Dagskrá
- Samþykktir Húnabyggðar
Lagðar fram breytingar á samþykktum Húnabyggðar vegna slita byggðarsamlaga um tónlistarskóla, atvinnu- og menningarmál og félags- og skólaþjónustu.
Bókun fundar sveitarstjórnar
Sveitarstjórn staðfestir í annari umræðu áorðnar breytingar á samþykktum Húnabyggðar vegna slita byggðarsamlaga um tónlistarskóla, atvinnu- og menningarmál og skóla- og félagsþjónustu.
- Byggðarráð Húnabyggðar 114. fundur
Fundargerð 114. fundar Byggðarráðs Húnabyggðar lögð fram til staðfestingar á 58. fundi sveitarstjórnar eins og einstök erindi bera með sér. Liður 6 þarfnast sérstakrar afgreiðslu. Að loknum umræðum um fundargerðina var hún borin upp og staðfest af sveitarstjórn með níu atkvæðum samhljóða.
- Tónlistarskólinn
Lagt fram til kynningar umsókn til ráðuneytisins vegna óskar um að breyta tónlistarskólanum formlega í byggðarsamlag þannig að hægt sé að slíta byggðarsamlagi um tónlistarskóla formlega. Við slit byggðarsamlaganna kom í ljós að tónlistarskólinn var aldrei formlega byggðarsamlag.
- Húsnæðismál
Ákveðið að fara í framkvæmdir við tvær íbúðir í Hnitbjörgum, en framkvæmdir geta ekki hafist fyrr en sumarfríum er lokið. Stefnt er að því að hafa þær tilbúnar sem fyrst, en áður en framkvæmdir hefjast þarf að liggja fyrir kostnaðaráætlun sem samþykkja þarf formlega í byggðarráði. Byggðarráð felur sveitarstjóra að láta útbúa kostnaðaráætlun fyrir verkefnin.
Byggðaráð felur sveitarstjóra að kanna tryggingamál íbúðar í blokkinni sem skemmdist í byrjun árs, þannig að hægt sé að ákveða framhald þess máls.
Jón Gíslason bar eftirfaradi tillögu fram:
Byggðaráð samþykkir að fela sveitarstjóra að láta klæða Dalsmynni eins og ákveðið var í fjárhagsáætlun sveitarfélagsins fyrir árið 2025.
Byggðarráð fellir tillöguna með tveimur atkvæðum gegn einu (JG).
Auðunn Steinn Sigurðsson bar upp eftirfarandi tillögu:
Byggðarráð vísar ákvörðun um klæðningu Dalsmynnis til gerðar fjárhagsáætlunar fyrir árið 2026.
Tillagan var samþykkt með tveimur atkvæðum gegn einu (JG).
Bókað undir þessum lið
Í tengslum við umræðu um tillögu Byggðaráðs um breytingar á fjárfestingaáætlun sem samþykkt var í fjárhagsáætlunargerð sveitarfélagsins fyrir árið 2025, óskaði EA eftir að varpað yrði upp á fundinum þeirri fjárfestingaáætlun sem samþykkt var í lok síðasta árs. Jafnframt yrði gert stuttlega grein fyrir stöðu helstu verkefna áætlunarinnar. Niðurstaða fundarins var sú að ekki væri unnt að verða við þessari ósk EA, á fundinum.
EA og JG leggja í þessu samhengi fram eftirfarandi bókun:
Ljóst er að ítrekað hafa verið gerðar breytingar á fjárfestingaáætlun sveitarfélagsins fyrir árið 2025 og svo virðist sem samþykkt áætlun sé ekki nema að takmörkuðu leyti leiðarljós við ákvarðanatöku um framkvæmdir og fjárfestingar. Það samræmist ekki eðlilegri stjórnsýslu að byggðaráð leggi ítrekað til breytingar á fjárfestingaáætlun sveitarfélagsins, án rökstuðnings eða upplýsingamiðlunar þar um til sveitarstjórnar. Þetta gengur gegn grundvallarreglum um gagnsæi og málefnalega afgreiðslu. Það er eðlileg krafa sveitarstjórnarfólks að framkvæmdastjórn sveitarfélagsins fari eftir þeim ákvörðunum sem teknar eru af sveitarstjórn, enda fer sveitarstjórn með æðsta ákvörðunarvald m.a. um ráðstöfun eigna og um framkvæmd verkefna.
JG setur fram eftir farandi tillögu:
Sveitarstjórn samþykkir að fela sveitarstjóra að láta klæða Dalsmynni eins og ákveðið var í fjárhagsáætlun sveitarfélagsins fyrir árið 2025.
Tillagan felld með sex atvæðum (ZAL, GRL, GHJ, RA, SB, ASS) gegn þremur (EA, JG, MÞ).
GHJ lagði fram bókun meirihluta:
Meirihlutinn hafnar því alfarið að búið sé að gera breytingar á fjárfestingaáætlun sveitarfélagsins án rökstuðning eða upplýsingamiðlunar og vill árétta að Byggðaráð er framkvæmdastjórn sveitarfélagsins og minnihlutinn er með aðalmann í byggðaráði. Það er eðlilegt að hann kalli eftir gögnum þar ef honum finnst uppá vanta og upplýsi minnihluta í tíma fyrir fundi sveitarstjórnar.
