og að taka niður rafmagnsgirðingar á Auðkúluheiði.
- Styrkvegir
Ýmsar vegaframkvæmdir eru hafnar eins og t.d. að taka stór grjót úr Grímstunguheiðarvegi framan við heiðargirðingu, laga veginn við Stafnsrétt og búið er að hefla Hrafnabjargaveginn og á milli Mánaskálar og Núps á Laxárdal. Aðrar framkvæmdir eins og t.d. við Vaglir og Grímstunguheiði eru í undirbúningi. Bent er á að sækja þarf um fé til að laga landbrot við Stafnsrétt en umsóknarfrestur er 1. febrúar ár hvert.
- Erindisbréf fjallskilanefndar
Erindisbréf fjallskilanefndar var lagt fyrir fundinn og samþykkt en nú eru allar fjallskiladeildir komnar saman í eina fjallskilanefnd sem skipuð er fjallskilastjórum allra fjallskiladeilda en nú síðast bættist fjallskiladeild Skagaheiðar (fyrrum Skagahreppur og Vindælishreppur) formlega við nefndina.
Bókun fundar sveitarstjórnar
Sveitarstjórn staðfestir erindisbréf fjallskilanefndar.
- Sauðfjárveikivarnarlínur
Þar sem Vatnsneslína er hvergi á landamerkjum Húnabyggðar eru engin þörf á að bregðast við fyrirspurn frá ráðuneytinu vegna þessa. Fjallskilanefnd áréttar af þessu tilefni að höfuðáhersla Húnabyggðar í þessum málum séu girðingar á milli Hofsjökuls og Langjökuls annars vegar og hins vegar á milli Langjökuls og Réttarvatns á Arnarvatnsheiði.
- Ágangsmál
Fjallskilastjóri Auðkúluheiðar og sveitarstjóri hafa verið í samskiptum við landeigendur sem deilt hafa um ágangsmál og verið er að vinna með lausn málsins. Fjallskilanefnd gerir ráð fyrir því að hægt verði að finna á þessu máli lausn sem allir geta sætt sig við.
- Önnur mál
Engin önnur mál voru tekin fyrir.
10. Öldungaráð Húnabyggðar fundur
Fundargerð 10. fundar öldungaráðs Húnabyggðar lögð fram til staðfestingar á 56. fundi sveitarstjórnar eins og einstök erindi bera með sér. Liður 1 þarfnast sérstakrar afgreiðslu. Að loknum umræðum um fundargerðina var hún borin upp og staðfest af sveitarstjórn með níu atkvæðum samhljóða.
1.Erindisbréf
Lagfæra þarf 2. gr. svohljóðandi:
Þrír fulltrúar sveitarstjórnar og þrír til vara. Félag eldri borgara tilnefnir þrjá fulltrúa og þrjá til vara. Félagsþjónusta tilnefnir einn fulltrúa og einn til vara. Heilbrigðisstofnun Norðurlands tilnefnir einn fulltrúa og einn til vara.
Sveitarstjórn skipar formann og varaformann.
Lagfæra þarf 4. gr. svohljóðandi:
Bæta við fyrsta áherslulið: Vera ráðgefandi um áætlanagerð í málefnum aldraðra í Húnabyggð, sbr. 3. málsl. 1. mgr. 8. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga, nr. 40/1991 og laga um málefni aldraðra nr. 125/1999.
Lagfæra þarf 8.gr. svohljóðandi:
Að jafnaði skuli haldnir 4 fundir á ári.
Samþykkt samhljóða og vísað til afgreiðslu sveitarstjórnar til staðfestingar með áorðnum breytingum.
Bókun fundar sveitarstjórnar
Sveitarstjórn staðfestir erindisbréf öldungaráðs með áorðnum breytingum.
2.Dagdeild HSN og Húnabyggðar
Félagsmálastjóri upplýsti um stöðu mála. Virkt samtal komið á við Sjúkratryggingar Íslands og málið komið lengra en áður. Málið unnið áfram og vísað til fjárhagsáætlunar 2026.
