6. fundur 05. ágúst 2022 kl. 15:00 - 18:10 í fundarsal að Hnjúkabyggð 33
Nefndarmenn
  • Guðmundur Haukur Jakobsson forseti
  • Grímur Rúnar Lárusson 1. varaforseti
  • Ragnhildur Haraldsdóttir aðalmaður
  • Ásdís Ýr Arnardóttir varamaður
    Aðalmaður: Zophonías Ari Lárusson
  • Birgir Þór Haraldsson aðalmaður
  • Auðunn Steinn Sigurðsson aðalmaður
  • Elín Aradóttir aðalmaður
  • Guðný Ósk Jónasdóttir
    Aðalmaður: Jón Gíslason
  • Sverrir Þór Sverrisson varamaður
    Aðalmaður: Edda Brynleifsdóttir
Starfsmenn
  • Valdimar O. Hermannsson
  • Þórhalla Guðbjartsdóttir skólastjóri
  • Pétur Arason sveitarstjóri
Fundargerð ritaði: Atli Einarsson ritari
Dagskrá
Við upphaf fundar bauð forseti nýja fundarmenn og sveitarstjóra velkomin á sinn fyrsta sveitarstjórnarfund.

1.Fræðslunefnd Húnabyggðar - 4

2207006F

Fundargerð 4. fundar fræðslunefndar Húnabyggðar lögð fram á 6. fundi sveitarstjórnar eins og einstök erindi bera með sér. Liðir 1.1, 1.2, 1.3, 1.4, 1.5 og 1.6 þarfnast sérstakrar afgreiðslu.

Að loknum umræðum um fundargerðina var hún borin upp og staðfest af sveitarstjórn með 7 atkvæðum (GHJ, EA, GRL, RH, ÁÝA, BÞH, ASS). Tveir sátu hjá (SÞS, GÓJ).
  • Fræðslunefnd Húnabyggðar - 4 Þann 25. júlí fól sveitarstjórn Húnabyggðar skólastjóra að kalla eftir endanlegri ákvörðun foreldra barna, sem stundað hafa nám í Húnavallaskóla, um val á starfsstöð grunnskóla fyrir skólaárið 2022-2023. Þórhalla Guðbjartsdóttir kynnti niðurstöðurnar, sem voru eftirfarandi:

    Blönduós: 26 nemendur
    Húnavellir: 4 nemendur

    Fræðslunefnd gerir eftirfarandi bókun:

    Upphaflega var lagt upp með að grunnskólastarf yrði bæði á Blönduósi og Húnavöllum skólaárið 2022-2023. Nú er hins vegar ljóst að mikill meirihluti foreldra kýs að börn þeirra sæki skóla á Blönduósi fremur en á Húnavöllum. Í ljósi þeirrar niðurstöðu telur fræðslunefnd að ekki séu lengur forsendur fyrir grunnskólahaldi á Húnavöllum. Ekki er grundvöllur fyrir að starfrækja skólastarfsstöð fyrir fjóra nemendur. Fræðslunefnd leggur því til við sveitarstjórn að aðeins verði grunnskólahald á Blönduósi skólaárið 2022-2023.

    Helstu rök fræðslunefndar fyrir þessari tillögu eru eftirfarandi:

    Ekki er hægt að líta framhjá skýrum vilja meirihluta foreldra sem óskað hafa eftir því að börn þeirra stundi nám á Blönduósi.

    Stór hluti af starfi grunnskóla snýr að félagslegri örvun og þroska nemenda. Þannig fer nám í grunnskóla ávallt fram í félagslegu samspili, hvort sem um er að ræða bóklegt nám eða eflingu félagsfærni. Því telur nefndin að ekki sé forsvaranlegt að reka svo fámenna starfsstöð skóla í næsta nágrenni við aðra fjölmennari.

    Þá er vandkvæðum bundið að bjóða starfsfólki upp á viðunandi vinnuaðstæður með svo fáa nemendur á ólíku aldursbili. Slíkar aðstæður eru ekki til þess fallnar að viðhalda áhuga og stuðla að metnaði og nýsköpun í starfi.

    Fræðslunefnd vill koma því á framfæri að hún treystir skólastjórnendum vel til að skipuleggja skólastarf í nýjum grunnskóla, sem byggi á megingildum og nýtingu mannauðs bæði Blönduskóla og Húnavallaskóla. Fræðslunefnd telur mikilvægt að skólastjórnendur, í samstarfi við sveitarstjóra, finni öllum starfsmönnum og kennurum sambærileg störf innan nýs grunnskóla sveitarfélagsins. Vel verði gætt að ráðningarsambandi og réttindamálum.

    Skólastjóra verði falið að miðla upplýsingum til starfsfólks og foreldra um stöðu mála sem allra fyrst.

