Í upphafi fundar óskaði formaður byggðarráðs eftir því að setja eitt aukamál á dagskrá sem er framkvæmdir við Vatnsdalsveg. Það var samþykkt samhljóða.
Dagskrá fundarins
1. Safnamál Húnabyggðar
Katharina Schneider kom inn á fundinn undir þessum lið og fór yfir stöðu safna í Húnabyggð. Flóra og umfang safna er að aukast umtalsvert nú þar sem Húnabyggð hefur tekið yfir rekstur Héraðsskjalasafnsins og Heimilisiðnaðarsafnsins. Ljóst er að vinna þarf töluverða vinnu til að koma safnamálum á betri stað, þannig að hægt sé að ná utan um öll söfnin og þá muni sem þar eru. Hér má t.d. nefna að refilinn mun verða afhentur í lok ágúst og með komu hans verður enn mikilvægara að framtíð safnamála Húnabyggðar verði mörkuð. Katharina mun leiða þennan málaflokk fyrst um sinn á meðan stefnumótunin fer fram og framtíðarsýnin verður skilgreind. Unnin hefur verið töluverð vinna við að greina þá möguleika sem eru í stöðunni og t.d. horft til Dalvíkurbyggðar en þar er búið að vinna mikla vinnu hvað þessi mál varðar. Byggðarráð leggur til við sveitarstjórn að Heimilisiðnaðarsafnið verði skilgreint sem stofnun innan skipulags Húnabyggðar. Að hafa öll safnamál með þessum hætti á einum stað mun tryggja skilvirkan rekstur safnanna. Byggðarráð þakkar Katharinu fyrir góða kynningu og vinnu við að ná utan um safnamálin áður en eiginleg stefnumótunarvinna hefst.
2. Aðgengismál
Fyrir fundinum lá tilboð í lyftulausn í félagsheimilinu og byggðarráð samþykkir samhljóða að farið verði í þessa framkvæmd upp á u.þ.b. 4,5 milljónir og vísar gerð viðauka til sveitarstjórnar.
3. Upplýsingagjöf til foreldra sem ekki tala íslensku
Fyrir fundinum lá erindi frá íbúa varðandi upplýsingagjöf sveitarfélagsins til foreldra sem ekki tala íslensku. Byggðarráð vísar erindinu til fræðslunefndar til frekari umfjöllunar.
4. Leiðbeiningar til sveitarfélaga um samræmingu skipulagsáætlana og leyfisveitinga við lög um stjórn vatnamála
Fyrir fundinum láu upplýsingar Umhverfis- og orkustofnunar til sveitarfélaga um samræmingu skipulagsáætlana og leyfisveitinga við lög um stjórn vatnamála. Lagt fram til kynningar.
5. Fundargerð 82. fundar Samtaka sveitarfélaga á köldum svæðum
Lagt fram til kynningar.
6. Vatnsdalsvegur
Húnabyggð fékk 11.07.2025 upplýsingar frá Vegagerðinni að ákveðið hafi verið að stytta fyrirhugaðar framkvæmdir við Vatnsdalsveg úr u.þ.b. 13km í 9km. Ástæðan var sögð sú að Vegagerðin hafi fengið boð um niðurskurð á þessu verkefni.
Bókun fundar
Framkvæmdir við Vatnsdalsveg
Upplýsingar sem sendar voru sveitarfélaginu 11.07.2025 frá Vegagerðinni staðfesta að ákveðið hefur verið að stytta fyrirhugaðar framkvæmdir við Vatnsdalsveg sem upphaflega var áætlaður u.þ.b. 15km, seinna 13km en nú 9km. Ástæða þess sé sú að Vegagerðin hafi fengið boð um þennan niðurskurð. Á fundi byggðarráðs 02.07.2025 voru bókuð mótmæli vegna þess að búið væri að fresta framkvæmdum við Skagaveg þvert á gefi loforð. Í þeirri bókun lýsti byggðarráð áhyggjum sínum yfir því að mögulega myndu fyrirhugaðar framkvæmdir við Vatnsdalsveg einnig verða fyrir neikvæðum áhrifum sem nú er að raungerast.
Byggðarráð mótmælir harðlega þessum aðgerðum Vegagerðarinnar og yfirvalda og lýsir furðu sinni á því að þrátt fyrir að aukin framlög, þrír milljarðar, hafi verið sett í samgöngumál á landsbyggðinni sé fjármagn í vegaframkvæmdir í landshluta sem rekur lestina í samgöngumálum landsins minnkað og/eða framkvæmdum frestað þvert á gefin loforð. Sé það raunin að aukin framlög til vegaframkvæmda á landsbyggðinni séu fjármögnuð með því að taka það fjármagn af löngu ákveðnum framkvæmdum á landsbyggðinnin er ekki um aukið fjármagn út á landsbyggðina að ræða. Byggðarráð fer fram á að Vegagerðin og ráðherra svari Húnabyggð og gefi upp ástæður þessara ákvarðanna.
Í lok fundar lagði Jón Gíslason fram eftirfarandi bókun:
Óska hér með eftir að skipan byggðarráðs sé skráð á heimasíðu samkvæmt núverandi skipan byggðarráðs. Jafnframt verði byggðarráðsfundir auglýstir framvegis samkævmt 29. grein samþykkta Húnabyggðar eða með tveggja sólarhringa fyrirvara.