55. fundur 08. júlí 2025 kl. 15:00 - 16:56
Nefndarmenn
  • Guðmundur Haukur Jakobsson forseti
  • Ragnhildur Haraldsdóttir aðalmaður
  • Zophonías Ari Lárusson aðalmaður
  • Auðunn Steinn Sigurðsson aðalmaður
  • Elín Aradóttir aðalmaður
  • Jón Gíslason aðalmaður
  • Sverrir Þór Sverrisson aðalmaður
  • Ásdís Ýr Arnardóttir aðalmaður
  • Elín Ósk Gísladóttir varamaður
Starfsmenn
  • Pétur Arason sveitarstjóri
Fundargerð ritaði: Pétur Arason Sveitarstjóri

Dagskrá

  1. Samningur um málefni fatlaðs fólks á Norðulandi vestra

Fyrir fundinum lá uppfærður samningur um málefni fatlaðs fólks á Norðurlandi vestra sem sveitarfélagið Skagafjörður hefur uppfært frá fyrri útgáfu sem tekin var fyrir 27.12.2022. Sveitarstjórn samþykkir samhljóða með níu atkvæðum samninginn með áorðnum breytingum.

  1. Skipulags- og samgöngunefnd Húnabyggðar 40. fundur

Fundargerð 40. fundar skipulags- og samgöngunefndar Húnabyggðar lögð fram til staðfestingar á 55. fundi sveitarstjórnar eins og einstök erindi bera með sér. Að loknum umræðum um fundargerðina var hún borin upp og staðfest af sveitarstjórn með níu atkvæðum samhljóða.

  1. Aðalskipulag sameinaðra þriggja sveitarfélaga

Áframhaldandi vinna við nýtt aðalskipulag Húnabyggðar.

Farið yfir landnotkun í þéttbýli og unnar tillögur að breytingum og viðbótum. Tillögur kynntar og ráðgjafar vinna áfram úr þeim gögnum.

  1. Heimastjórn fyrrum Skagabyggðar 4. fundur

Fundargerð 4. fundar heimastjórnar lögð fram til staðfestingar á 55. fundi sveitarstjórnar eins og einstök erindi bera með sér. Liðir 2 og 4 þarfnast sérstakrar afgreiðslu. Að loknum umræðum um fundargerðina var hún borin upp og staðfest af sveitarstjórn með níu atkvæðum samhljóða.

  1. Vatnsöflun fyrir Skagabúð

Búið er að bora og fannst mikið magn af vatni, formanni falið að vinna málið áfram.

  1. Vegaframkvæmdir

Innviðaráðuneytið lofaði sveitarstjórnum Skagabyggðar og Húnabyggðar að bundið slitlag yrði lagt á Skagaveg á árinu 2025 en nú hefur því verið frestað til 2026. Formanni falið að senda erindi til Innviðaráðuneytisins og þingmönnum kjördæmisins og mótmæla fyrirhugaðri frestun á fram­kvæmdum við Skagaveg.

Bókun fundar

Sveitarstjórn tekur undir bókun heimastjórnar.

  1. Styrkveiting Framkvæmdasjóðs ferðamannastaða til Kálfshamarsvíkur

Framkvæmdasjóður ferðamannastaða hefur gert samning við sveitarfélagið um 18.250.000 kr styrk “til hönnunar á grundvelli gildandi deiliskipulags, s.s. skiltum sem og fyrstu útfærslum á öðrum innviðum. Framkvæmdin felst í lagningu stíga með aðgengi fyrir öll frá núverandi bílastæði að vitanum í Kálfshamarsvík, sem og styrkingu þeirra gönguleiða sem skilgreindar eru í gildandi deiliskipulagi.” Stjórnin leggur til að hafið verði strax vinnu við þessa hönnun.

  1. Erindi frá Magnúsi Davíð Norðdahl

Lagt er til við sveitarstjórn Húnabyggðar að leita samninga við Magnús um aðgengi að borholuvatni fyrir Kálfshamarsnesið.

