Þar sem hvorki formaður né varaformaður byggðarráðs sitja 123. fund byggðarráðs Húnabyggðar, þá stýrir fundi í upphafi fundar Jón Gíslason sem á að baki jafnlanga setu í sveitarstjórn Húnabyggðar og varamenn byggðarráðs en er aldursforseti þeirra fulltrúa sem fundinn sitja. Fyrst á dagskrá fundarins er að kjósa hver fari með formennsku á fundinum. Jón Gíslason stýrir fundi byggðarráðs þar til ráðið hefur kosið um hver fari með formennsku á fundinum.
Grímur Lárusson óskar eftir því að einu máli verði bætt við dagskrána sem er öryggismál við Húnaskóla. Málið verður númer 10 á dagskrá fundarins.
Dagskrá fundarins
- Kosning setts formanns byggðarráðs í fjarveru formanns og varaformanns
Grímur Rúnar Lárusson lagði fram þá tillögu að Jón Gíslason gegni formennsku í bygggðarráði á 123. fundi byggðarráðs í fjarveru formanns og varaformanns. Engar aðrar tillögur láu fyrir og Jón Gíslason því réttkjörinn.
- Erindisbréf velferðarnefndar
Nýtt erindisbréf velferðarnefndar Húnabyggðar lagt fram til kynningar og það staðfest af hálfu byggðarráðs.
- Samgöngumál Húnabyggðar
Rædd voru samgöngumál Húnabyggðar og staða þeirra stóru verkefna sem í gangi eru og/eða fyrirhuguð hjá Vegagerðinni. Erindi hefur verið sent á innviðaráðherra og sveitarstjóra er falið að kanna stöðu Vatnsdalsvegarverkefnisins sem á að vera hafið og fylgja á eftir erindinu sem sent var til innviðaráðuneytisins sem varðaði Vatnsdalsveg, Svínvetningabraut og Skagaveg.
- Þingeyrakirkjugarður
Tekið fyrir erindi frá sóknarnefnd Þingeyrasóknar er varðar umsókn um styrk vegna Þingeyrakirkjugarðs. Byggðarráð samþykkir að leggja til 1.000.000kr. í verkefnið og að tekið verði tillit til þess í fjárhagsáætlun 2026.
- Samningar við Textílmiðstöð Íslands, Þekkingarsetur og Ós textílmiðstöð
Gildandi samningar við Textílmiðstöðvarinnar lagðir fram til kynningar og hugmyndir um útfærslu framtíðarsamnings ræddar. Sveitarstjóra falið að vinna málið áfram.
- Leigusamningur við SSNV
Lagður fram til kynningar leigusamningur við SSNV vegna aðstöðu í kvennaskólanum og sveitarstjóra falið að vinna að endanlegri útgáfu samningsins.
- Úthlutun úr Námsgagnasjóði 2025
Lagt fram til kynningar en Húnaskóli hefur fengið úthlutað 330.621kr. í námsgagnakaup.
- Fundargerð 987. fundar stjórnar Sambandsins
Lagt fram til kynningar.
- Framkvæmdaráð málefna fatlaðs fólks á Norðurlandi vestra – 39. fundur.
Lagt fram til kynningar.
- Öryggismál við Húnaskóla
Erindi barst frá foreldrafélagi Húnaskóla vegna hættu sem skapast þegar börn eru að leik í kirkjubrekkunni á snjóþotum, snjósleðum o.s.frv. og eiga það til að lenda á vegg Íþróttamiðstöðvarinnar. Erindinu fylgdu hugmyndir að lausnum sem byggðarráð felur sveitarstjóra að skoða ásamt Þjónustumiðstöð með það fyrir augum að finna leið til að auka öryggi barnanna.
- Fjárhagsáætlunargerð fyrir árið 2026
Inn á fundinn komu Jón Ari Stefánsson og Sigurður Erlingsson og fóru yfir forsendur og uppstillingu fjárhagsmódels Húnabyggðar fyrir árið 2026. Einnig var farið yfir drög að útgönguspá fyrir 2025.
Byggðarráð ákveður að framvegis verði almennar gjaldskrárhækkanir Húnabyggðar næsta árs miðaðar við verlagsþróun undangenginna 12 mánaða. Á þennan hátt mun sveitarfélagið fylgja verðlagsþróun hvers tíma, með smá seinkun, en þó þannig að aldrei er verið að van- eða ofáætla hækkanir á gjaldskrám. Almennar gjaldskrárhækkanir ársins 2026 verða því 3,8% sem er verðlagsþróun síðustu 12 mánaða. Skoða þarf sérstaklega gjaldskrár úrgangsmála og fráveitu í dreifbýli og mun það verða gert á næstu fundum byggðarráðs.
Byggðarráð samþykkir að farið verði í endurbætur á einni íbúð í Hnitbjörgum á árinu 2025 og að gerður verði viðauki á fjáhagsáætlun 2025 upp á 25 milljónir vegna þessa.
Tekin var fyrir lántökuþörf Húnabyggðar á árinu 2025 og byggðarráð leggur til við sveitarstjórn að tekið verði allt að 140.000.000kr. lán núna og að þannig verði heildarlántaka Húnabyggðar allt að 340.000.000kr. á árinu 2025.
Fjárfestingaáætlun ársins 2026 var rædd og farið yfir hvaða helstu verkefni eiga að vera í fókus. Sveitarstjóra falið að vinna áætlunina áfram fyrir næsta fund.
Formaður leggur til að haldnir verði tveir fundir í næstu viku þ.e. á þriðjudag klukkan 15:00 og fimmtudag klukkan 15:00. Sveitarstjóra falið að boða til fundanna. Tillagan samþykkt samhljóða.
 
												