Í upphafi fundar bað sveitarstjóri um að breyting yrði gerð á dagskrá fundarins og var tillagan samþykkt samhljóða.
Dagskrá
1. Undirbúningur fyrir fjallskil
Magnús Sigurjónsson og Sigurður Erlingsson komu inn á fundinn undir þessum lið. Fjallskilastjórar allra deilda fóru yfir skipulag fjallskila þ.e. hvernig gjöld eru lögð á lönd og eigendur búfjár. Það er ljóst að á milli deildanna eru mismunandi reglur og hefðir. Eitthvað af þessum er hægt að samræma og það væri til einföldunar, en málið þarf að ræða betur og velta fyrir sér hugmyndum um hvaða útfærslur gætu hentað sem reglur sameinaðs sveitarfélags. Tillaga kom upp um að bannað væri að skamma í göngum sem er tilraunaverkefin sem nú stendur yfir í fjallskiladeild Grímstunngu- og Haukagilsheiða.
2. Girðingamál
Björn Þórisson kom inn á fundinn undir þessum lið og fór yfir þá girðingavinnu sem fram hefur farið í sumar. Búið er að fara með nánast öllum afréttagirðingum á öllum heiðum og eitthvað af öðrum girðingum. Enn er töluverð vinna eftir á ýmsum stöðum t.d. hvað varðar stýrigirðingar og lagfæringar á girðingum við réttir og nátthólf. Þá eru tvö stór verkefni sem stendur til að gera þ.e. nýgirðing á Víðidalsfjalli og að taka niður rafmagnsgirðingar á Auðkúluheiði.
3. Styrkvegir
Ýmsar vegaframkvæmdir eru hafnar eins og t.d. að taka stór grjót úr Grímstunguheiðarvegi framan við heiðargirðingu, laga veginn við Stafnsrétt og búið er að hefla Hrafnabjargaveginn og á milli Mánaskálar og Núps á Laxárdal. Aðrar framkvæmdir eins og t.d. við Vaglir og Grímstunguheiði eru í undirbúningi. Bent er á að sækja þarf um fé til að laga landbrot við Stafnsrétt en umsóknarfrestur er 1. febrúar ár hvert.
4. Erindisbréf fjallskilanefndar
Erindisbréf fjallskilanefndar var lagt fyrir fundinn og samþykkt en nú eru allar fjallskiladeildir komnar saman í eina fjallskilanefnd en nú síðast bættist fjallskiladeild Skagaheiðar (fyrrum Skagahreppur og Vindælishreppur) formlega við nefndina.
5. Sauðfjárveikivarnarlínur
Þar sem Vatnsneslína er hvergi á landamerkjum Húnabyggðar eru engin þörf á að bregðast við fyrirspurn frá ráðuneytinu vegna þessa. Fjallskilanefnd áréttar af þessu tilefni að höfuðáhersla Húnabyggðar í þessum málum séu girðingar á milli Hofsjökuls og Langjökuls annars vegar og hins vegar á milli Langjökuls og Réttarvatns á Arnarvatnsheiði.
6. Ágangsmál
Fjallskilastjóri Auðkúluheiðar og sveitarstjóri hafa verið í samskiptum við landeigendur sem deilt hafa um ágangsmál og verið er að vinna með lausn málsins. Fjallskilanefnd gerir ráð fyrir því að hægt verði að finna á þessu máli lausn sem allir geta sætt sig við.
7. Önnur mál
Engin önnur mál voru tekin fyrir.