9. fundur 21. nóvember 2023 kl. 13:00 - 15:00 í fundarsal að Hnjúkabyggð 33
Nefndarmenn
  • Jón Árni Magnússon formaður
  • Anna Margrét Jónsdóttir varamaður
    Aðalmaður: Halldór Skagfjörð Jónsson
  • Þuríður Hermannsdóttir ritari
  • Sara Björk Þorsteinsdóttir aðalmaður
  • Jón Gíslason aðalmaður
  • Sverrir Þór Sverrisson áheyrnarfulltrúi
Starfsmenn
  • Pétur Arason sveitarstjóri
  • Magnús Sigurjónsson embættismaður
Fundargerð ritaði: Magnús Sigurjónsson
Dagskrá

1.Refa- og minnkaveiðar

2211018

Refa- og minnkaveiðar
Landbúnaðarnefnd Húnabyggðar leggur til að átak verði gert í eyðingu refs í sveitarfélaginu.
Húnabyggð er öflugt landbúnaðarhérað þar sem langflestir í sveitunum stunda sauðfjárbúskap, en það skyggir á góðan árangur hve mikið af sauðfé skilar sér ekki úr sumarhögum innan sveitarfélagsins, á þar tófan ábyggilega þátt enda þekkt að tófur taki lömb að vori og leggist á búfénað sem er veikur fyrir.

Er það tillaga Landbúnaðarnefndar til Byggðarráðs að gjaldskrá sé eftirfarandi:

Veiðimenn sem stunda bæði sumar- og vetrarveiði:
20.000 kr. fyrir hvern veiddan ref, hvort sem á við fullorðið dýr eða yrðling. Til að fá fulla greiðslu skal skila veiddum dýrum í áhaldahús sveitarfélagsins og þaðan verða þau send til Náttúrufræðistofnunar Íslands.


Veiðimenn sem stunda einungs sumarveiði/grenjavinnslu:
14.000 kr. fyrir hvern veiddan ref, hvort sem á við fullorðið dýr eða yrðling. Til að fá fulla greiðslu skal skila veiddum dýrum í áhaldahús sveitarfélagsins og þaðan verða þau send til Náttúrufræðistofnunar Íslands.

Veiðimenn sem stunda einungs vetrarveiði:
14.000 kr. fyrir hvern veiddan ref. Til að fá fulla greiðslu skal skila veiddum dýrum í áhaldahús sveitarfélagsins og þaðan verða þau send til Náttúrufræðistofnunar Íslands.

Gjaldskrá byggir á því að veiðimenn hafi samning við Húnabyggð.


Aðilar sem einungis skila inn skottum án samnings:
3.000 kr. á hvert skott.


Er það sýn Landbúnaðarnefndar að með því að hækka verulega gjaldið fyrir vetrarveidd dýr þá muni það draga úr fjölgun stofnins þar sem færri dýr munu eignast yrðlinga að sumri. Er það okkar trú að krónutala sveitarfélagsins muni verða sú sama á ársgrundvelli. Landbúnaðarnefnd vill að þeir veiðimenn sem að stunda bæði sumar- og vetrarveiði fyrir Húnabyggð fái að njóta þess með hærri gjaldskrá og að það hvetji þá til að gera vel og skila af sér. Einnig er það von Landbúnaðarnefndar að fleiri veiðimenn myndu taka að sér bæði sumar- og vetrarveiði og dreifa þannig veiðunum betur um sveitarfélagið, þannig næst bestur árangur.

Vinna við nýjar reglur, svæðaskipulag og auglýsingu á refaveiði stendur yfir.

Landbúnaðarnefnd Húnabyggðar leggur til að átak verði gert í eyðingu minks í sveitarfélaginu. Miklir hagsmunir eru innan sveitarfélagsins þessum málum tengt, gjöfular laxveiðiár skila sér til sjávar og skapa gríðarlegar tekjur til jarðareiganda, fiskveiði er víða leigð út í vötnum og er það því allra hagur að eyða minkum eins og kostur er. Einnig mun fuglalíf auðgast til muna. Landbúnaðarnefnd leggur til við sveitarstjóra að halda áfram viðræðum við formenn veiðifélaga innan Húnabyggðar og ganga frá samningum um mótframlag sem fyrst svo hægt sé á vordögum að fara með fullum þunga út á bakkana.

Landbúnaðarnefnd leggur til við Byggðarráð eftirfarandi tillögu að gjaldskrá:

Veiðimenn með samning við sveitarfélagið Húnabyggð:
6.000 kr. á veiddan mink. Veiðimenn skulu skila skottum inn til áhaldahúss sveitarfélagsins.