Athygli er vakin á því að í útsendum gögnum er hvergi minnst sérstaklega á að fara eigi í framkvæmd við Dalsmynni. Einungis voru 5 milljónir króna í fjárfestingaáætlun fyrir öll Félagsheimili sveitarfélagsins árið 2025 og má þá vera ljóst að ekki væri unnt að fara í klæðningu.
JG lagði fram eftirfarandi bókun:
Klæðning á félagsheimilið Dalsmynni var keypt af Húnavatnshreppi fyrir sameiningu við Blönduósbæ og var á fjárfestingaáætlun Húnavatnshrepps sameiningarárið 2022. Sameiningunni fylgdi mjög hagstæður samningur við verktaka um klæðningu hússins sem lagður var til grundvallar fjárfestingaáætlun Húnavatnshrepps. Þrátt fyrir að ég sem fyrrverandi oddviti Húnavatnshrepps hafi reynt að fá þetta verk unnið af sveitarstjórn Húnabyggðar þar sem ég hef talið að það væri hluti af samkomulagi um sameiningu sveitarfélaganna ,hefur meirihluti sveitarstjórnar Húnabyggðar komið í veg fyrir að þetta verk sé klárað.
RH óskaði eftir fundarhléi klukkan 15:40.
Fundur hófst aftur 16:10.
- Umsókn Húnabyggðar vegna hafnargerðar og sjóvarna á samgönguáætlun 2026-2030
Lagt fram til kynningar
- Húsaleigubætur Húnabyggðar
Uppfæra þarf reglur Húnabyggðar um sérstakar húsnæðisbætur og byggðarráð felur sveitarstjóra að láta uppfæra reglurnar og leggja fyrir byggðarráð.
- Girðingamál Húnabyggðar
Erindi hefur borist frá eigendum Blöndubakka um að merkjagirðing milli Ennis og Blöndubakka frá Þverárfjallsvegi að Hólmavatni verði löguð á árinu 2026. Byggðarráð samþykkir að laga merkjagirðinguna milli Ennis og Blöndubakka frá Þverárfjallsvegi að Hólmavatni með því skilyrði að girðingin verði fjárheld og gerð samkvæmt núgildandi viðmiðum. Byggðaráð vísar málinu til umfjöllunar í fjárhagsáætlunargerð fyrir árið 2026.
Erindi hefur borist frá eigendum Áss í Vatnsdal um að merkjagirðing Áss við land Þingeyra sem leigt er af Húnabyggð verði löguð. Þessi girðng hefur nú þegar verið löguð á um 300m kafla og ætlunin er að klára það verkefni í þessum áfanga. Byggðarráð samþykkir að verkefnið verði klárað á þessu ári.
- Skipurit Húnabyggðar
Byggðarráð samþykkir samhljóða uppfært skipurit og vísar því til samþykktar sveitarstjórnar.
Bókun fundar sveitarstjórnar
Sveitarstjórn samþykkir samhljóða nýtt skipurit Húnabyggðar.
- Svínvetningabraut
Farið var yfir ástand Svínvetningabrautar sem er mjög slæmt á kaflanum frá Stóra Búrfelli að veginum fram í Blöndudal að vestan verðu. Nokkrir aðilar hafa kvartað undan skemmdum bíla og ástand vegarins er engan vegin ásættannlegt. Á síðustu dögum hóf Vegagerðin framkvæmdir við veginn og búið er að hefla frá bundna slitlaginu norðan við Grænuhlíð og fram að Sólheimum. Ekkert efni hefur þó verið borið í veginn og því einsýnt að þessar aðgerðir verða skammvinnar. Byggðarráð bendir á að óeðlilegt er hversu seint þessar framkvæmdir fara af stað, en nú fer að líða að sumarlokum og framkvæmdir fyrst að hefjast núna.
Byggðarráð beinir því til Vegagerðarinnar að séð verði til þess að almennar og árlegar vegabætur verði gerðar á Svínvetningabraut tímanlega þannig að fólk geti ferðast um svæðið án þess að bílar skemmist o.s.frv. Þá minnir byggðarráð á að Svínvetningabraut er ein af lífæðum samfélagsins sem íbúar nota til að komast til vinnu, börn í skóla o.s.frv. og Svínvetningabraut er einnig varaleið fyrir þjóðveg 1. Einnig er rétt að ítreka að 6km kafli Svínvetningabrautar er inn á núgildandi samgönguáætlun þar sem setja á bundið slitlag á þessa 6km. Ekkert hefur orðið af því þrátt fyrir að búið væri að tala við landeigendur og gera nauðsynlegar rannsóknir o.s.frv. vegna undirbúnings verkefnisins.