Bókun fundar

Sveitarstjórn vísar í afgreiðslu 109. fundar byggðarráðs þar sem skipulags- og byggingarfulltrúa er falið að vinna málið áfram.

  1. Skipulagsmál

Erindi lá fyrir um sýslumörk á Skaganum á milli Austur-Húnavatnssýslu og Skagafjarðar, ágreiningur hefur ríkt um þessi mörk. Heimastjórn vísar í fund með sveitarstjórn Húnabyggðar í mars þar sem þetta var rætt. Heimastjórn leggur til að byggingarfulltrúi Húnabyggðar kalli Kristján Steinar Kristjánsson og Magnús Björnsson á fund til þess að fara yfir þessi mál.

  1. Önnur mál

Umræður urðu um girðingarmál í fyrrum Skagabyggð, heimastjórn leggur áherslu á að samið verði við verktaka hið fyrsta til þess að fara með girðingum sveitarfélagsins. Það sé mikilvægt að yfirfara allar girðingar strax og aðstæður leyfa.

  1. Fjallskilanefnd Húnabyggðar 4. fundur

Fundargerð 4. fundar fjallskilanefndar Húnabyggðar lögð fram til staðfestingar á 55. fundi sveitarstjórnar eins og einstök erindi bera með sér. Að loknum umræðum um fundargerðina var hún borin upp og staðfest af sveitarstjórn með níu atkvæðum samhljóða.

  1. Styrkvegir

Fyrir fundinum láu tvö erindi vegna styrkvegaframkvæmda. Farið verður í umtalsverðar framkvæmdir á Grímstunguheiði í sumar, sem er áframhald á framkvæmdum síðasta árs. Þá leggur fjallskilanefnd til við byggðarráð að farið verði í eftirfarandi framkvæmdir í sumar:

  1. Laxárdalsvegur að Kirkjuskarði, lagfæringar við læki og ár. upphæð 100.000kr.
  2. Skoða þarf veginn við Stafnsrétt og áætlað er að vegalagfæringar væru u.þ.b. 200.000kr. Guðmundur Rúnar mun koma verkefnninu í framkvæmd. Síðan þarf að skoða grjótvarnir vegna Svartár og bent er á að mögulega sé til sjóður, Landbrotssjóður, sem hægt er að sækja styrki í vegna slíkra framkvæmda.
  3. Ákveðið að skoða veginn upp hjá Kárdalstungu og Vöglum og sinna þar nauðsylegu viðhaldi þannig að vegurinn sé að minnsta kosti fær jeppum. Þjónustumiðstöð mun kanna aðstæður og ákvarða um hvað verður gert en samþykkt að í verkefnið fari 200-300.000kr. til að byrja með.
  4. Hefla Hrafnarbjargarveginn fram að Smalatjörn. Áætlaður kostnaður er 200-300.000kr. Skoða þarf aðkomu að brúnni við Smalatjörn, en ræða þarf við Vegagerðina um það mál þar sem skemmdin er af þeirra völdum.
  5. Skoða þarf veginn upp í Þverárdal frá Húnaveri og tryggja að hann sé akfær. Áætlaður kostnaður er undir 100.000kr. Þjónustumiðstöð mun skoða málið.
  6. Skoða þarf hvort að nóg sé að hefla kaflann frá Mánaskál að Núpi. Þjónustumiðstöð skoðar málið og metur aðstæður en verkefnið gæti kostað um 100.000kr.
  7. Týna stórgrýti úr veginum fram á Grímstunguheiði fyrir framan heiðargirðingu. Reiknað er með að þetta sé u.þ.b. 200.000kr.
  8. Næg verkefni eru fyrirsjáanleg á Grímstunguheiðarveginum og skoða þarf frekari aðgerðir þar þegar framkvæmdum sem fyrir liggja líkur. Hilmar Smári mun ásamt Þjónustumiðstöð og byggingarfulltrúa skoða þau verkefni og búa til framkvæmdaáætlun.