    Skólastjórnendur kynntu drög að skipulagi skóladags, nefndarmenn lýsa ánægju sinni með undirbúningsvinnu skólastjórnenda. Gert er ráð fyrir að skóladagur hefjist 8:15 en húsnæði opni 7:45.
    Bókun fundar Miklar umræður urðu um skipulag skólastarfs veturinn 2022-2023.

    Elín Aradóttir óskaði eftir því að hlé yrði gert á fundinum kl. 16:01.

    Fundarhléi lauk kl. 16:09.

    Tillaga fræðslunefndar borin upp og samþykkt með 7 atkvæðum (GHJ, EA, GRL, RH, ÁÝA, BÞH, ASS) gegn 2 (SÞS, GÓJ).

    Elín Aradóttir lagði fram eftirfarandi bókun fyrir hönd meirihluta sveitastjórnar:

    Með ákvörðun um að hafa aðeins grunnskólahald á Blönduósi, skólaárið 2022-2023, lýkur tæplega 53 ára sögu grunnskólastarfs á Húnavöllum. Skólinn hefur í gegnum tíðina gegnt lykilhlutverki í samfélaginu og skipar stóran sess í sögu héraðsins og í hjarta margra Húnvetninga. Í nýju sameinuðu sveitarfélagi er eðlilegt að aðlaga þjónustu að þörfum íbúanna. Meirihlutinn vill taka skýrt fram að ákvörðun þessi byggir fyrst og fremst á lýðræðislegri niðurstöðu foreldra barna í Húnavallaskóla um hvar þeir kjósa að börn þeirra stundi skóla. Ákvörðuninni er á engan hátt ætlað að varpa rýrð á sögulegt mikilvægi Húnavallaskóla sem menntastofnunar. Meirihlutinn tekur undir bókun fræðslunefndar þar sem lýst er fullu trausti á skólastjórnendur Grunnskóla Húnabyggðar við mótun skólastarfs í nýjum skóla, sem byggi á þekkingu og reynslu úr bæði Húnavallaskóla og Blönduskóla. Meirihlutinn vill einnig taka skýrt fram að öllu starfsfólki skólanna verða tryggð störf innan nýs grunnskóla sveitarfélagins, eða hjá öðrum stofnunum þess ef þeir það kjósa. Að lokum leggur meirihlutinn áherslu á að hann mun kappkosta að finna fasteignum sveitarfélagsins á Húnavöllum nýtt hlutverk svo blómleg starfsemi megi þrífast þar í náinni framtíð.

    Sverrir Þór Sverrisson óskaði eftir að hlé yrði gert á fundinum kl. 16:11.

    Fundarhléi lauk kl. 16:19.

    Guðný Ósk Jónasdóttir lagði fram eftirfarandi bókun fyrir hönd minnihluta sveitarstjórnar:

    Minnihlutinn mótmælir harðlega þeim áætlunum fræðslunefndar að loka Húnavallaskóla strax í haust. Það er sorglegt að sjá nýja nefndarmenn hins sameinaða sveitarfélags ganga svo þverlega gegn þeim loforðum sem gefin voru fyrir sameiningarkosningarnar og skýla sér á bak við lýðræðisleg vinnubrögð sem engin voru.

    Ekki hafa verið haldnir fundið með öllum foreldrum, nemendum né starfsfólki hvorki á Blönduósi né í Húnavatnshreppi. Foreldrar nemenda í Húnavallaskóla hafa fengið tvo tölvupósta þar sem þeim var stillt upp við vegg til að ákveða í hvorum skólanum þeir vilji að börn þeirra myndu vera við nám og sá póstur ítrekaður þegar ljóst var orðið hve fáir nemendur yrðu á Húnavöllum í haust. H-listinn lagði fram tillögu á síðasta fundi sveitarstjórnar sem hann taldi mun eðlilegri vinnubrögð en hún var felld.

    Það er sorglegt að horfa uppá áratuga farsælt starf Húnavallaskóla ljúka á þennan hátt. Skólinn var settur á laggirnar til að mennta nemendur og efla samvinnu gömlu sveitahreppanna og það hefur hann gert. Fyrir utan að vera sameiningartákn og hjarta samfélagsins sem að honum kom.

    Skipulagning skólastarfs og sameining stofnana tekur tíma en fræðslunefnd telur brýnna að keyra saman stofnanir í trássi við gefin loforð á örfáum vikum frá stofnun sveitarfélagsins. Merkilegt verður að teljast að fræðslunefnd telur sig samt þurfa að minnsta kosti ár til að undirbúa matarmál skólanna en ekki fræðslustarf.

    Það á eftir að skipuleggja skólaakstur og semja við skólabílstjóra uppá nýtt eða bjóða út skólaaksturinn á Evrópska efnahagssvæðinu og það tekur meiri tíma en 3 vikur. Engar hugmyndir um leiðir liggja fyrir á borðinu ennþá. Breytingar á samningum skólabílstjóra hefðu átt að vera komnar fram fyrir 1. ágúst samkvæmt þeirra samningum.

