5. fundur 24. nóvember 2025 kl. 15:00 - 17:00
Nefndarmenn
  • Guðmundur Rúnar Halldórsson fyrir hönd fjallskiladeildar Eyvindastaðarheiðar.
  • Helgi Páll Gíslason fyrir hönd fjallskiladeildar Auðkúluheiðar.
  • Anna Margrét Jónsdóttir fyrir hönd fjallskiladeildar Skrapatunguafrétta.
  • Hilmar Smári Birgisson fyrir hönd fjallskiladeildar Grímstungu- og Haukagilsheiða.
  • Jón Helgi Sigurgeirsson fyrir hönd fjallskiladeilda Skagaheiða
Starfsmenn
  • Pétur Arason sveitarstjóri
Fundargerð ritaði: Pétur Arason sveitarstjóri

Dagskrá

  1. Fjallskilasamþykkt A-Hún

Töluverðar umræður urðu um núgildandi fjallskilasamþykkt A-Hún og þrátt fyrir að ýmislegt megi uppfæra og ræða um er fjallskilannefnd sammál um að ekki sé þörf á því að gera meiriháttar breytinga á samþykktini.

 

Eftirfarandi eru atriði sem fjallskilanefnd vill skoða nánar:

 

  • 23. gr. tillaga að flytja Sveinstaðarétt úr aukarétt í skilarétt. Þetta er gert þar sem aðstæður hafa breyst og stór fjárbú eru utarlega í Vatnsdal og Þingi. Þetta þekkist nú þegar í fjallskiladeild Eyvindarstaðaheiðar.
  • Bæta þarf við Hvammsrétt í Langadal sem aukarétt.
  • Skoða þarf hvort að Kjalarlandsrétt eigi að vera skilarétt.
  • Hvað varðar réttardaga að breyta núverandi skilgreiningu fyrir fyrri réttir þannig að alltaf sé hægt að velja tvo laugardaga eða tvo sunnudaga í september. Þetta er gert með því að tímabilið sé skilgreint 4-13. september.
  • Breyta þurfi eftirfarandi texta Seinni réttardagar í öllum réttum austan Blöndu eru viku eftir aðalréttir þannig að seinni réttir verði eigi seinna en tvemur viku eftir fyrri réttir.
  • Fjárskil í Húnabyggð fari fram frá fyrsta mánudegi í október fram að 18. október.
  • Réttardagar í öllum fjallskiladeildum skulu gerðir opinberir í síðasta lagi 10. júní.
  • 29. gr. má sleppa henni, en þá þarf að hugsa hvað er gert ef það eru til aukaréttir? Gera aukaréttir að skilaréttum en sleppa því að nefna hinar?

 

Á næstu fundum fjallskilanefndar verða þessi og önnur atriði rædd nánar áður en breytingatillögur verða formlega lagðar fram.

 

  1. Fjallskil og gangnaseðlar

Eftirfarandi bókun barst frá fjallskiladeild Grímstungu- og Haukagilsheiða:

 

Fjallskilastjórn Grímstungu- og Haukagilsheiða leggur til að sagt verði upp samningi vegna Sauðadals og nýr samningur verði gerður vegna hans. Jafnframt vísar fjallskilastjórn til 5. gr. Fjallskilasamþykktar fyrir Austur-Húnavatnssýslu um sameiginleg beitilönd og notkun þeirra í þessu samhengi.

 

  1. grein Fjallskiladeildar er svohljóðandi:

Land sem fjallskilaframkvæmd tekur til, skiptist í afrétti og heimalönd. Þar sem almenningur (óbyggðir) þurfa hreinsunar við, tekur fjallskilaframkvæmd til þeirra eftir því sem þörf krefur og nánar er fyrir mælt í lögum um fjallskil og samþykkt þessari. Land sem notað er til upprekstrar, en er í eigu annarra aðila en viðkomandi upprekstrarfélags eða hreppa innan þess, fellur undir yfirumsjón fjallskiladeildar þess hrepps sem landið er í, án tillits til þess hvort eigendur landsins eru búsettir innan hreppsins eða utan hans.

 

Samkvæmt korti 17151 Vatnsdalur, frá Landmælingum Íslands, útgefið árið 1916 sést greinilega að Sauðadalur liggur að öllu leyti innan gamla Torfalækjarhrepps og fellur því undir fjallskiladeild Auðkúluheiðar.