2.Girðingamál

Farið var yfir girðingamál og þau verkefni sem þar eru helst í fókus. Fjárflutningar á afrétti eru fyrr en venjulega og því er fyrstu yfirferð meðfram heiðargirðingum ekki lokið, en búið er að fara yfir Kirkjuskarð og sleppihólf á Eyvindastaðaheiði, Auðkúluheiði og Grímstungu- og Haukagilsheiðum.

Á næstu vikum mun verða farið yfir allar afrétta- og heiðargirðingar eins og venjan er. Einhverjir hlutar þessara girðinga hefur ekki verið viðhaldið á undanförnum árum og mun það verða skoðað.

Ákveðið að taka niður heiðargirðingu milli Auðkúlu- og Grímstunguheiða. Skilja á eftir þann hluta sem liggur frá Áfangagirðingu niður að kvíslum Vatnsdalsár þ.e. við Fjártanga. Stefnt er að því að gera þennan hluta girðingarinnar (sem er rafmagnsgirðing) fjárheldan, en það mun gerast í áföngum. Þjónustumiðstöð mun annast skipulagningu þessa verkefnis.

Skoða þarf rekstrarleið að Stafnsrétt sem er hluti af þeim verkefnum sem þarf að skoða hvað varðar Stafnsrétt og nátthólfið þar.

Skoða þarf einnig hvernig leysa má þau vandamál sem koma upp þegar safnið kemur niður að Þverá.

Farið var yfir kostnaðargreiningu á girðingamálum síðustu ára og hvernig sjá kostnaður kemur til.

  1. Gangnamannaskálar

Tekið fyrir erindi frá fjallskiladeild Eyvindastaðaheiðar er varðar framkvæmdir í Galtarárskála. Fjallskilanefnd beinir því til byggðarráðs að framkvæmdir við endurnýjun gólfs verði að minnsta kosti 500.000kr. en kostnaðaráætlun gerir ráð fyrir að verkefnið kosti alls u.þ.b. 2.000.000kr.

Fjallskiladeild Auðkúluheiðar óskar eftir því að skoðað verði hvaða áfangi verði næstur í viðhaldi og uppbyggingu Áfangaskála. Þjónustumiðstöð mun skoða það mál en fyrirhugað er að framkvæmdir verði þar í ár vegna situr­beðs sem þarf að endurýja.

Nú þegar hafa verið gerðar töluverðar framkvæmdir í skálanum í Öndvegi, en frekari framkvæmdir þar verða skoðaðar af Þjónustumiðstöð.

  1. Önnur mál

Fjallskilanefnd rætti önnur mál og þá helst þá deilu sem nú er vegna lokunar vegs upp á Haukagilsheiði.

  1. Byggðarráð Húnabyggðar 109. fundur

Fundargerð 109. fundar Byggðarráðs Húnabyggðar lögð fram til staðfestingar á 55. fundi sveitarstjórnar eins og einstök erindi bera með sér. Að loknum umræðum um fundargerðina var hún borin upp og staðfest af sveitarstjórn með níu atkvæðum samhljóða.

ZAL vék af fundi undir umfjöllun um lið 3 þessarar fundargerðar.

Elín Aradóttir leggur fram eftirfarandi bókun um framvindu 109. fundar byggðaráðs, sem einnig var fyrsti fundur nýskipaðs byggðaráðs fyrir síðasta ár kjörtímabilsins.

Vert er að upplýsa fulltrúa sveitarstjórnar, sem ekki sóttu umræddan fund, sem og aðra áhugasama um stjórnsýslu Húnabyggðar, um framvindu fundarins. Fundur hófst ekki á tilsettum tíma, heldur um 25 mínútum eftir auglýstan fundartíma og er því fundargerð ekki rétt hvað tímasetningu varðar.