Erindi hefur verið sent á Vegagerðina vegna ástands Svínvetningabrautar, veginum yfir Orrastaðaflóann og veginum vestan megin í Svíndadal. Allir þessir vegir þurfa viðhald sem ekki hefur verið sinnt. Svör Vegagerðarinnar til sveitarfélagsins eru á þá leið að verið sé að hefla Svínvetninngabraut, vegakaflar vestan Svínavatns verði skoðaðir en ekki verði farið í veginn yfir Orrastaðaflóa. Þá segir í svörum Vegagerðarinnar að ástæða þess að ekki sé verið að bera efni í veginn sé sú að Vegagerðin fái ekki unnið malarslitlagsefni. Engar sérstakar ástæður voru skilgreindar af hverju ekki. Að lokum segir Vegagerðin í svörum sínum að kaflinn frá Svartárbrúnni að Blöndubrú í Blöndudal hafi verið til vandræða frá byrjun eða frá 2017-2018. Nú sé verð að skoða þetta eins og tvö síðustu ár, en ekkert liggi fyrir hvað gert verði.
Þau svör sem fólk hefur fengið sem hefur kvartað hefur vegna skemmda á bifreiðum sínum er að Vegagerðin hafi ekki náð samningum um efnistöku á svæðinu. Það eru ekki sannfærandi rök þar sem Vegagerðin er með aðgengi að námum um land allt og því öllum hnútum kunnug um samninga við landeigendur hvað þetta varðar.
Þá vill byggðarráð að lokum ítreka að vegkaflinn frá þjóðvegi 1 við Svartárbrú að Blöndubrú í Blöndudal og að gatnamótum við Kjalveg er stórhættulegur og engar vegabætur hafa verið gerðar þar þrátt fyrir loforð um það á síðustu árum. Vegagerðin verður að sjá til þess að fólk geti ferðast á vegum án þess að vera í bráðri hættu ef mæta þarf bílum, en það er staðan á þessum vegkafla.
Byggðarráð felur sveitarstjóra að koma þessum skilaboðum á framfæri við innviðaráðherra og Vegagerðina.
- Atvinnu- og menningarnefnd 22. fundur
Fundargerð 22. fundar atvinnu- og menningarnefndar lögð fram til staðfestingar á 58. fundi sveitarstjórnar eins og einstök erindi bera með sér. Að loknum umræðum um fundargerðina var hún borin upp og staðfest af sveitarstjórn með níu atkvæðum samhljóða.
- Vatnsdælan 2025
Jóhanna Pálmadóttir kom inn á fundinn undir þessum lið og farið var yfir skipulag Vatnsdælu 2025 sem samanstendur af sýningu Vatnsdælurefilsins og formlegrar opnunar Þrístapa.
Verið er að útbúa standa fyrir refilinn til að hægt sé að sýna hann á viðeigandi hátt. Verið er að leggja lokahönd á dagskrána í íþróttahúsinu vegna sýningar refilsins og flest atriði ákveðin. Formleg dagskrá byrjar klukkan 17:00.
Jóhanna lagði fram drög að samningi um varðveislu refilsins sem samþykkja þarf formlega.
Ákveðið að halda formlega opnun Þrístapa sama dag og verið er að vinna að því að formgera dagskrá í kringum þá athöfn.
- Byggðarráð Húnabyggðar 115. fundur
Fundargerð 115. fundar Byggðarráðs Húnabyggðar lögð fram til staðfestingar á 58. fundi sveitarstjórnar eins og einstök erindi bera með sér. Að loknum umræðum um fundargerðina var hún borin upp og staðfest af sveitarstjórn með níu atkvæðum samhljóða.
Dagskrá fundarins
- Samningur um afhendingu Vatnsdælurefils
Fyrir fundinum lá samningur milli sveitarfélagsins og Jóhönnu Pálmadóttur, Helgu Gunnarsdóttur og Pálma Gunnarssonar um varðveislu og meðhöndlun Vatnsdælurefilsins. Byggðarráð samþykkir samninginn og vísar honum til endanlegrar staðfestingar sveitarstjórnar.
Byggðarráð vill nota tækifærið og þakka Jóhönnu Pálmadóttur kærlega fyrir hennar óeigingjörnu og einstöku frumkvöðlavinnu við gerð Vatnsdælurefilsins sem er sannarlega einstök og mikið afrek á heimsvísu. Það er ósk byggðarráðs að það náist sem fyrst að finna reflinum varanlegt sýningarrými þar sem gestir geta notið þessa einstaka handverks sem er mikilvægur vitnisburður um sögulega- og menningarlega arfleið okkar svæðis.
Að lokum vill byggðarráð beina því til allra íbúa að nota tækifærið og skoða refilinn sem sýndur verður almenningi dagana 29-30. ágúst.
Bókun fundar sveitarstjórnar
Sveitarstjórn tekur undir bókun byggðarráðs vegna þessa stórvirkis sem Jóhanna Pálmadóttir og fjölskylda hennar hefur staðið að og fært samfélaginu. Þá vill sveitarstjórn koma á framfæri þökkum til Jóhönnu Pálmadóttur fyrir vel heppnaðan viðburð vegna formlegrar afhendingar refilsins sem tókst einstaklega vel. Þá þakkar sveitarstjórn einnig öllum þeim sem komu að skipulagningu og framkvæmd viðburðarins.
