111. fundur 09. júlí 2025 kl. 15:00 - 16:06
Nefndarmenn
  • Auðunn Steinn Sigurðsson formaður
  • Ragnhildur Haraldsdóttir aðalmaður
  • Jón Gíslason aðalmaður
Starfsmenn
  • Pétur Arason sveitarstjóri
Fundargerð ritaði: Pétur Arason sveitarstjóri

Formaður byggðarráðs lagði fram breytingartillögu í upphafi fundar um að fella niður lið 2 um umferðaröryggisáætlun Húnabyggðar sem byggðarráð samþykkti samhljóða.

Dagskrá fundarins

1. Framkvæmdir við nýtt ráðhús

Skipulags- og byggingarfulltrúi kom inn á fundinn undir þessum lið og fór yfir stöðu verkefnisins. Framkvæmdir hafa gengið vel, en hafa verið meiri en áætlað var í fyrstu. Sérstaklega hefur ástand eldra hússins kallað á meiri aðgerðir en reiknað var með. Tafir á afhendingu ýmiskonar hluta frá birgjum hafa tafið verkefnið og nú er tímí sumarfría þannig að reiknað er með að húsnæðið verði tekið í notkun á haustmánuðum. Ljóst er að til að koma starfsmönnum félags- og skólaþjónustunnar einnig inn í nýtt húsnæði þarf að auka fjárheimilidir verkefnisins og því er sótt um auka 30 milljónir til að geta klárað þennan hluta verkefnsins. Byggðarráð samþykkir samhljóða auknar fjárheimildir og vísar gerð viðauka til sveitarstjórnar.

2. Umboð á aðalfund Ámundakinnar

Byggðarráð veitir Guðmundi Hauki Jakobssyni umboð til að fara með atkvæði sveitarfélagsins á aðalfundi Ámundakinnar sem fram fer föstudaginn 11. júlí 2025. Byggðarráð felur sveitarstjóra að útbúa umboðið fyrir hönd Húnabyggðar.

3. Erindi frá íbúum á Smárabraut

Fyrir fundinum lá erindi frá íbúum við Smárabraut vegna lagningu gangstétta. Þetta verkefni var ekki inn á fjárhagsáætlun 2025 en málinu vísað til gerðar fjárhagsáætlunar fyrir árið 2026.

4. Drög að samningi við skólasálfræðing

Fyrir fundinum láu drög að nýjum samningi við skólasálfræðing frá félags- og skólaþjónustunni. Byggðarráð felur félagsmála- og fræðslustjóra að klára samninginn við skólasálfræðinginn.

5. Uppfærsla á fjármála- og bókhaldskerfi Húnabyggðar

Samningar við Wise vegna uppfærslu Navision fjármála- og bókhaldskerfis lagðir fram til kynningar. Áætlað er að fara í uppfærslu snemma árs 2026.

6. Tímabundið tjaldsvæði á Jobbatúni

Vegna Húnavöku er ákveðið að setja upp tímabundið tjaldsvæði á túninu milli blokkarinnar og Jobbahlöðu til að auka pláss fyrir gesti Húnavöku. Umsjónarmanni Húnavöku falið að upplýsa hagsmunaaðila um þessa tímabundnu ráðstöfun.

7. Blönduósflugvöllur

Fyrir fundinum lá upplýsingagjöf Isavia um stöðu framkvæmda við Blönduósvöll en oddviti sveitarstjórnar, Guðmundur Haukur Jakobsson, hafði farið fram á upplýsingar um málið sem sjá má hér að neðan:

 

Vettvangsskoðun á Blönduósflugvelli þann 12. júní 2025 leiddi þetta í ljós:

Tilgangur skoðunar var að meta ástand flugbrautar og flughlaðs eftir veturinn. Síðsumars 2024 var efsti hluti burðarlags flugbrautar og flughlaðs jarðvegsskipt, ófrostþolið efni var fjarlægt og frostþolið efni sett í staðin, síðan var sett eitt lag af klæðingu yfir.

Flugbraut. Hæðarlega virðist vera óbreytt eftir veturinn og því ekki lengur um frostlyftingu í jarðvegi að ræða. Klæðing lítur vel út en þó eru tvær skemmdir sem þarf að laga áður en seinna lagið er sett á. Verktaki þarf því að skera skemmdirnar frá og klæða í sárin og þjappa vandlega. Að því loknu skal seinna lagið sett yfir alla flugbrautina skv. verklýsingu.

Flughlað. Hæðarlega virðist vera óbreytt efir veturinn. Klæðing lítur ekki vel út þar sem hjólför sjást víða. Við skoðun kom í ljós að asfalt er enn mjúkt og ekki að fullu storknað. Ástæða þessa er sennilega sú að klæðingin hefur ekki verið nægilega þjöppuð síðasta haust og einnig að tjara sem nú er notuð virðist storkna seinna en var hér áður. Til að lagfæra flughlaðið þarf því að þjappa það að nýju með þungum stáltromlu valtara og einnig hjólavaltara þar til yfirborðið er að fullu stétt. Síðan þarf að skera stakar skemmdir frá og klæða í sárin og þjappa vandlega. Að þessu loknu skal seinna lagið sett yfir allt flughlaðið sbr. verklýsingu.

Verktakinn er í dag að valta flughlaðið og farið verður í yfirlögnina núna á allra næstu dögum/vikum.

Byggðarráð felur sveitarstjóra að fylgja málinu eftir og bindur vonir við að verkefninu miði vel áfram og ljúki í sumar.

 

8. Þátttaka Húnabyggðar í Pride viku

Fyrir fundinum lá erindi frá íbúa varðandi þátttöku Húnabyggðar í Pride viku. Byggðarráð vísar erindinu til atvinnu- og menningarnefndar.

9. Forsendur fjárhagsáætlana sveitarfélaga 2026 – 2029

Lagt fram til kynningar.

10. Framkvæmdaráð um barnavernd á Mið-Norðurlandi

Fundargerð 5. fundar framkvæmdaráðsins lög fram til kynningar.

11. Framkvæmdaráð um málefni fatlaðs fólks á Norðurlandi vestra

Fundargerð 8. fundar framkvæmdaráðsins lög fram til kynningar.

12. Ársreikningur byggðarsamlags um félags- og skólaþjónustu

Lagt fram til kynningar.

Getum við bætt efni þessarar síðu?