Við upphaf fundar gerði ZAL, varamaður meirihluta, kröfu um að EA viki af fundi, með þeim rökum að hún væri ekki löglegur varamaður lista JG&EA í ráðinu. Taldi ZAL að eðlilegra væri að kallaður yrði til næsti varamaður meirihluta til að fylla sæti JG. EA mótmælti þessu. ZAL sótti málið af nokkurri festu og ekki var því hægt að hefja fundinn á tilsettum tíma. Eftir nokkurt þref fór svo að EA lýsti því yfir að hún myndi ekki yfirgefa fundinn sjálfviljug. Úr varð að fundurinn (PBA) myndi hringja í Sesselju Árnadóttur lögfræðing hjá KPMG, sem hefur sinnt fjölbreyttum verkefnum fyrir sveitarfélagið, til að fá úr þessu álitaefni skorið. EA fór fram á að símtal þetta ætti sér stað þannig að allir fengju á að hlýða, sem fallist var á, þegar að eftir því var gengið. Munnlegt álit lögfræðingsins staðfesti að málflutningur fulltrúa meirihluta væri hrein fjarstæða. Framvinda þessi var ekki rædd frekar og við tók um 2,5 klst. fundarhöld samkvæmt dagskrá.

Í 8. grein sveitarstjórnarlaga segir að eitt af hlutverkum sveitarstjórnar sé að hafa eftirlit með því að fylgt sé viðeigandi reglum í störfum sveitarfélags. Þessi framkoma gagnvart minnihluta í byggðaráði getur ekki talist viðeigandi.

ASS óskaði eftir fundarhléi 15:18.

Fundur hófst aftur klukkan 15:26

  1. Reglur Skagafjarðar um styrki til náms og verkfæra- og tækjakaupa fatlaðs fólks

Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir leiðtogi fatlaðs fólks og eldra fólks á skrifstofu Skagafjarðar kom inn á fundinn í gegnum fjarfundarbúnað undir þessum lið og fór yfir drög að reglum um styrki til náms og verkfæra- og tækjakaupa fatlaðs fólks. Byggðarráð samþykkir samhljóða framlögð drög að reglum um styrki til náms og verkfæra- og tækjakaupa fatlaðs fólks.

  1. Fundargerð heimastjórnar í Skagabúð 12. júní 2025

Erla Jónsdóttir kom inn á fundinn í gegnum fjarfundarbúnað undir þessum lið og kynnti efni fundargerðar heimastjórnarinnar. Byggingar- og skipulagsfulltrúa er falið að vinna mál 1 (Vatnsöflun fyrir Skagabúð) og 5 (Skipulagsmál) í fundargerð heimstjórnar áfram. Sveitarstjóra er falið að vinna mál 4 (Erindi frá Magnúsi Davíð Norðdahl) og 6 (Önnur mál) áfram.

Byggðarráð felur sveitarstjóra jafnframt að kanna stöðu verkefnisins um vegaframkvæmdir á Skagavegi hjá Vegagerðinni.

Að lokum felur byggðarráð sveitarstjóra að láta birta fundargerð heimastjórnar á heimasíðu Húnabyggðar.

  1. Kvörtun vegna ljósaskiltis við N1

Erindi barst frá íbúa vegna ljósaskiltis við starfsemi N1 við Norðurlandsveg. Byggðarráð vísar málinu til byggingar- og skipulagsfulltrúa til frekari meðferðar.

ZAL vék af fundi undir þessum lið vegna skyldleika við sendanda erindisins.

  1. Eftirlitsskýrsla Heilbrigðiseftirlitsins vegna tjaldsvæðisins

Lögð fram skýrsla Heilbrigðiseftirlits Norðurlands vestra varðandi tjaldsvæðið á Blönduósi. Um er að ræða nokkrar minniháttar athugasemdir sem brugðist verður við sem fyrst í samráði við rekstrar­aðila tjaldsvæðisins.