- Húsnæðismál
Byggðarráð felur sveitarstjóra að fá verðmat á íbúð F2136675 010102 að Hnjúkabyggð 27 í eigu sveitarfélagsins. Byggðarráð felur sveitarstjóra í framhaldi af því að setja eignina á sölu.
- Hraðhleðslustöð við Íþróttamiðstöð
Fyrir fundinum lá umsókn Instavolt um að setja upp hleðsluinnviði á fjórum bílastæðum á bílastæðaplaninu við Íþróttamiðstöðina og grunnskólann. Byggðarráð samþykkir umsóknina en með þessu verður um 10% bílastæðanna þar með rafhleðsluinnviðum og sett verður upp hleðslustæði fyrir fólk með fötlun.
Bókun fundar sveitarstjórnar
Sveitarstjórn samþykkir bókun byggðarráðs með sex atkvæðum (ASS, EA, RA, JG, MÞ, SB), tveir sitja hjá (GHJ, ZAL) og einn er á móti (GRL).
- Framkvæmdir í gamla bænum
Byggðarráð ákveður að farið verði í að skipta um yfirborðsefni á um 400m2 kafla á gatnakerfi gamla bæjarins, sem fyrsta skref þess að færa yfirborð gatna í gamla bænum í nýtt horf. Byggðarráð felur sveitarstjóra að láta skoða hvernig ástand lagnakerfa í eigu bæjarins eru á svæðinu og að farið verði í nauðsynlegt viðhald þar sem gatnaframkvæmdir verða.
- Samningur um skólaakstur
Fyrir fundinum láu drög að nýjum samningi um skólaakstursleið þar sem nota þarf sérútbúna bifreið fyrir fólk með fötlun. Byggðarráð samþykkir samninginn samhljóða og felur sveitarstjóra að ganga frá undirskrift samningsins.
- Þrístapar – formleg opnun og inngangsskilti
Fyrir fundinum lá hugmynd að uppfærslu skilta við innganginn við Þrístapa. Byggðarráð samþykkir verkefnið og felur sveitarstjóra að láta setja þau upp sem fyrst.
Byggðarráð vill nota tækifærið og hvetja íbúa til að mæta á formlega opnun Þrístapa sem haldin verður föstudaginn 29. ágúst klukkan 14:00.
Bókun fundar
Sveitarstjórn vill lýsa ánægju sinni yfir því að nú sé búið að opna formlega Þrístapa sem ferðamannastað. Verkefnið er mjög vel heppnað og hefur þegar hlotið umhverfisverðlaun Ferðmálastofu. Athöfnin heppnaðist vel og nokkur fjöldi fólks og góðra gesta átti góða stund og athöfnin endaði á aftökustaðnum þar sem enginn mátti undan líta forðum þegar aftakan fór fram.
- Mótun samskiptastefnu fyrir Norðurland vestra
SSNV og sveitarfélögin í landshlutanum standa fyrir íbúafundum þar sem íbúar fá tækifæri til að hafa áhrif á mótun samskiptastefnu fyrir svæðið. Markmiðið er að finna sameiginlegar leiðir að jákvæðum, uppbyggilegum samskiptum og skapa samstöðu og samkennd íbúa Norðurlands vestra.
Haldinn verður fundur í Húnabyggð 27. ágúst í Félagsheimili Blönduóss frá klukkan 16:30-18:00. Byggðarráð hvetur alla íbúa til að taka þátt.
- Áherslur í ávarpi á fundi með innviðaráðherra
Farið var yfir þær áherslur sem sendar verða SSNV vegna fundarins og byggðarráð vill nota tækifærið og minna á opinn fund innviðaráðherra um samgöngumál sem haldinn verður Í Krúttinu á Blönduósi 25. ágúst frá klukkan 16:30-18:00.
- Húsaleigusamningur við Rarik
Fyrir fundinum lá samningur við Rarik um að hýsa dreifnám FNV næsta skólár og byggðarráð samþykkir samninginn samhljóða.
- Heimilisiðnaðarsafnið
Lagt fram til kynningar fundargerð síðasta stjórnarfundar Heimilisiðnaðarsafnsins og ársreikningur og ársskýrsla Heimilisiðnaðarsafnsins fyrir árið 2024.
- Stekkjarvík - urðunartölur
Lagt fram til kynningar.
- Fundargerð 126. fundar stjórnar SSNV
Lagt fram til kynningar.
- Skipulags- og samgöngunefnd Húnabyggðar 44. fundur
Fundargerð 44. fundar skipulags- og samgöngunefndar Húnabyggðar lögð fram til staðfestingar á 58. fundi sveitarstjórnar eins og einstök erindi bera með sér. Liðir 2 og 3 þarfnast sérstakrar afgreiðslu. Að loknum umræðum um fundargerðina var hún borin upp og staðfest af sveitarstjórn með níu atkvæðum samhljóða.
