Dagskrá fundarins
- Skólaakstur
Magnús Sigurjónsson kom inn á fundinn og kynnti ný drög að leiðum skólaaksturs fyrir komandi skólaár. Drögin rædd og Magnúsi falið að vinna málið áfram.
2. Fjármál Húnabyggðar
Sigurður Erlingsson og Sigmar Njálsson komu inn á fundinn og kynntu afkomu sveitarfélagsins á fyrstu fimm mánuðum ársins. Tölurnar sýna að rekstur sveitarfélagsins er í jafnvægi miðað við áætlanir, tekjur hafa aukist á tímabilinu miðað við síðasta ár um 12,2% en gjöld um 11,9%.
3. Félagsþjónusta Húnabyggðar
Tekið fyrir erindi frá félagsþjónustunni vegna verkefna fyrir ungmenni og byggðarráð tekur jákvætt í erindið og felur félagsmálastjóra að vinna málið áfram.
- Framkvæmdir Húnabyggðar
Farið var yfir verksamninga vegna Holtabrautar, en þar er hafin jarðvinna, fyrirhugað er að tengja Holtabraut við Ennisbraut.
- Fundargerð fjallskilanefndar
Byggðarráð samþykkir þær framkvæmdir sem skilgreindar eru í fundargerðinni og snúa að styrkvegaframkvæmdum og viðgerðum/endurbótum í gangnamannaskálum.
6. Framkvæmdir við Skagaveg
Heimastjórn fyrrum Skagabyggðar hefur þegar sent frá sér athugasemdir til yfirvalda og Húnabyggð hélt fund með Vegagerðinni 27. júní þar sem farið var yfir málið. Byggðarráð gerir alvarlegar athugasemdir við upplýsingagjöf Vegagerðarinnar sem tilkynnti ekki Húnabyggð formlega um þá ákvörðun að fresta ætti framkvæmdum við Skagaveg þegar sú ákvörðun var tekin. Sú upplýsingagjöf kom ekki formlega fyrr en um tveimur mánuðum eftir að ákvörðunin var tekin. Þá hefur Vegagerðin ekki sett fram neinar trúverðugar ástæður fyrir þessum töfum aðrar en þær að þetta sé vegna athugasemda Húnabyggðar og landeigenda um legu vegarins á kafla við Stórhól á milli Hofs og Örlygsstaða á Skaga. Það er rétt að lagt var til við Vegagerðina að skoðað yrði að breyta vegstæðinu til að auka öryggi vegfarenda og koma í veg fyrir ófærð á vetrum. Það er vægast sagt langsótt að kenna þessari fyrirspurn um að verkefninu sé frestað, enda gefur Vegagerðin í skyn að ekki sé til fjármagn í þessa framkvæmd. Það er að mati Húnabyggðar ljóst að forgangsröðun verkefna hefur verið breytt og að þessu verkefni hefur verið frestað vegna þess. Það var samið sérstaklega um lagningu Skagavegar við sameiningu Skagabyggðar og Húnabyggðar með aðkomu ráðherra, ráðuneytis, ráðuneytisstjóra og forstjóra Vegagerðarinnar á síðasta ári og því er þessi ákvörðunartaka furðuleg og í raun aðför að hagsmunum íbúa okkar sveitarfélags. Í núgildandi samgönguáætlun eru tvö verkefni skilgreind þ.e. framkvæmdir við Vatnsdalsveg og Svínvetningabraut, það eru því ekki rök í málinu að ekki sé til fjármagn því umfram áðurgreint samkomulag vegna sameiningarinnar eru tvö verkefni fjármögnuð á svæðinu í núgildandi samgönguáætlun.