    Stjórnendur skólans þurfa einnig að búa til viðunandi og öruggar aðstæður fyrir skólabíla að koma nemendum af sér, enda bera þeir ábyrgð á því að nemendur komist örugglega í og úr skólanum ásamt bílstjórunum sjálfum. Ekki hefur verið hugsað útí neinn kostnað við þessar ákvarðanir.

    Sú óformlega könnun sem lögð var fyrir foreldra nemenda á Húnavöllum er í besta falli ólögleg og brýtur gegn jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar. Þar sem þetta á að vera eitt skólasvæði hefðu allir foreldrar á þessu svæði átt að fá að taka þátt, könnuninn betur unnin og meiri upplýsingar hefðu átt að fylgja. Enginn skýr meirihluti foreldra hefur látið í ljós skoðun sína þar sem aðeins hluti þeirra hefur tekið þátt. Minnihlutinn áskilur sér rétt til að fara með þetta mál lengra.

    Minnihlutinn telur að hugmyndir um að skólastarf hefjist 8:15 sé of snemmt fyrir þá nemendur sem lengst þurfa að fara. Þeir þurfa þá að vera komnir uppí skólabíl rétt uppúr 7:00 á morgnanna. Nema hugmyndir um flæðandi morgunmat séu uppi og nemendur og skólabílstjórar hafi það svigrúm til að koma nemendum til skóla á réttum tíma.

    Minnihlutinn hefur fulla trú á að skólastjórnendum takist að koma saman skólastarfi á þessum 3 vikum fram að skólabyrjun en nauðsynlegt hefði verið að gefa þeim meiri tíma eins og samþykkt var við sameiningu sveitarfélaganna. Minnihlutinn óskar eftir því að foreldrar nemenda á Húnavöllum og starfsfólk verði boðað á kynningarfund á fyrirhuguðu skólastarfi áður en skólinn verður settur. Þar verði farið yfir öll þau mál sem sannarlega brenna á sumum foreldrum og starfsfólki.

    Auðunn Steinn Sigurðsson óskaði eftir að hlé yrði gert á fundinum kl. 16:21.

    Fundarhléi lauk kl. 16:45.

    Guðmundur Haukur Jakobsson lagði fram eftirfarandi bókun fyrir hönd meirihluta sveitarstjórnar:

    Meirihlutinn harmar að minnihlutinn hafi ekki skilning á þeim lýðræðislegu sjónarmiðum sem liggja til grundvallar umræddri ákvörðun. Meirihluti telur bókunina sérkennilega í ljósi þess að minnihlutinn tók lítinn sem engann þátt í umræðu fundarinns undir þessum lið. Bent er á að eins og fram kom á fundinum eru flest þau viðfangsefni sem minnst er á í bókun minnihluta nú þegar frágengin eða vinnslu fræðslunefndar, skólastjórnenda og sveitarstjóra að öðru leyti telur meirihluti sveitarstjórnar aðdróttanir minnihluta ekki svaraverðar.
  • Fræðslunefnd Húnabyggðar - 4 Þórhalla Guðbjartsdóttir kynnti tillögu að skóladagatali Grunnskóla Húnabyggðar fyrir skólaárið 2022-2023.
    Fræðslunefnd samþykkir skóladagatalið og vísar til afgreiðslu sveitarstjórnar.
    Bókun fundar Sveitarstjórn staðfestir skóladagatal Grunnskóla Húnabyggðar fyrir skólaárið 2022-2023 með 7 atkvæðum (GHJ, EA, GRL, RH, ÁÝA, BÞH, ASS). Tveir sátu hjá við afgreiðslu málsins (SÞS, GÓJ).
  • Fræðslunefnd Húnabyggðar - 4 Sveitarstjóri og skólastjóri fóru yfir stöðu mötuneytismála

    Skólastjóra var falið að gera athugun á búnaði og hvort fjárfestinga væri þörf vegna morgunverðarþjónustu í grunnskólahúsnæði á Blönduósi. Þórhalla greindi frá niðurstöðu sinni.

    Morgunverður mun verða í umsjón skólans. Skólastjóra jafnframt falið að kanna möguleika á síðdegishressingu fyrir alla nemendur þegar skipulag frístundastarfs liggur fyrir.