3.Málefni eldra fólks í Húnabyggð
Formaður FEBH sendi beiðni fyrir fund og óskaði eftir upplýsingum um þær tekjur sem sveitarfélagið fær af útsvari og fasteignagjöldum eldri borgara annars vegar og hins vegar hversu mikinn kostnað sveitarfélagið leggur til í málaflokkinn. Vegna sumarleyfa var ekki unnt að verða við beiðninni en stefnt er að því að upplýsingarnar liggi fyrir á næsta fundi ráðsins.
Talsverð þjónusta er í boði fyrir aldraða í sveitarfélaginu. Auka þarf sýnileika þjónustunnar bæði með stafrænum hætti sem og með heimsóknum til íbúa.
Formaður FEBH ræddi m.a. hvort mögulegt sé að koma á einhvers áætlunarferðum í verslunarkjarna sveitarfélagsins.
Umræður um íbúðir á Flúðabakka.
4.Önnur mál
Engin önnur mál voru til umræðu.
11. Byggðarráð Húnabyggðar 113. fundur
Fundargerð 113. fundar byggðarráðs Húnabyggðar lögð fram til staðfestingar á 56. fundi sveitarstjórnar eins og einstök erindi bera með sér. Liður 6 þarfnast sérstakrar afgreiðslu. Að loknum umræðum um fundargerðina var hún borin upp og staðfest af sveitarstjórn með níu atkvæðum samhljóða.
- Skólaakstur Húnabyggðar
Magnús Sigurjónsson kom inn á fundinn undir þessum lið og fór yfir þær breytingar sem nauðsynlegt er að gera á leiðakerfi skólaaksturs. Byggðarráð ákveður í framhaldi af umræðum fundarins að haldnir verði fundir með bílstjórum þeirra leiða sem munu breytast á næsta skólaári.
- Beitarhólf í landi Húnabyggðar
Magnús Sigurjónsson kom inn á fundinn undir þessum lið og kynnti fyrirspurnir sem borist hafa um leigu á beitarlandi og af því tilefni leggur byggðráð til að stefna sveitarfélagsins í þessum málum verði samræmd og verklag samþætt. Byggðarráð felur sveitartjóra að skapa heildaryfirsýn yfir leigðar landspildur í landi Húnabyggðar og hvaða reglur gilda þar um leigugjald og umgengni um hið leigða. Jafnframt verði skoðað hvernig leigusamningar um beitarhólf o.s.frv. þar sem Húnabyggð er leigutaki er háttað.
- Hálfsársuppgjör Húnabyggðar
Sigmar Ingi Njálsson kom inn á fundinn undir þessum lið og kynnti drög að uppgjöri fyrstu sex mánaða ársins. Heilt yfir er reksturinn í jafnvægi en kostnaður hefur þó hækkað umfram hækkun tekna og því er framlegðin minni en á sama tíma og í fyrra. Hér munar mest um hækkun launa- og launatengdra gjalda.
- Fjárfestingaverkefni
Sigmar Ingi Njálsson kom inn á fundinn undir þessum lið og fór yfir stöðu fjárfestingaverkefna ársins 2025 sem stendur í rétt rúmum 190 milljónum króna. Framkvæmdir á árinu hafa gengið vel, nokkrum verkefnum er lokið, mörg verkefni eru enn í gangi og einhver verkefni hefjast seinna á árinu. Í fjárhagsáætlun árins 2025 var gert ráð fyrir að fjárfestingar ársins yrðu 326 milljónir.
- Skipurit
Fyrir fundinum láu drög að nýju skipuriti Húnabyggðar sem vinna þarf áfram áður en það fer fyrir sveitarstjórn.
- Reglur um hunda- og kattahald í Húnabyggð
Endanleg útgáfa um reglur um hunda- og kattahald lögð fyrir og samþykkt og staðfestingu reglnanna vísað til sveitarstjórnar.
Byggðarráð vill að gefnu tilefni minna íbúa á að öllum hunda- og kattaeigendum er skillt að skrá dýrin sín og þeir sem ekki hafa gert það eru vinsamlegast beðnir um að gera það nú þegar. Þá minnir byggðarráð eigendur hunda og katta á að öll dýr á hverju heimili þurfa að vera skráð.
