114. fundur 13. ágúst 2025 kl. 15:00 - 16:31
Nefndarmenn
  • Auðunn Steinn Sigurðsson formaður
  • Ragnhildur Haraldsdóttir aðalmaður
  • Jón Gíslason aðalmaður
Starfsmenn
  • Pétur Arason sveitarstjóri
Fundargerð ritaði: Pétur Arason sveitarstjóri

Formaður óskaði eftir því í upphafi fundar að við dagskránna yrði bætt einum lið um Svínvetningabraut og var það samþykkt samhljóða. Þá óskaði formaður einning eftir því að liður 5 yrði nefndur „Girðingamál Húnabyggðar“ og var það samþykkt samhljóða.

Dagskrá fundarins

  1. Tónlistarskólinn

Lagt fram til kynningar umsókn til ráðuneytisins vegna óskar um að breyta tónlistarskólanum formlega í byggðarsamlag þannig að hægt sé að slíta byggðarsamlagi um tónlistarskóla form­lega. Við slit byggðarsamlaganna kom í ljós að tónlistarskólinn var aldrei formlega byggðar­samlag.

  1. Húsnæðismál

Ákveðið að fara í framkvæmdir við tvær íbúðir í Hnitbjörgum, en framkvæmdir geta ekki hafist fyrr en sumarfríum er lokið. Stefnt er að því að hafa þær tilbúnar sem fyrst, en áður en framkvæmdir hefjast þarf að liggja fyrir kostnaðaráætlun sem samþykkja þarf formlega í byggðarráði. Byggðarráð felur sveitarstjóra að láta útbúa kostnaðaráætlun fyrir verkefnin.

 

Byggðaráð felur sveitarstjóra að kanna tryggingamál íbúðar í blokkinni sem skemmdist í byrjun árs, þannig að hægt sé að ákveða framhald þess máls.

 

Jón Gíslason bar eftirfaradi tillögu fram:

Byggðaráð samþykkir að fela sveitarstjóra að láta klæða Dalsmynni eins og ákveðið var í fjárhagsáætlun sveitarfélagsins fyrir árið 2025.

Byggðarráð fellir tillöguna með tveimur atkvæðum gegn einu (JG).

 

Auðunn Steinn Sigurðsson bar upp eftirfarandi tillögu:

Byggðarráð vísar ákvörðun um klæðningu Dalsmynnis til gerðar fjárhagsáætlunar fyrir árið 2026.

Tillagan var samþykkt með tveimur atkvæðum gegn einu (JG).

  1. Umsókn Húnabyggðar vegna hafnargerðar og sjóvarna á samgönguáætlun 2026-2030

Lagt fram til kynningar

  1. Húsaleigubætur Húnabyggðar

Uppfæra þarf reglur Húnabyggðar um sérstakar húsnæðisbætur og byggðarráð felur sveitarstjóra að láta uppfæra reglurnar og leggja fyrir byggðarráð.

  1. Girðingamál Húnabyggðar

Erindi hefur borist frá eigendum Blöndubakka um að merkjagirðing milli Ennis og Blöndubakka frá Þverárfjallsvegi að Hólmavatni verði löguð á árinu 2026. Byggðarráð samþykkir að laga merkjagirðinguna milli Ennis og Blöndubakka frá Þverárfjallsvegi að Hólmavatni með því skilyrði að girðingin verði fjárheld og gerð samkvæmt núgildandi viðmiðum. Byggðaráð vísar málinu til umfjöllunar í fjárhagsáætlunargerð fyrir árið 2026.

 

Erindi hefur borist frá eigendum Áss í Vatnsdal um að merkjagirðing Áss við land Þingeyra sem leigt er af Húnabyggð verði löguð. Þessi girðng hefur nú þegar verið löguð á um 300m kafla og ætlunin er að klára það verkefni í þessum áfanga. Byggðarráð samþykkir að verkefnið verði klárað á þessu ári.