  1. Eftirlitsskýrsla Heilbrigðiseftirlitsins vegna Íþróttamiðstöð

Lögð fram skýrsla Heilbrigðiseftirlits Norðurlands vestra varðandi Íþróttamiðstöð Húna­byggðar. Engar athugasemdir komu fram.

  1. Umsóknir um nám í Tónlistarskólann á Akureyri

Byggðarráð samþykkir erindi frá Tónlistarskóla Akureyrar um kostnaðarþátttöku Húnabyggðar vegna tónlistarnáms íbúa með lögheimili í Húnabyggð. Byggðarráð felur sveitarstjóra að staðfesta svar til Tónlistarskólans á Akureyri. Jafnframt verður sótt um framlag til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga samkvæmt reglum þar um. Fært í trúnaðarbók.

  1. Umsókn um námsvist utan lögheimilissveitarfélags

Umsókn um skólavist utan lögheimilis samþykkt. Fært í trúnaðarbók.

  1. Niðurfelling Vatnsneslínu - framsal girðingar – Húnabyggð

Lagt fram til kynningar. Sveitarstjóra falið að svara erindinu.

  1. Ársreikningur Farskólans-miðstöðvar símenntunar

Lagt fram til kynningar.

  1. Kynning á drögum að nýrri gjaldskrá Þjóðskjalasafns Íslands

Lagt fram til kynningar.

  1. Reglugerð um vigtun og skráningu sjávarafla

Lagt fram til kynningar.

  1. Erindi Félags atvinnurekenda til sveitarstjórnar

Erindi, þar sem Félag atvinnurekenda hvetur sveitarfélög eindregið til að lækka álagningar­prósentu fasteignaskatta og halda þannig sköttum á atvinnuhúsnæði óbreyttum á milli ára, lagt fram til kynningar.

  1. Félagsdómur í máli Félags kennara og stjórnenda í tónlistarskólum gegn Sambandi íslenskra sveitarfélaga

Lagt fram til kynningar.

  1. Fundargerð 473. fundar stjórnar Hafnasambands Íslands

Lagt fram til kynningar.

  1. Fundargerðir 85. og 86. fundar stjórnar Samtaka orkusveitarfélaga

Lagt fram til kynningar.

  1. Fundargerð 980. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga

Lagt fram til kynningar.

  1. Skipulags- og samgöngunefnd Húnabyggðar 41. fundur

Fundargerð 41. fundar skipulags- og samgöngunefndar Húnabyggðar lögð fram til staðfestingar á 55. fundi sveitarstjórnar eins og einstök erindi bera með sér. Liður 5 þarfnast sérstakrar afgreiðslu. Að loknum umræðum um fundargerðina var hún borin upp og staðfest af sveitarstjórn með níu atkvæðum samhljóða.

ZAL vék af fundi undir umfjöllun um lið 1 þessarar fundargerðar.

1.Umsókn um stækkun á innkeyrslu við Melabraut 19

Með innsendu erindi óskar Lárus B Jónsson fyrir hönd Blöndu ehf eftir leyfi til stækkunar á innkeyrslu við Melabraut 19. Um er að ræða breikkun um ca 5 metra til vesturs frá núverandi innkeyrslu.

Skipulags- og samgöngunefnd samþykkir umbeðnar breytingar á forsendum reglna um breytingar á gangstéttum við innkeyrslur á lóði frá 12. september 2023.

ZAL og GRL komu aftur til fundark kl 16:05.

2.Byggingaráform Ægisbraut 9

Með innsendu erindi dags. 20. janúar 2025 óskar Hjörleifur Júlíusson eftir áliti á fyrirhuguðum byggingaráformum að Ægisbraut 9 samkvæmt meðfylgjandi gögnum. Erindið var tekið fyrir á 32. fundi nefndarinnar þann 10. febrúar þar sem byggingafulltrúa var falið að afla frekari gagna.

