Landsmót Samfés á Blönduósi
Um næstu helgi, dagana 3.–5. október 2025 verður Landsmót Samfés haldið á Blönduósi. Um 360 ungmenni og 80 starfsmenn frá 80 félagsmiðstöðvum af öllu landinu leggja leið sína á Blönduós. Mikil eftirvænting ríkir, enda er þetta í 35. sinn sem mótið er haldið, en það var haldið í fyrsta sinn á Blönduósi árið 1990 og eru því komin 35 ár síðan Landsmótið var haldið á Blönduósi.
Á mótinu verður líf og fjör í bænum þegar ungmenni hittast til skemmtunar, náms og lýðræðislegrar þátttöku.
Dagskrá Landsmótsins er skipt í þrjá meginþætti:
- Smiðjur: Alls verða um 20 smiðjur haldnar á Blönduósi og Skagaströnd. Þar fá þátttakendur að fræðast, skapa og deila hugmyndum sem þau taka með sér heim í sínar félagsmiðstöðvar.
- Félagslíf: Lögð er áhersla á að ungmennin kynnist nýju fólki, styrki vináttutengsl og hafi gaman saman.
- Landsþing ungs fólks: Lokadagur mótsins er tileinkaður lýðræðislegri umræðu. Ungmennaráð Samfés sér um undirbúning þingsins þar sem þátttakendur ræða málefni sem skipta þau máli og samþykkja ályktanir sem sendar verða áfram til ráðuneyta, sveitarfélaga, fjölmiðla og aðildarfélaga Samfés.
Á Landsmótinu fer einnig fram lýðræðisleg kosning í Ungmennaráð Samfés, sem er málsvari ungs fólks innan samtakanna. Kosið er í öllum 9 kjördæmum landsins, tveir fulltrúar úr hverju kjördæmi. Þeir sitja annaðhvort til eins árs eða tveggja, þannig að ráðið er skipað alls 27 fulltrúum á aldrinum 13–16 ára.
Ungmennaráð gegnir lykilhlutverki í því að miðla niðurstöðum Landsþings og tryggja að raddir ungs fólks heyrist í samfélaginu.
Þegar svona margir unglingar koma saman skapast sérstök stemning. Það verður því líf og fjör á Blönduósi og Skagaströnd um helgina. Tökum vel á móti öllum sem sækja Landsmót Samfés um helgina!