Veiðimenn án samnings við sveitarfélagið Húnabyggð:
3.000 kr. á veiddan mink og skili skottum inn til áhaldahúss sveitarfélagsins.

2.Búfénaður í þéttbýli

2211020

Búfjárhald í þéttbýli
Landbúnaðarnefnd vill ítreka við sveitarstjórn að skila inn athugasemdum sínum er varðar búfénað í þéttbýli fyrir næsta fund nefndarinnar í desember til þess að hægt sé að ganga frá samþykktinni.

3.Önnur mál

2206034

Önnur mál
Landbúnaðarnefnd Húnabyggðar vill hvetja Matvælaráðherra til að falla frá þeirra breytingu að blóðmerahald falli undir reglugerð nr.460/2017 en það stangast á við áður útgefna reglugerð frá árinu 2022 sem gilda átti til 2025. Þessar breytingar á reglugerð um blóðmerahald mun gera bændum nánast ókleift að halda þessum búskap áfram og skilur þá eftir í mikilli óvissu um framhaldið. Í sveitarfélaginu Húnabyggð eru um 30 bændur sem halda blóðmerar, og eru tekjur þeirra samanlagt um 150 milljónir á ársgrundvelli fyrir blóðnytjar. Blóðmerahald er því ein af meginstoðum búsetu á jörðum innan sveitarfélagsins, með blóðmerahaldi skapast grundvöllur fyrir byggðafestu. Síðustu ár hafa verðmæti á hverja hryssu hækkað verulega og auknar tekjur skapa svigrúm til betra lífs og tækifæri til uppbyggingar á jörðum, sem að skilar sér í auknu fasteignaverðmæti og hærri útsvarsstofni. Með aflagningu blóðmera búskaps er hætt við að margir bændur muni lóga hryssum sínum, hætta að nytja jarðirnar og jafnvel það sem verra er, leita á önnur mið utan sveitarfélagsins. Fjölmörg afleidd störf eru einnig tengd blóðmerabúskap s.s. eftirlit, blóðsöfnun og dýralæknaþjónusta, þetta dregur því úr atvinnumöguleikum og afkomu fleiri aðila en bara bændanna sjálfra.
Landbúnaðarnefnd vill koma því á framfæri að innan Húnabyggðar eru beitarhagar með því besta sem að gerist á landinu, bæði í lágsveitum sem og inn til heiða og því forsendur til búrekstrar á hvaða sviði sem er eins og best verður á kosið, því þarf að tryggja að byggð haldist á þessum jörðum og það er gert með fjölbreyttum atvinnumöguleikum líkt og blóðmerahaldi.
Þessi aðgerð Matvælaráðherra er þvert á stefnu ríkisstjórnarinnar um að styðja við brothættar byggðir í landinu sem og dregur verulega úr öryggi þeirra hryssna sem eftir standa þegar að rekstragrundvöllur til fóðuröflunar og annarrar umhirðu er horfinn, sérstaklega í því rekstrar umhverfi sem að landbúnaðurinn stendur frammi fyrir í dag.

Landbúnaðarnefnd Húnabyggðar vill hvetja bændur til að nýta sér sæðingar á komandi fengitíma. Á sæðingarstöðvunum þetta árið eru margir átlitlegir hrútar með verndandi arfgerðir gagnvart riðu. Landbúnaðarnefnd telur það brýnt fyrir framtíð sauðfjárbænda í sveitarfélaginu að ganga hreint til verks og reyna að tryggja sína framtíð með ræktun þessarra arfgerða. Riðan gerðist vágestur að Stórhól í Víðidal, en Stórhóll er innan sama varnarhólfs og allir bændur Húnabyggðar, svo riðan er nálægt og það er undir okkur öllum komið að tryggja áfram blómlega byggð í sveitarfélaginu án riðu.

Landbúnaðarnefnd leggur til að sveitarfélagið Húnabyggð niðurgreiði sæðingar sem nemur 50% af verði þegar sætt er með hrútum sem bera arfgerðirnar ARR,AHQ,T137 og C151. Landbúnaðarnefnd vill að Húnabyggð verði leiðandi sveitarfélag við innleiðingu verndandi arfgerða gegn riðu.

Landbúnaðarnefnd Húnabyggðar vill hvetja hundaeigendur til að ormahreinsa hunda sína enda er það lagaleg skylda þeirra. Vöðvasullur sást í sláturhúsum í haust og er það allra hagur að það gerist ekki aftur

Fundi slitið - kl. 15:00.

Getum við bætt efni þessarar síðu?