Skipulags- og samgöngunefnd samþykkir að grenndarkynna fyrirhugaða framkvæmd fyrir eigendum Ægisbraut 3, 11 og 12 og Árbraut 35, þar sem að gert er ráð fyrir að byggingarmagn aukist. Fullnægandi gögn þurfa að berast áður en að grenndarkynning fer fram.

3.Fyrirspurn um framkvæmdir innan helgunarsvæðis háspennulínu á lóð Boreals við Rofahús

Til umræðu minnisblað frá Arkís arkitektastofu fyrir hönd BDC North ehf vegna fyrirhugaðra framkvæmda við Fálkagerði.

Skipulags-og samgöngunefnd felur skipulags-og byggingafulltrúa að heimila bréfritara að leggja fram uppdrætti þar sem rofahús er sýnt innan helgunarsvæðis, Byggingarleyfi verður gefið út þegar að línan verði tekin úr notkun og fjarlægð og fullnægandi gögn hafa borist.

4.Skiltareglur fyrir Húnabyggð

Til umræðu skiltareglur fyrir Húnabyggð.

Skipulags- og samgöngunefnd fór yfir drög af skiltareglum Húnabyggðar og felur skipulags- og byggingarfulltrúa að gera þær breytingar sem að komu upp á fundinum.

5.Lýsing vegna breytingar á Aðalskipulagi Blönduósbæjar 2010-2030, Sunnubraut-Holtabraut

Tekin fyrir lýsing vegna breytingar á Aðalskipulagi Blönduósbæjar 2010-2030, dagsett júní 2025. Um er að ræða breytingu á aðalskipulagi Blönduósbæjar 2010-2030 þar sem gert er ráð fyrir fjölgun lóða við Sunnubraut og við Holtabraut, um leið minnkar svæði O1 til samræmis. Deiliskipulagsbreyting verður unnið samhliða aðalskipulagi og verða báðar tillögur auglýstar samtímis.

Skipulags- og samgöngunefnd leggur til við sveitarstjórn að lýsining verði samþykkt og að hún hljóti málsmeðferð í samræmi við 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.

Bókun fundar

Sveitarstjórn staðfestir afgreiðslu skipulags- og samgöngunefndar og samþykkir lýsinguna.

  1. Byggðarráð Húnabyggðar 110. fundur

Fundargerð 110. fundar Byggðarráðs Húnabyggðar lögð fram til staðfestingar á 55. fundi sveitarstjórnar eins og einstök erindi bera með sér. Liðir 6, 10 og 11 þarfnast sérstakrar afgreiðslu. Að loknum umræðum um fundargerðina var hún borin upp og staðfest af sveitarstjórn með níu atkvæðum samhljóða.

  1. Skólaakstur

Magnús Sigurjónsson kom inn á fundinn og kynnti ný drög að leiðum skólaaksturs fyrir komandi skólaár. Drögin rædd og Magnúsi falið að vinna málið áfram.

  1. Fjármál Húnabyggðar

Sigurður Erlingsson og Sigmar Njálsson komu inn á fundinn og kynntu afkomu sveitarfélagsins á fyrstu fimm mánuðum ársins. Tölurnar sýna að rekstur sveitarfélagsins er í jafnvægi miðað við áætlanir, tekjur hafa aukist á tímabilinu miðað við síðasta ár um 12,2% en gjöld um 11,9%.

  1. Félagsþjónusta Húnabyggðar

Tekið fyrir erindi frá félagsþjónustunni vegna verkefna fyrir ungmenni og byggðarráð tekur jákvætt í erindið og felur félagsmálastjóra að vinna málið áfram.

  1. Framkvæmdir Húnabyggðar

Farið var yfir verksamninga vegna Holtabrautar, en þar er hafin jarðvinna, fyrirhugað er að tengja Holtabraut við Ennisbraut.

  1. Fundargerð fjallskilanefndar

Byggðarráð samþykkir þær framkvæmdir sem skilgreindar eru í fundargerðinni og snúa að styrkvegaframkvæmdum og viðgerðum/endurbótum í gangnamannaskálum.