    Fræðslunefnd leggur til við sveitarstjórn að samningur Blönduskóla við Himinn sól ehf. um mötuneytisþjónustu verði yfirfærður á Grunnskóla Húnabyggðar og hann framlengdur um eitt ár samkvæmt 8. gr. í núverandi samningi. Komandi skólaár verði nýtt til ákvarðanatöku um framtíðarskipan mötuneytisþjónustu.
    Bókun fundar Sveitarstjórn samþykkir með 7 atkvæðum (GHJ, EA, GRL, RH, ÁÝA, BÞH, ASS) að framlengja samning við Himin sól ehf. um mötuneytisþjónustu fyrir skólaárið 2022-2023. Tveir sátu hjá við afgreiðslu málsins (SÞS, GÓJ).
  • Fræðslunefnd Húnabyggðar - 4 Þórunn Ragnarsdóttir mætti á fundinn undir þessum lið.

    Samningar Húnavatnshrepps og Blönduósbæjar við skólabílstjóra voru gerðir fyrir skólaárin 2020/2021, 2021/2022 og 2022/2023.

    Fræðslunefnd leggur til að stofnaður verði vinnuhópur um skipulag skólaaksturs 2022-2023 grunn- og leikskólabarna sem taki nú þegar til starfa. Lagt er til að hópurinn verði skipaður eftirfarandi aðilum: Skólastjóra, leikskólastjóra, sveitarstjóra, einum fulltrúi foreldra, tveimur fulltrúum skólabílstjóra og að Magnús Sigurjónsson verði fulltrúi fræðslunefndar. Nefndin skili tillögum sínum til byggðaráðs.

    Í Húnavatnshreppi hefur tíðkast að að leikskólabörn eigi kost á skólaakstri. Fræðslunefnd telur mikilvægt að leikskólabörn í dreifbýli Húnabyggðar njóti áfram akstursþjónustu og unnar verði verklagsreglur á grunni þeirra reglna sem giltu í Húnavatnshreppi.

    Þórunn vék af fundi 18:43.

    Bókun fundar Tillaga fræðslunefndar borin upp og samþykkt með 9 atkvæðum samhljóða.
  • Fræðslunefnd Húnabyggðar - 4 Formaður greindi frá því að sveitarfélagið hefur gert samkomulag við Ámundakinn ehf. um afnot af Húnabraut 5 fyrir starfsemi félagsmiðstöðvar og frístundavistunar eldri nemenda skólaárið 2022-2023.
    Frekari útfærsla starfseminnar er í vinnslu.
    Fræðslunefnd gerir eftirfarandi tillögur
    1 Skóladagheimili verði starfrækt á Blönduósi fyrir nemendur í 1.-4.bekk, þjónustan verði gjaldfrjáls fyrir alla nemendur fram að heimakstri skólabíla.
    2 Boðið verður uppá viðverustað fyrir nemendur 5.-10. bekkjar frá lokum skóladags. Nánari útfærsla verði unnin með tilliti til mögulegs frístundaaksturs, tímasetninga íþróttaæfinga og fleiri þátta. Sveitarstjórn taki afstöðu til mögulegrar gjaldtöku.


    Bókun fundar Talsverðar umræður urðu um samstarf um skipulag grunnskólastarfs og frístundastarfs.

    Tillaga 1 borin upp og samþykkt af sveitarstjórn með 9 atkvæðum samhljóða. Vistunargjöld frá heimakstri skólabíla fylgi gildandi gjaldskrá til áramóta 2022/2023.

    Tillaga 2 borin upp og samþykkt af sveitarstjórn með 7 atkvæðum (GHJ, EA, GRL, RH, ÁÝA, BÞH, ASS). Sveitarstjórn samþykkir jafnframt með 7 atkvæðum að þjónustan verði gjaldfrjáls fram til áramóta 2022/2023 og stefnumarkandi ákvörðun varðandi gjaldtöku verði tekin við fjárhagsáætlunarvinnu. 2 sátu hjá við afgreiðslu málsins (SÞS, GÓJ).

    Sveitarstjórn beinir því til íþrótta-, tómstunda- og lýðheilsunefndar að kanna möguleika og kostnaðargreina frístundaakstur.
  • 1.6 2206034 Önnur mál
    Fræðslunefnd Húnabyggðar - 4 Aðalbjörg vakti athygli á því að ekki sé búið að ákveða útfærslu mötuneytisþjónustu Vallabóls þegar leikskólinn opnar að loknu sumarleyfi. Fræðslunefnd telur brýnt að finna lausn á þessu máli sem allra fyrst.

    Umræður urðu um aðkomu skólabíla og umferðaröryggi við Grunnskóla Húnabyggðar. Skólastjóra falið að skoða málið nánar.

    Bókun fundar Varðandi mötuneytismál á Vallabóli felur sveitarstjórn sveitarstjóra að leysa málið í samráði við leikskólastjóra.

    Þórhalla og Valdimar greindu frá stöðu mála varðandi aðkomu og umferðaröryggi við Grunnskóla Húnabyggðar.
Sveitarstjórn þakkar Þórhöllu fyrir góða undirbúningsvinnu fyrir komandi skólaár.

Fundi slitið - kl. 18:10.

Getum við bætt efni þessarar síðu?