Bókun fundar sveitarstjórnar
Sveitarstjórn staðfestir nýjar reglur um hunda- og kattahald og áréttar að reglurnar gilda í þéttbýli Húnabyggðar.
- Drög að samningi við Textílmiðstöðina
Drög að samningi við Textílmiðstöðina lögð fram til kynningar og sveitarstjóra falið að vinna málið áfram.
- Slit á byggðasamlögum og samstarfsverkefni
Lögð fram til kynningar kostnaðarsamantekt KPMG vegna þeirrar vinnu sem unnin hefur verið í slitum byggðarsamlaga Húnabyggðar og Skagastrandar.
- Vatnsveita á Skaga
Fyrir fundinum lá kostnaðarsamantekt á nýrri borholu fyrir kalt vatn við Skagabúð á Skaga. Holan mun verða notuð til vatnsveitu á nærliggjandi bæjum. Verkefnið tókst vel og nægt vatns fannst en áður hafði verið borað án mikils árangurs.
- Samningur um styrk vegna verkefna á sviði almenningssamgangna
Fyrir fundinum lá undirskrifaður samningur Byggðarstofnunar og Húnabyggðar um styrk vegna verkefna á sviði almenningssamgangna. Lagt fram til kynningar.
- Brú yfir Svínadalsá
Erindi hefur borist frá ábúendum á Rútsstöðum vegna brúarinnar yfir Svíndalsá milli Rútsstaða og Ljótshóla. Ljóst er að sú brú er barn síns tíma og mætir engan vegin nútíma kröfum hvað varðar breidd farartækja sem yfir brúna geta farið. Þetta háir t.d. heyskap á efstu bæjum Svínadals. Byggðarráð tekur undir þetta erindi og leggur áherslu á að Vegagerðin bregðist við málinu og finni ásættanlega lausn sem fyrst. Byggðarráð felur sveitarstjóra að senda þessa bókun á Vegagerðina og ýta á eftir svörum hvað málið varðar.
- Minningarmót Evu Hrundar
Undirbúningsnefnd minningarmóts Evu Hrundar sem haldið var á Vatnahverfisvelli við Blönduós sunnudaginn 13. júlí vill koma á framfæri þökkum fyrir veitta stuðning vegna mótsins í ár sem tókst mjög vel. Byggðarráð þakkar á móti nefndinni fyrir frábært framtak.
- Skipulag skógræktar – leiðbeiningar um val á landi til skógræktar
Erindi frá Vinum íslenskrar náttúru lagt fram til kynningar og byggðarráð vísar málinu til umhverfisnefndar.
- Loftslagsstefna sveitarfélaga á NV
Lagt fram til kynningar og málinu vísað til umhverfisnefndar.
- Fundargerð 125. fundar stjórnar SSNV
Lagt fram til kynningar.
- Styrkbeiðni frá Lítil Þúfa fta.
Lagt fram til kynningar og erindinu vísað til fjárhagsáætlunar fyrir árið 2026.
- Húnavaka 2025
Húnavaka fór fram helgina 17-20. júlí og framkvæmd viðburðarins tókst vel og byggðarráð þakkar bæði starfsmönnum og sjálfboðaliðum sem komu að viðburðinum kærlega fyrir frábæra Húnavöku. Á næsta ári fer Húnavakan fram dagana 16-19. júlí.
12. Skipulags- og samgöngunefnd 42. fundur
Fundargerð 42. fundar skiulags- og samgögunefndar Húnabyggðar lögð fram til staðfestingar á 56. fundi sveitarstjórnar eins og einstök erindi bera með sér. Liðir 1, 4 og 6 þarfnast sérstakrar afgreiðslu. Að loknum umræðum um fundargerðina var hún borin upp og staðfest af sveitarstjórn með níu atkvæðum samhljóða.
1.Vegskilti, tillögur að staðsetningum.
Húnabyggð, sækir um uppsetningu á vegskiltum við Norðurlandsveg fyrir merkingar á Gamla bænum.
Skipulags- og samgöngunefnd leggur til við sveitarstjórn að samþykkja staðsetningar fyrir vegskilti við Norðurlandsveg á núverandi skilta ramma.