  1. Framkvæmdir við Skagaveg

Heimastjórn fyrrum Skagabyggðar hefur þegar sent frá sér athugasemdir til yfirvalda og Húnabyggð hélt fund með Vegagerðinni 27. júní þar sem farið var yfir málið. Byggðarráð gerir alvarlegar athugasemdir við upplýsingagjöf Vegagerðarinnar sem tilkynnti ekki Húnabyggð formlega um þá ákvörðun að fresta ætti framkvæmdum við Skagaveg þegar sú ákvörðun var tekin. Sú upplýsingagjöf kom ekki formlega fyrr en um tveimur mánuðum eftir að ákvörðunin var tekin. Þá hefur Vegagerðin ekki sett fram neinar trúverðugar ástæður fyrir þessum töfum aðrar en þær að þetta sé vegna athugasemda Húnabyggðar og landeigenda um legu vegarins á kafla við Stórhól á milli Hofs og Örlygsstaða á Skaga. Það er rétt að lagt var til við Vegagerðina að skoðað yrði að breyta vegstæðinu til að auka öryggi vegfarenda og koma í veg fyrir ófærð á vetrum. Það er vægast sagt langsótt að kenna þessari fyrirspurn um að verkefninu sé frestað, enda gefur Vegagerðin í skyn að ekki sé til fjármagn í þessa framkvæmd. Það er að mati Húnabyggðar ljóst að forgangsröðun verkefna hefur verið breytt og að þessu verkefni hefur verið frestað vegna þess. Það var samið sérstaklega um lagningu Skagavegar við sameiningu Skagabyggðar og Húnabyggðar með aðkomu ráðherra, ráðuneytis, ráðuneytisstjóra og forstjóra Vegagerðar­innar á síðasta ári og því er þessi ákvörðunartaka furðuleg og í raun aðför að hags­munum íbúa okkar sveitarfélags. Í núgildandi samgönguáætlun eru tvö verkefni skilgreind þ.e. framkvæmdir við Vatnsdalsveg og Svínvetningabraut, það eru því ekki rök í málinu að ekki sé til fjármagn því umfram áðurgreint samkomulag vegna sameiningarinnar eru tvö verkefni fjármögnuð á svæðinu í núgildandi samgönguáætlun.

Það er sérstakt að á svæði þar sem samgöngumál hafa verið svelt skuli ákveðið að fresta nauðsynlegum verkefnum þrátt fyrir að ráðherra gefi út að settir hafi verið auknir fjármunir í vegaframkvæmdir á landsbyggðinni. Ráðherra tilkynnti nýlega að settir hefðu verið þrír milljarðar að auki í vegaframkvæmdir á landsbyggðinni. Hvernig geta þá fjármunir sem þegar voru til staðar verið fluttir annað? Hér fer ekki saman hljóð og mynd eins og sagt er og óásættanlegt að þetta skuli bitna á svæði sem nú þegar rekur lestina þegar kemur að uppbyggingu í samgöngumálum.

Húnabyggð hefur einnig af því áhyggjur að fyrirhuguðum framkvæmdum í Vatnsdal muni seinka og að ekki verði byrjað á þeim framkvæmdum á þessu ári.

Þessum vinnubrögðum Vegagerðarinnar og yfirvalda mótmælir byggðarráð harðlega og felur sveitarstjóra að koma sjónarmiðum Húnabyggðar á framfæri við Vegaðgerðina, ráðuneyti og ráðherra.

Bókun fundar

Sveitarstjórn tekur undir bókun byggðarráðs.

  1. Erindi frá USAH

Fyrir fundinum lá erindi frá USAH sem er að skipuleggja Íþróttadag þar sem kynna á hinar ýmsu íþróttir fyrir einstaklingum með fatlanir og af erlendum uppruna. Erindið snýr að leyfi til að nota íþróttahúsið 26. september fyrir þennan viðburð og tekur byggðarráð jákvætt í erindið.