  1. grein Fjallskilasamþykktar Austur-Húnavatnssýslu er svohljóðandi:

 

Fjallskilastjórn skal skipa fyrir um smalanir heimalanda. Heimilt er að haustsmölun heimalanda verði metin til aðalfjallskila eftir því sem hreppsnefnd ákveður. Allan óskilafénað, sem kemur fyrir, skal fara með samkvæmt ákvörðun fjallskilastjórnar.

 

Að þessu sögðu viljum við að sveitarstjórn Húnabyggðar skeri úr um hvort heimalönd á Sauðadal séu metin til aðalfjallskila eða ekki.

Í samkomulagi milli fyrrum Húnavatnshrepps og landeigandanna Pálma Ellertssyni og Sigurði Erlendssyni að Sauðadal sem rann út árið 2022 stangast 1., 3. og 6. grein samningsins á. Þær eru eftirfarandi:

1.grein: Samningsaðilar eru sammála um að stjórn Fjallskiladeildar Auðkúluheiðar og stjórn Fjallskiladeildar Grímstungu- og Haukagilsheiða meti þrjár haustleitir á Sauðadal til fjallskila í umboði Húnavatnshrepps, skv. Fjallskilasamþykkt, nr. 299 frá 3. mars 2009 og skv. lögum, um afréttarmál, fjallskil o.fl. nr. 6/1986.

3.grein: Fjallskiladeild Auðkúluheiðar og Fjallskiladeild Grímstungu- og Haukagilsheiða skulu sjá um smalamennskur skv. 1. gr. samkomulags þessa, sem hér segir:

 

  • Fyrstu Sauðadalsgöngur fari fram samkvæmt ákvörðun stjórna fjallskiladeildanna.
  • Aðrar Sauðadalsgöngur skulu fara fram, sunnudaginn, fyrir seinni réttir fjallskiladeildanna.
  • Eftirleit á Sauðadal skulu fara fram, fyrir hreppaskil fjallskiladeildanna.

 

6.grein: Fjallskiladeild Auðkúluheiðar og Fjallskiladeild Grímstungu- og Haukagilsheiða, bera ekki kostnað af öðrum fjárleitum á Sauðadal en þær sem tilgreindar eru í 3. gr. samkomulags þessa, s.s. frekari eftirleitir eftir 1. desember ár hvert.

 

Samkvæmt okkar skilningi þá samkvæmt 3. grein þá eiga fjallskiladeildirnar að borga fyrstu þrjár leitirnar en í 6. grein þá kemur skýrt fram að ekki eigi að greiða fyrir aðrar leitir en þessar þrjár en þó á að greiða fyrir alla smalamennsku fram að 1. des. Þetta samræmist ekki.

Eins og sagt var í upphafi þessa erindis þá samkvæmt 5. grein Fjallskilasamþykktar fyrir Austur-Húnavatnssýslu er “land sem notað er til upprekstrar, en er í eigu annarra aðila en viðkomandi upprekstrarfélags eða hreppa innan þess, fellur undir yfirumsjón fjallskiladeildar þess hrepps sem landið er í, án tillits til þess hvort eigendur landsins eru búsettir innan hreppsins eða utan hans”.

Samkvæmt korti Landmælinga Íslands frá 1916, 17151 Vatnsdalur sést greinilega að Sauðadalur fellur innan hreppamarka gamla Torfalækjarhrepps og því sé það alfarið í höndum fjallskiladeildar Auðkúluheiðar að skipuleggja leitir á Sauðadal sem og sækja það fé sem kemur fyrir að loknum gangnaskilum.

 

Fjallskiladeild Auðkúluheiðar vill færa eftirfarandi til bókar:

 

Út frá bókun fjallskiladeildar Grímstungu- og Haukagilsheiða vill fjallskilanefnd Auðkúluheiðar taka fram að deildin setur ekki út á samningurinn sé tekin upp og endurskoðaður. Fjallskiladeild Auðkúluheiðar vill taka fram að deildin óskar ekki eftir því að meiri kostnaður falli á deildina vegna þessa svæðis. Þá vill deildin einnig setja spurningamerki við að kort frá 1916 sé notað til grund­vallar í þessu máli í sameinuðu sveitarfélagi.

 

Fjallskilanefnd leggur til við sveitarstjórn að sveitarstjóra verði falið að fá lögfræðiálit á þessu álitamáli.

 

  1. Réttir og göngur

Ræddar voru ýmsar hugmyndir er varðar útfærslu rétta og þá sérstaklega stóðrétta. Ákveðið að ræða þessi mál betur á næstu fundum.

 

Ekkert annað rætt og ákveðið að næsti fundur nefndarinnar verði 26. janúar klukkan 15:30.

Getum við bætt efni þessarar síðu?