Bókun fundar sveitarstjórnar
Sveitarstjórn staðfestir tillögur skipulags- og samgöngunefndar.
2.Gamli bærinn, húsaskilti.
Lagt fram til kynningar.
3.Gönguleiðir meðfram Blöndu
Til umræðu, nýjar gönguleiðir með fram Blöndu.
Skipulags- og samgöngunefnd leggur til að farið verði í vinnu við göngu- og hjólastíg meðfram Blöndu frá Hrútey að Kvennfélagsgarðinum, eins og gert er ráð fyrir í gildandi aðalskipulagi.
4.Vatnsdalsvegur (722) Hringvegur - Flaga, umsókn um framkvæmdaleyfi
Vegagerðin óskar hér með eftir framkvæmdaleyfi til Húnabyggðar skv. 13. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og reglugerð nr. 772/2012 um framkvæmdaleyfi. Framkvæmdin felur í sér endurbyggingu Vatnsdalsvegar (722) á um 9 km löngum kafla frá Hringvegi og inn á land Flögu. Í framkvæmdinni er einnig innifalin breikkun og lagning bundins slitlags á veg beggja vegna Kornsár, frá st. 12.900-13.150 þar sem vegrið verða lengd og brúin merkt með skiltum og blikkljósum., sjá fylgiskjal 1. Vegurinn verður 7 m breiður með bundnu slitlagi. Gerð verða ein búfjárgöng í st. 740 og áningarstaður við Skúlahól. Áætlað er að framkvæmdir hefjist í september 2025 og að þeim verði lokið í október 2027.
Skipulags- og samgöngunefnd leggur til við sveitarstjórn að samþykkja framkvæmdarleyfið.
Bókun fundar sveitarstjórnar
Sveitarstjórn samþykkir framkvæmdaleyfið samhljóða.
5.Leiðbeiningar til sveitarfélaga um samræmingu skipulagsáætlana og leyfisveitinga við lög um stjórn vatnamála
Til umræðu leiðbeiningar Umhverfis- og orkustofnunar um samræmingu skipulagsáætlana og leyfisveitinga við lög um stjórn vatnamála. Leiðbeiningarnar fjalla sérstaklega um hvernig samræma skal skipulagsáætlanir og leyfisveitingar við lög nr. 36/2011 um stjórn vatnamála. Hvað skal koma fram í skipulagsáætlunum sveitarfélaga (svæðis,- aðal- og deiliskipulag) og hvaða kröfur þarf að gera til framkvæmdaraðila við leyfisveitingu til þess að tryggja samræmi við stefnu vatnaáætlunar 2022-2027 og lög um stjórn vatnamála.
Skipulags- og samgöngunefnd felur skipulags-og byggingafulltrúa að koma leiðbeiningunum til skipulagsráðgjafa sveitarfélagsins.
6.Þverbraut 1, leiðrétting á stærð lóðar.
Húnabyggð sækir um staðfestingu á afmörkun og breytingu á stærð á Þverbraut 1 L145130. Lóðin er skráð 1355,5 m² en verður 1984 m² samkvæmt mæliblaði gerðu af Stoð ehf., dagsett. 01.12.2015.
Skipulags- og samgöngunefnd leggur til við sveitarstjórn að afmörkun verði gerð í samræmi við núverandi skráningu lóðar.
Bókun fundar sveitarstjórnar
Sveitarstjórn staðfestir afgreiðslu skipulags- og samgöngunefndar.
7.Afgreiðslufundur byggingarfulltrúa - 19
- fundagerð afgreiðslufundar byggingafulltrúa lögð fram til kynningar.
13. Skýrsla sveitarstjóra
Sveitarstjóri fór yfir helstu verkefni sveitarfélagsins sem eru í gangi en sumarfrí starfsmanna og annarra hafa litað starfsemina í júlí mánuði. Húnavakan heppnaðist frábærlega, mikið var af gestum á svæðinu og þess má geta að Húnavakan er komin með sína eigin heimasíðu (www.húnavaka.is). Búið er að opna á milli Ennisbrautar og Holtabraut en framkvæmdum er ekki lokið.