  1. Skipurit Húnabyggðar

Byggðarráð samþykkir samhljóða uppfært skipurit og vísar því til samþykktar sveitarstjórnar.

  1. Svínvetningabraut

Farið var yfir ástand Svínvetningabrautar sem er mjög slæmt á kaflanum frá Stóra Búrfelli að veginum fram í Blöndudal að vestan verðu. Nokkrir aðilar hafa kvartað undan skemmdum bíla og ástand vegarins er engan vegin ásættannlegt. Á síðustu dögum hóf Vegagerðin framkvæmdir við veginn og búið er að hefla frá bundna slitlaginu norðan við Grænuhlíð og fram að Sólheimum. Ekkert efni hefur þó verið borið í veginn og því einsýnt að þessar aðgerðir verða skammvinnar. Byggðarráð bendir á að óeðlilegt er hversu seint þessar framkvæmdir fara af stað, en nú fer að líða að sumarlokum og framkvæmdir fyrst að hefjast núna.

Byggðarráð beinir því til Vegagerðarinnar að séð verði til þess að almennar og árlegar vegabætur verði gerðar á Svínvetningabraut tímanlega þannig að fólk geti ferðast um svæðið án þess að bílar skemmist o.s.frv. Þá minnir byggðarráð á að Svínvetningabraut er ein af lífæðum samfélagsins sem íbúar nota til að komast til vinnu, börn í skóla o.s.frv. og Svínvetningabraut er einnig varaleið fyrir þjóðveg 1. Einnig er rétt að ítreka að 6km kafli Svínvetningabrautar er inn á núgildandi samgönguáætlun þar sem setja á bundið slitlag á þessa 6km. Ekkert hefur orðið af því þrátt fyrir að búið væri að tala við landeigendur og gera nauðsynlegar rannsóknir o.s.frv. vegna undirbúnings verkefnisins.

Erindi hefur verið sent á Vegagerðina vegna ástands Svínvetningabrautar, veginum yfir Orrastaðaflóann og veginum vestan megin í Svíndadal. Allir þessir vegir þurfa viðhald sem ekki hefur verið sinnt. Svör Vegagerðarinnar til sveitarfélagsins eru á þá leið að verið sé að hefla Svínvetninngabraut, vegakaflar vestan Svínavatns verði skoðaðir en ekki verði farið í veginn yfir Orrastaðaflóa. Þá segir í svörum Vegagerðarinnar að ástæða þess að ekki sé verið að bera efni í veginn sé sú að Vegagerðin fái ekki unnið malarslitlagsefni. Engar sérstakar ástæður voru skilgreindar af hverju ekki. Að lokum segir Vegagerðin í svörum sínum að kaflinn frá Svartárbrúnni að Blöndubrú í Blöndudal hafi verið til vandræða frá byrjun eða frá 2017-2018. Nú sé verð að skoða þetta eins og tvö síðustu ár, en ekkert liggi fyrir hvað gert verði.

Þau svör sem fólk hefur fengið sem hefur kvartað hefur vegna skemmda á bifreiðum sínum er að Vegagerðin hafi ekki náð samningum um efnistöku á svæðinu. Það eru ekki sannfærandi rök þar sem Vegagerðin er með aðgengi að námum um land allt og því öllum hnútum kunnug um samninga við landeigendur hvað þetta varðar.

Þá vill byggðarráð að lokum ítreka að vegkaflinn frá þjóðvegi 1 við Svartárbrú að Blöndubrú í Blöndudal og að gatnamótum við Kjalveg er stórhættulegur og engar vegabætur hafa verið gerðar þar þrátt fyrir loforð um það á síðustu árum. Vegagerðin verður að sjá til þess að fólk geti ferðast á vegum án þess að vera í bráðri hættu ef mæta þarf bílum, en það er staðan á þessum vegkafla.

 

Byggðarráð felur sveitarstjóra að koma þessum skilaboðum á framfæri við innviðaráðherra og Vegagerðina.

Getum við bætt efni þessarar síðu?