Það er sérstakt að á svæði þar sem samgöngumál hafa verið svelt skuli ákveðið að fresta nauðsynlegum verkefnum þrátt fyrir að ráðherra gefi út að settir hafi verið auknir fjármunir í vegaframkvæmdir á landsbyggðinni. Ráðherra tilkynnti nýlega að settir hefðu verið þrír milljarðar að auki í vegaframkvæmdir á landsbyggðinni. Hvernig geta þá fjármunir sem þegar voru til staðar verið fluttir annað? Hér fer ekki saman hljóð og mynd eins og sagt er og óásættanlegt að þetta skuli bitna á svæði sem nú þegar rekur lestina þegar kemur að uppbyggingu í samgöngumálum.
Húnabyggð hefur einnig af því áhyggjur að fyrirhuguðum framkvæmdum í Vatnsdal muni seinka og að ekki verði byrjað á þeim framkvæmdum á þessu ári.
Þessum vinnubrögðum Vegagerðarinnar og yfirvalda mótmælir byggðarráð harðlega og felur sveitarstjóra að koma sjónarmiðum Húnabyggðar á framfæri við Vegaðgerðina, ráðuneyti og ráðherra.
7. Erindi frá USAH
Fyrir fundinum lá erindi frá USAH sem er að skipuleggja Íþróttadag þar sem kynna á hinar ýmsu íþróttir fyrir einstaklingum með fatlanir og af erlendum uppruna. Erindið snýr að leyfi til að nota íþróttahúsið 26. september fyrir þennan viðburð og tekur byggðarráð jákvætt í erindið.
8. Erindi vegna Dansskóla Norðurlands vestra
Byggðaráð samþykkir að vera með í styrkumsókn þessa verkefnis með fyrirvara um að málið hefur ekki fengið neina umfjöllun í viðeigandi nefndum Húnabyggðar. Möguleg fjármögnun að hálfu Húnabyggðar er einnig með fyrirvara og ákvörðunartöku þar um vísað til gerðar fjárhagsáætlunar fyrir árið 2026.
9. Styrkbeiðni frá 3. flokki Hvatar/Fram
Byggðarráð hafnar beiðni um styrk þar sem sveitarfélagið er þegar með styrktarsamning við Hvöt sem nær yfir allt starf yngri flokka.
10. Erindi frá íbúa vegna ágangs fjár
Landeigandi að Auðkúlu 1 hefur sent inn erindi vegna ágang fjárs. Byggðarráð felur sveitarstjóra í samráði við stjórn fjallskiladeildar Auðkúluheiðar að leitast til við að leysa málið sem fyrst.
11. Kvennaskólinn
Fyrir fundinum lágu tvö tilboð vegna framkvæmda við norðugafl kvennaskólans. Byggðarráð samþykkir að taka lægra tilboðinu og vísar gerð viðauka vegna verkefnisins til sveitarstjórnar.
12. Umsögn um áform um endurskoðun laga um tekjustofna sveitarfélaga (skattlagning orkumannvirkja)
Lagt fram til kynningar.
13. Brottfall barna og ungmenna úr íþróttum
Lagt fram til kynningar og byggðarráð tekur jákvætt í að Húnabyggð taki þátt í verkefninu.
14. Augu á ferð - fræðsla fyrir skólabílstjóra um vernd barna í dreifbýli
Lagt fram til kynningar og byggðarráð tekur jákvætt í að Húnabyggð taki þátt í verkefninu.
15. Hveravallafélagið - sölumeðferð eignarhlutar
Lagt fram til kynningar.
16. Ársreikningur Vilko 2024
Ársreikningur Vilko lagður fram til kynningar og sveitarstjóra falið að kanna áhuga aðila á því að kaupa eignarhlut sveitarfélagsins í Vilko.
17. Fundargerð 124. fundar stjórnar SSNV
Lagt fram til kynningar.
- Fundargerð ársfundur Brákar íbúðafélags
Lagt fram til kynningar.
19. Byggingarreglugerð – HMS
Lagt fram til kynningar.
20. Fundargerðir 981. og 982. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga
Lagt fram til kynningar.
21. Fundargerð 37. fundar fagráðs um málefni fatlaðs fólks
Lagt fram til kynningar.
22. Samtök um áhrif umhverfis á heilsu
Lagt fram til kynningar.