SÞS boðaði forföll og í hans stað mætti MÞ
1.Aðalskipulag sameinaðara þriggja sveitarfélaga
Áframhaldandi vinna við nýtt aðalskipulag Húnabyggðar. Farið var yfir samgöngur og veitur í nýju aðalskipulagi.
Atli Steinn Sveinbjörnsson og Karítas Ísberg Ævarsdóttir frá Landslag sátu fundinn undir þessum lið.
2.Tillaga að breytingu á aðalskipulagi Blönduósbæjar 2010-2030
Tekin fyrir tillaga að breytingu á aðalskipulagi Blönduósbæjar 2010-2030. Breytingin gengur út að reitur fyrir núverandi íbúðarbyggð við Sunnubraut er stækkaður til þess að koma fyrir lóðum við Sunnubraut. Innan svæðisins verður hægt að koma fyrir allt að 10 íbúðum. Opið svæði O1 minnkar samhliða stækkun íbúðarsvæðisins til samræmis.
Skipulags- og samgöngunefnd leggur til við sveitarstjórn að tillagan verði samþykkt og málsmeðferð verði skv. 31. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Bókun fundar sveitarstjórnar
Sveitarstjórn samþykkir tillögu skipulags- og samgöngunefndar.
3.Breyting á deiliskipulagi íbúðabyggðar við Sunnubraut á Blönduósi
Tekin fyrir tillaga að breytingu á deiliskipulagi íbúðarbyggðar við Sunnubraut. Tillagan fjallar um fjölgun lóða við Sunnubraut. Bætt er við fimm lóðum við Sunnubraut, þar af ein fyrir íbúðarkjarna. Gerðar eru einnig lagfæringar á legu stígs sem liggur frá Sunnubraut að íþróttasvæði, mön við Sunnubraut felld út og breyting á bílastæðum við Holtabraut.
Skipulags- og samgöngunefnd leggur til við sveitarstjórn að tillagan verði samþykkt og málsmeðferð verði skv. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Bókun fundar sveitarstjórnar
Sveitarstjórn samþykkir tillögu skipulags- og samgöngunefndar.
4.Umsókn um uppsetningu á auglýsingaskiltum
Fyrir hönd Samkaupa óskar Vífill Ingimarsson eftir leyfi til uppsetninga á skiltum samkvæmt meðfylgjandi gögnum.
Skipulags-og samgöngunefnd samþykkir umsóknina og felur byggingafulltrúa að útfæra staðsetningu í samráði við umsækjanda.
- Fjallskilanefnd Húnabyggðar 4. fundur
Fundargerð 4. fundar fjallskilanefndar Húnabyggðar lögð fram til staðfestingar á 58. fundi sveitarstjórnar eins og einstök erindi bera með sér. Að loknum umræðum um fundargerðina var hún borin upp og staðfest af sveitarstjórn með níu atkvæðum samhljóða.
- Girðingamál
Girðingavinna hefur gengið vel í sumar og mikið af verkefnum tekin sem setið hafa á hakanum. Ekki er búið að girða nýgirðingu í Víðidalsfjalli en stefnt er á að klára það fyrir veturinn.
Ekki náðist að fara í girðingu milli Rugludals og Steiná og því er stefnt að því að setja það verkefni á dagskrá næsta árs.
Að gefnu tilefni vill fjallskilnefnd minna á að fari landeigendur í girðingavinnu á móti sveitarfélaginu verður að fá fyrir því samþykki áður en stofnað er til kostnaðar. Að sama skapi er rétt að sveitarfélagið fái samþykki sömuleiðs fyrir þeim girðingaframkvæmdum sem unnar eru.
- Göngur og réttir
Allt er að verða klárt fyrir göngur og nú er verið að fara yfir réttir, nátthólf og safnhólf. Hafi fólk einhverjar ábendingar skal beina þeim til fjallskilastjóra.
- Gangnaseðlar
Gangnaseðlar allra fjallskiladeilda lagðir fram til kynningar. Rætt var um að kostnaðaráætlanir og gangnaseðlar komi fyrr til umræðu þannig að hægt sé að samþykkja í sveitarstjórn fyrir göngur.
- Fjallskilasamþykkt fyrir Austur-Húnavatnssýslu
Fyrsta umræða um gildandi fjallskilasamþykkt tekin en ljóst er að leggjast verður í frekari vinnu við að uppfæra samþykktina og uppfæra hana miðað við þá stöðu sem sveitarfélagið er í núna. Frekari umræðu vísað til næsta fundar fjallskilanefndar.
- Styrkvegaframkvæmdir
Nú er verið vinna á Grímstunguheiði og í framhaldi af því verður farið í vegabætur fyrir ofan Vagli. Önnur verkefni eru búin sem voru á Laxárdal, Svartárdal og á Hrafnabjargaveginum.
- Annað
Nokkur mál rædd og t.d. ákveðið að næsti fundur nefndarinnar verði eftir hreppaskil eða um miðjan október.
