113. fundur 30. júlí 2025 kl. 15:00 - 18:31
Nefndarmenn
  • Auðunn Steinn Sigurðsson formaður
  • Zophonías Ari Lárusson varamaður
  • Elín Aradóttir varamaður
Starfsmenn
  • Pétur Arason sveitarstjóri
Fundargerð ritaði: Pétur Arason sveitarstjóri

Formaður óskaði eftir því að við dagskránna yrði bætt við einum lið um Húnavöku og var það samþykkt samhljóða.

Dagskrá fundarins

1. Skólaakstur Húnabyggðar

Magnús Sigurjónsson kom inn á fundinn undir þessum lið og fór yfir þær breytingar sem nauðsynlegt er að gera á leiðakerfi skólaaksturs. Byggðarráð ákveður í framhaldi af umræðum fundarins að haldnir verði fundir með bílstjórum þeirra leiða sem munu breytast á næsta skólaári.

2. Beitarhólf í landi Húnabyggðar

Magnús Sigurjónsson kom inn á fundinn undir þessum lið og kynnti fyrirspurnir sem borist hafa um leigu á beitarlandi og af því tilefni leggur byggðráð til að stefna sveitarfélagsins í þessum málum verði samræmd og verklag samþætt. Byggðarráð felur sveitartjóra að skapa heildaryfirsýn yfir leigðar landspildur í landi Húnabyggðar og hvaða reglur gilda þar um leigugjald og umgengni um hið leigða. Jafnframt verði skoðað hvernig leigusamningar um beitarhólf o.s.frv. þar sem Húnabyggð er leigutaki er háttað.

3. Hálfsársuppgjör Húnabyggðar

Sigmar Ingi Njálsson kom inn á fundinn undir þessum lið og kynnti drög að uppgjöri fyrstu sex mánaða ársins. Heilt yfir er reksturinn í jafnvægi en kostnaður hefur þó hækkað umfram hækkun tekna og því er framlegðin minni en á sama tíma og í fyrra. Hér munar mest um hækkun launa- og launatengdra gjalda.

4. Fjárfestingaverkefni

Sigmar Ingi Njálsson kom inn á fundinn undir þessum lið og fór yfir stöðu fjárfestingaverkefna ársins 2025 sem stendur í rétt rúmum 190 milljónum króna. Framkvæmdir á árinu hafa gengið vel, nokkrum verkefnum er lokið, mörg verkefni eru enn í gangi og einhver verkefni hefjast seinna á árinu. Í fjárhagsáætlun árins 2025 var gert ráð fyrir að fjárfestingar ársins yrðu 326 milljónir.

5. Skipurit

Fyrir fundinum láu drög að nýju skipuriti Húnabyggðar sem vinna þarf áfram áður en það fer fyrir sveitarstjórn.

6. Reglur um hunda- og kattahald í Húnabyggð

Endanleg útgáfa um reglur um hunda- og kattahald lögð fyrir og samþykkt og staðfestingu reglnanna vísað til sveitarstjórnar.

Byggðarráð vill að gefnu tilefni minna íbúa á að öllum hunda- og kattaeigendum er skillt að skrá dýrin sín og þeir sem ekki hafa gert það eru vinsamlegast beðnir um að gera það nú þegar. Þá minnir byggðarráð eigendur hunda og katta á að öll dýr á hverju heimili þurfa að vera skráð.

7. Drög að samningi við Textílmiðstöðina

Drög að samningi við Textílmiðstöðina lögð fram til kynningar og sveitarstjóra falið að vinna málið áfram.

8. Slit á byggðasamlögum og samstarfsverkefni

Lögð fram til kynningar kostnaðarsamantekt KPMG vegna þeirrar vinnu sem unnin hefur verið í slitum byggðarsamlaga Húnabyggðar og Skagastrandar.

9. Vatnsveita á Skaga

Fyrir fundinum lá kostnaðarsamantekt á nýrri borholu fyrir kalt vatn við Skagabúð á Skaga. Holan mun verða notuð til vatnsveitu á nærliggjandi bæjum. Verkefnið tókst vel og nægt vatns fannst en áður hafði verið borað án mikils árangurs.

10. Samningur um styrk vegna verkefna á sviði almenningssamgangna

Fyrir fundinum lá undirskrifaður samningur Byggðarstofnunar og Húnabyggðar um styrk vegna verkefna á sviði almenningssamgangna. Lagt fram til kynningar.

11. Brú yfir Svínadalsá

Erindi hefur borist frá ábúendum á Rútsstöðum vegna brúarinnar yfir Svíndalsá milli Rútsstaða og Ljótshóla. Ljóst er að sú brú er barn síns tíma og mætir engan vegin nútíma kröfum hvað varðar breidd farartækja sem yfir brúna geta farið. Þetta háir t.d. heyskap á efstu bæjum Svínadals. Byggðarráð tekur undir þetta erindi og leggur áherslu á að Vegagerðin bregðist við málinu og finni ásættanlega lausn sem fyrst. Byggðarráð felur sveitarstjóra að senda þessa bókun á Vegagerðina og ýta á eftir svörum hvað málið varðar.

12. Minningarmót Evu Hrundar

Undirbúningsnefnd minningarmóts Evu Hrundar sem haldið var á Vatnahverfisvelli við Blönduós sunnudaginn 13. júlí vill koma á framfæri þökkum fyrir veitta stuðning vegna mótsins í ár sem tókst mjög vel. Byggðarráð þakkar á móti nefndinni fyrir frábært framtak.

13. Skipulag skógræktar – leiðbeiningar um val á landi til skógræktar

Erindi frá Vinum íslenskrar náttúru lagt fram til kynningar og byggðarráð vísar málinu til umhverfisnefndar.

14. Loftslagsstefna sveitarfélaga á NV

Lagt fram til kynningar og málinu vísað til umhverfisnefndar.

15. Fundargerð 125. fundar stjórnar SSNV

Lagt fram til kynningar.

16. Styrkbeiðni frá Lítil Þúfa fta.

Lagt fram til kynningar og erindinu vísað til fjárhagsáætlunar fyrir árið 2026.

17. Húnavaka 2025

Húnavaka fór fram helgina 17-20. júlí og framkvæmd viðburðarins tókst vel og byggðarráð þakkar bæði starfsmönnum og sjálfboðaliðum sem komu að viðburðinum kærlega fyrir frábæra Húnavöku. Á næsta ári fer Húnavakan fram dagana 16-19. júlí.

Getum við bætt efni þessarar síðu?