  1. Erindi vegna Dansskóla Norðurlands vestra

Byggðaráð samþykkir að vera með í styrkumsókn þessa verkefnis með fyrirvara um að málið hefur ekki fengið neina umfjöllun í viðeigandi nefndum Húnabyggðar. Möguleg fjármögnun að hálfu Húnabyggðar er einnig með fyrirvara og ákvörðunartöku þar um vísað til gerðar fjárhagsáætlunar fyrir árið 2026.

  1. Styrkbeiðni frá 3. flokki Hvatar/Fram

Byggðarráð hafnar beiðni um styrk þar sem sveitarfélagið er þegar með styrktarsamning við Hvöt sem nær yfir allt starf yngri flokka.

  1. Erindi frá íbúa vegna ágangs fjár

Landeigandi að Auðkúlu 1 hefur sent inn erindi vegna ágang fjárs. Byggðarráð felur sveitarstjóra í samráði við stjórn fjallskiladeildar Auðkúluheiðar að leitast til við að leysa málið sem fyrst.

Bókun fundar

Málið hefur verið skoðað og fjallskilastjóri Auðkúluheiðar er að vinna að lausn málsins með landeigendum og eigendum meints ágangsfjár.

  1. Kvennaskólinn

Fyrir fundinum lágu tvö tilboð vegna framkvæmda við norðugafl kvennaskólans. Byggðarráð samþykkir að taka lægra tilboðinu og vísar gerð viðauka vegna verkefnisins til sveitarstjórnar.

Bókun fundar

Afreiðslu viðauka er frestað til næsta fundar sveitarstjórnar.

  1. Umsögn um áform um endurskoðun laga um tekjustofna sveitarfélaga (skattlagning orkumannvirkja)

Lagt fram til kynningar.

  1. Brottfall barna og ungmenna úr íþróttum

Lagt fram til kynningar og byggðarráð tekur jákvætt í að Húnabyggð taki þátt í verkefninu.

  1. Augu á ferð - fræðsla fyrir skólabílstjóra um vernd barna í dreifbýli

Lagt fram til kynningar og byggðarráð tekur jákvætt í að Húnabyggð taki þátt í verkefninu.

  1. Hveravallafélagið - sölumeðferð eignarhlutar

Lagt fram til kynningar.

  1. Ársreikningur Vilko 2024

Ársreikningur Vilko lagður fram til kynningar og sveitarstjóra falið að kanna áhuga aðila á því að kaupa eignarhlut sveitarfélagsins í Vilko.

  1. Fundargerð 124. fundar stjórnar SSNV

Lagt fram til kynningar.

  1. Fundargerð ársfundur Brákar íbúðafélags

Lagt fram til kynningar.

  1. Byggingarreglugerð – HMS

Lagt fram til kynningar.

  1. Fundargerðir 981. og 982. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga

Lagt fram til kynningar.

  1. Fundargerð 37. fundar fagráðs um málefni fatlaðs fólks

Lagt fram til kynningar.

  1. Samtök um áhrif umhverfis á heilsu

Lagt fram til kynningar.

  1. Skýrsla sveitarstjóra

Sveitarstjóri fór yfir helstu verkefni sveitarfélagsins sem eru í gangi. Umfangsmikil dagskrá var í júní mánuði og mikið um að vera og nú er sumarvinnan komin á fullt. Framkvæmdir eru hafnar við að lengja Holtabraut fram að Ennisbraut, hönnun nýs íbúðarkjarna er langt komin. Standsetning nýs ráðhúss Húnabyggðar er í fullum gangi, en ástand gamla hússins var verra en áætlað var og þar hefur þurft að vinna töluverða vinnu við einangrun og frágang utan á húsinu. Áætlað er að skrifstofan flytji inn í húsið á haustmánuðum.

Getum við bætt efni þessarar síðu?