- Byggðarráð Húnabyggðar 116. fundur
Fundargerð 116. fundar byggðarráðs Húnabyggðar lögð fram til staðfestingar á 58. fundi sveitarstjórnar eins og einstök erindi bera með sér. Að loknum umræðum um fundargerðina var hún borin upp og staðfest af sveitarstjórn með níu atkvæðum samhljóða.
- Beiðni um umsögn í máli 2025 059764
Byggðarráð veitir jákvæða umsögn fyrir sitt leiti um umsókn fyrir veitingaleyfi að Húnabraut 2.
GRL lagði fram eftirfarandi tillögu:
Sveitarstjórn veitir jákvæða umsögn fyrir sitt leiti með því skilyrði að afgreiðslutími áfengis verði frá klukkan 16:00 þá virku daga sem skólahald í Húnaskóla fer fram.
Bókun fundar sveitarstjórnar
Sveitarstjórn samþykkir tillöguna með fjórum atkvæðum (GRL, EA, ZAL og MÞ), fimm sátu hjá (JG, GHJ, ASS, RH, SB)
- Framkvæmdir við Vatnsdalsveg
Fyrir fundinum láu upplýsingar frá Vegagerðinni um að vegna þess að tilboð í framkvæmdir við Vatnsdalsveg voru rétt rúm 77% af kostnaðaráætlun mun Vegagerðin nýta það fjámagn sem áætlað var til verkefnisins. Af því leiðir lengist því vegkaflinn í fyrirhugaðri framkvæmd í samræmi við það.
- Umhverfismáli, sveitarfélögin og SSNV
Fyrir fundinum lá samantekt SSNV um áherslur í loftlagsmálum sveitarfélaga á Norðulandi vestra, lagt fram til kynningar. Byggðarráð beinir því til SSNV að sveitarfélögin á svæðinu fái aðstoð hvað varðar framkvæmd loftlagsmála en flest sveitarfélög á svæðinu eru of lítil til að manna sérstaklega slíkar stöður.
- Vatnstankur við Holtabaut
Fyrir fundinum lá erindi frá íbúa þar sem spurst var fyrir um framtíð gamla vatnstanksins fyrir ofan Holtabraut við Ennisbraut. Byggðarráð felur skipulags- og byggingarfulltrúa að sjá til þess að þessi vatnstankur verði friðaður í nýju aðalskipulagi og jafnframt felur byggðarráð sveitarstjóra að leita eftir hugmyndum um notkun tanksins og svæðisins í kringum hann.
- Heimilisiðnaðarsafnið
Byggðarráð vill koma á framfæri afsökun til forstöðumanns Heimilisiðnaðarsafnsins, Elínar Sigurðardóttur, á bókunum byggðarráðs er varðar málefni Heimilisiðnaðarsafnsins og safnamála almennt á 112. fundi byggðarráðs. Þar var bókað að búið væri að ráða starfsmann til að sjá um utanumhald safnamála sem er ekki rétt og einnig láðist byggðarráði að upplýsa forstöðumann Heimilisiðnaðarsafnsins um þá ákvörðun að safnið færi undir starfsemi sveitarfélagsins áður en það var sent út í bókun byggðarráðs. Þessari afsökun til Elínar Sigurðardóttur er hér með formlega komið á framfæri.
Byggðarráð felur sveitarstjóra að vinna á næstu vikum og mánuðum framtíðarsýn safnamála Húnabyggðar í samstarfi við þá starfsmenn og einstaklinga sem koma að safnamálum sveitarfélagsins.
- Fræðslunefnd Húnabyggðar 22. fundur
Fundargerð 22. fundar fræðslunefndar Húnabyggðar lögð fram til staðfestingar á 58. fundi sveitarstjórnar eins og einstök erindi bera með sér. Að loknum umræðum um fundargerðina var hún borin upp og staðfest af sveitarstjórn með níu atkvæðum samhljóða.
1.Húnaskóli - Daglegt starf
Þórhalla skólastjóri fór yfir skýrslu sína um skólastarfið í upphafi skólaárs. M.a. fjölda nemenda og starfsfólks, stoðþjónustuna þ.á.m sálfræði- og talþjónustu. Verkefni og starfsþróun og það sem er á döfinni í skólanum.
Skýrsla skólastjóra mun birtast í heild sinni á heimasíðu Húnaskóla.
2.Matsferill, stöðu- og framvindupróf
Mikil umræða er í samfélaginu um mat á skólastarfi meðal annars vegna umræðna um Matsferil, sem er samræmt mat á námsferli nemenda. Skólum ber að leggja prófin fyrir 4. 6. og 9. bekk í hverjum skóla. Prófin eru hugsuð sem stöðu- og framvindupróf. Skólum er frjálst að leggja prófin fyrir í fleiri árgöngum og hafa nokkur sveitarfélög ákveðið að m.a. prófa nemendur í hverjum árgangi frá og með núverandi skólaári. Rökin fyrir því eru m.a. að skort hefur samræmt matstæki til að leggja mat á námferil nemenda um árabil.
Skólastjóri og fræðslustjóri munu fara á kynningu um samræmt mat og frestar fræðslunefnd ákvörðun sinni til næsta fundar nefndarinnar.
3.Leikskóli Húnabyggðar
Sigríður leikskólastjóri fór yfir skýrslu sína við upphaf skólaárs.
Leikskólinn opnaði fimmtudaginn 7. ágúst. Nemendur fluttust á milli deilda og gekk það mjög vel. Verklagsreglur varðandi fyrirkomulag þegar nemendur færast milli deilda voru yfirfarnar og gerðar skýrari. Auglýstar voru tvær stöður og verið er að vinna úr umsóknum. Nýir nemendur voru teknir inn í dag 1. sept. og eru nemendur þá orðnir 63. Viðhald var á leikvelli, fremri stofur á Hólabæ og Fellabæ ásamt fataklefum voru málaðir. Samvinna við vinnuskóla gekk mjög vel. Vettvangsferð starfsfólks í Eyjafjörð.
Í haust ætlum við að stofna sérkennsluteymi í leikskólanum. Markmið teymisins:
- Greina og bregðast við þroskavanda sem fyrst.
- Efla samstarf við foreldra/forráðamenn.
- Stuðla að góðu samstarfi innan leikskólans.
- Viðhalda og efla faglega þekkingu teymsins.
- Setja og fylgja einstaklingsnámsáætlunum (INA).
Starfsfólk leikskóla á Norðurlandi vestra kom saman á Blönduósi þann 29. ágúst síðastliðinn. Þingið, sem haldið er annað hvert ár, fór fram í félagsheimilinu á Blönduósi. Dagný Rósa kynnti þar forvarnaráætlun Norðurlands vestra. Í kjölfarið hélt Bjartur Guðmundsson áhugavert erindi þar sem hann kynnti aðferðir byggðar á jákvæðri sálfræði og taugavísindum sem hjálpa einstaklingum til að ná fram sínu besta. Líflegur og skemmtilegur fyrirlestur. Eyrún Kristína Gunnarsdóttir sálfræðingur var með erindi um tilfinningaþroska barna og Aníta Jónsdóttir, ráðgjafi við Háskólann á Akureyri, um jákvæðan aga og hvernig mætti innleiða slíkar aðferðir í leikskólastarfið. Þingið var vel heppnað og gaf starfsfólki tækifæri til að efla fagþekkingu sína og styrkja tengsl við samstarfsfólk af öllu Norðurlandi vestra. Í september fá svo allir starfsmenn Lubba-námskeið Á námskeiðinu lærir starfsfólk að vinna með málræktarefnið Lubbi finnur málbein sem er hugsað til málörvunar og hljóðanáms fyrir börn. Í námsefninu er lögð áhersla á íslensku málhljóðin þar sem hvert málhljóð er kynnt með stuttri sögu, skemmtilegri vísu og með táknrænni hreyfingu.
4.Menntastefna
Þessum lið er frestað til næsta fundar fræðslunefndar
5.Fyrirkomulag skólaaksturs
Formaður fór yfir þær breytingar sem urðu á skólaakstri fyrir núverandi skólaár.
6.Önnur mál
Ekkert rætt undir þessum lið.
- Skipulags- og samgöngunefnd Húnabyggðar 45. fundur
Fundargerð 45. fundar skipulags- og samgöngunefndar Húnabyggðar lögð fram til staðfestingar á 58. fundi sveitarstjórnar eins og einstök erindi bera með sér. Liður 2, 3 og 7 þarfnast sérstakrar afgreiðslu. Að loknum umræðum um fundargerðina var hún borin upp og staðfest af sveitarstjórn með níu atkvæðum samhljóða.
SÞS boðaði förföll og í hans stað mætti MÞ og HBE boðaði einnig forföll og í hans stað mætti GRL.
1.Ósk um umsögn vegna Aðalskipulags Skagafjarðar, Auglýsing tillögu (Nýtt aðalskipulag)
Sveitarfélagið Skagafjörður óskar eftir umsögna vegna tillögu að nýju aðalskipulagi Skagafjarðar, ásamt umhverfismatsskýrslu, skv. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og 15. gr. laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana.
Nefndin felur skipulags-og byggingafulltrúa að senda inn umsögn í samráði við heimastjórn gömlu Skagabyggðar vegna óvissu um sveitarfélagamörk.
2.Breyting á aðalskipulagi gamla bæjarins og Klifamýrar
Tekin fyrir tillaga að breytingu á aðalskipulagi Blönduósbæjar 2010-2030. Breyting á aðalskipulagi fyrir Gamla bæinn og Klifamýri felur í sér að blandað verslunar- og þjónustusvæði og hluti íbúðasvæða eru felld út og skilgreind sem miðsvæði, íbúðasvæði eða opin svæði, nýtt íbúðasvæði D og svæði fyrir þjónustustofnanir falla brott, opin svæði stækka og landbúnaðarsvæði færast undir þau, hverfisvernd á menningarsögulegum forsendum er sett á allt svæðið, og fram koma skilmálar og byggingarheimildir fyrir hvert svæði. Fyrirhuguð breyting á aðalskipulagi er stefnumótandi fyrir deiliskipulag sem unnið er samhliða henni. Aðalskipulagsbreytingin er í samræmi skipulagslýsingu fyrir svæðið sem kynnt var þann 23.06.2025 til 14.07.2025.
Skipulags- og samgöngunefnd leggur til við sveitarstjórn að tillagan verði samþykkt og málsmeðferð verði skv. 31. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Bókun fundar sveitarstjórnar
Sveitarstjórn samþykkir tillögu skipulags- og samgöngunefndar með sjö atkvæðum og tveir sátu hjá (JG og EA).
3.HB- Deiliskipulag gamla bæjarins
Tekin fyrir tillaga að deiliskipulagi að gamla bæjarins á Blönduósi. Tillaga að deiliskipulag fyrir Gamla bæinn og Klifamýri byggir á verndun menningarsögulegrar ásýndar og heildarsvipmóts svæðisins með áherslu á tengsl gamla bæjarins og Klifamýrar sem órofa heild. Tillagan kveður á um skilgreiningu og staðsetningu lóða og byggingareita, setur fram lóða- og byggingarskilmála og fjallar um skilgreiningu gatnakerfis og göturýma, fjölda og staðsetningu bílastæða, og uppbyggingu stígakerfis og almenningssvæða. Tillagan er í samræmi skipulagslýsingu fyrir svæðið sem kynnt var þann 10.07.2024 til 18.08.2024.
Skipulags- og samgöngunefnd leggur til við sveitarstjórn að tillagan verði samþykkt með þeim breytingum sem gerðar voru á fundinum og málsmeðferð verði skv. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Bókun fundar sveitarstjórnar
Sveitarstjórn samþykkir tillögu skipulags- og samgöngunefndar.
4.Umsókn um stöðuleyfi við Húnabraut 37-39
Með innsendu erindi óskar Húnabyggð eftir stöðuleyfi fyrir húsið Gústasjoppu á lóðinni Húnabraut 37-39 fyrir liggur samþykki lóðarhafa.
Nefndin samþykkir stöðuleyfið.
5.Umferðaröryggisáætlun Húnabyggðar
Til kynninga og umræðu tilboð Eflu í gerð umferðaröryggisáætlunar fyrir Húnabyggð.
Nefndin leggur til við sveitarstjórn að umferðaröryggisáætlun verði sett á fjárhagsáætlun 2026.
6.Reiðleið með Þverárfjallsvegi og gerði
Tekin fyrir umsókn hestamannfélagsins Neista og Snarfara um svæði fyrir hestagerði við reiðveg austan Blönduóss.
Nefndin samþykkir að fyrirhugað gerði verði staðsett austan Þverárfjallsvegar í landi Ennis. Nánari staðsetning skal fundin í samráði við skipulags-og byggingafulltrúa. Nefndin áréttar að undirgöngin undir Þverárfjallsveg séu fjölnota og hugsuð fyrir gangandi,hjólandi og hestamenn.
7.Deiliskipulag vestan Svínvetningarbrautar
Breytingar á aðal-og deiliskipulagi vestan Svínvetningabrautar.
Skipulags-og samgöngunefnd leggur til við sveitarstjórn að farið verði í breytingar á aðal og deiliskipulagi svæðisins.
Bókun fundar sveitarstjórnar
Sveitarstjórn samþykkir tillögu skipulags- og samgöngunefndar.
- Skýrsla sveitarstjóra
Sveitarstjóri fór yfir helstu verkefni síðasta mánaðar en nú er haustið komið og sumarverkefnum að ljúka. Unnið verður eins langt inn í veturinn og hægt er með framkvæmdir utandyra eins og t.d. gatnagerð. Mikil vinna er eins og áður í skipulagsmálum og kynntar voru hugmyndir í þeim málum eins og t.d. nýjar hugmyndir um göngubrú yfir ós Blöndu. Vatnsdælan 2025 heppnaðist mjög vel en þar voru tveir frábærir viðburðir þ.e. formleg opnun Þrístapa og afhending Vatnsdælurefilsins. Féalgsþjónustuan kom formlega yfir til Húnabyggðar 1. september og það mun taka tíma að samhæfa þann rekstur rekstri sveitarfélagsins, en það er mikið fagnaðarefni að þetta sé loks að raungerast. Hafin er vinna við gerð fjárhagsáætlunar fyrir næsta árs og því í næg horn að líta.
ASS óskaði eftir fundarhléi 18:15.
Fundur hófst aftur 18:35.
EA tók fundarhlé 18:36.
Fundur hófst klukkan 18:43.
EA, JG og MÞ óska eftir upplýsingum um stöðu söluferlis fasteigna á Húnavöllum, þar sem ekki var getið um það mál í skýrslu sveitarstjóra. Óskað er eftir því að fá upplýsingar um hvaða vinna sé í gangi í viðleitni til að kynna Húnavelli sem fjárfestingakost hjá þeim fasteignasölum sem tóku að sér sölumál í framhaldi af ákvörðun sveitarstjórnar um að selja fasteignirnar þann 9. apríl 2024.