Dagskrá fundarins
- Húnavaka
Kristín Ingibjörg Lárusdóttir kom inn á fundinn undir þessum lið og fór yfir stöðu undirbúnings vegna Húnavöku 2025. Allt er meira og minna klárt og ákveðið hefur verið að bjóða gestum upp á auka tjaldsvæði við Jobbahlöðu þar sem mikið af gestum fylgir keppendum torfærukeppninnar sem er nú árlegur viðburður á Húnavöku. Dagskrá Húnavökunnar verður fjölbreytt og sérstök áhersla er lögð á viðburði fyrir fjölskyldufólk. Vöfflubakstur í heimahúsum verður aftur í ár enda heppnaðist það mjög vel í fyrra. Nefndin vill koma á framfæri þökkum til allra sem komið hafa að undirbúningi Húnavökunnar. Dagskrá Húnavöku hefur verið gefin út og bent er á að hægt er að fá eintak á helstu stöðum á Blönduósi (Kjörbúðinni, veitingastöðum, sundlauginni o.s.frv.). Einnig má sjá allar upplýsingar um Húnavökuna á FaceBook síðu Húnavökunnar.
- 100 ára afmæli Skáksambandsins
100 ára afmæli Skáksambands Íslands sem haldið var í júní heppnaðist í alla staði mjög vel. Viðburðurinn teygði sig yfir heila viku þar sem stærsti einstaki viðburðurinn var alþjóðlegt meistaramót með rúmlega 40 keppendum. Margvíslegir minni viðburðir voru einnig í gangi sem heppnuðust einnig mjög vel og skákin greinilega vinsæl í Húnabyggð. Skáksamband Íslands hefur ítrekað þakkir sínar til sveitarfélagsins og allra heimamanna fyrir frábærar viðtökur og hjálpsemi í undirbúningi og framkvæmd viðburðarins. Til hátíðarkvöldverðar 100 ára afmælisins mætti forseti Íslands, frú Halla Tómasdóttir, ásamt eiginmanni sínum Birni Skúlasyni og var það virkilega skemmtilegur heiður fyrir okkur að fá forsetahjónin í heimsókn. Atvinnu- og menningarnefnd tekur undir ánægju með viðburðinn og telur að fullt tilefni sé til þess að skoða framkvæmd svipaðs viðburðar á næsta ári.
- Rabbabarahátíðin
Rabbabarahátíðin var haldin helgina 28-29. júní og heppnaðist mjög vel. Sveitarfélagið hefur enga beina aðkomu að þessari hátíð sem er einkaframtak brottfluttra Blönduósinga og heimamanna. Greinilegt er að hátíðin vex frá fyrra ári og mikil ánægja var hjá gestum sem þyrsti í fróðleik og upplifun tengdum rabbabaranum og þá var mikil ánægja með hjólaferð í kringum Svínavatn sem farin var í tengslum við hátíðina. Kvöldinu lauk með tónleikum í Krúttinu þar sem brottfluttir Blönduósingar stigu á stokk og fóru á kostum. Atvinnu- og menningarnefnd þakkar öllum aðstandendum Rabbabarahátíðarinnar fyrir frábært framtak sem svo sannarlega hleypir skemmtilegu lífi í bæinn og sveitarfélagið.
- Prjónagleðin
Atvinnu- og menningarnefnd vill beina því til byggðarráðs að horft verði til þess að alþjóðlegi prjónadagurinn er annan sunnudag í júní og hvort að horfa eigi til þess með dagsetningu Prjónagleðinnar. sem hann var ekki
- Vatnsdælan 2025
Ekki er fyrirhugað að halda Vatnsdæluhátíð með sama sniði og undanfarin tvö ár að þessu sinni. Hátíðin í ár verður tengd sýningu Vatnsdælurefilsins, sem nú er fullklár og verður sýndur almenningi 29. ágúst. Skoða þarf hvort að halda eigi formlega opun Þrístapa í samhengi við Vatnsdæluna og ákveðið er að halda næsta fund atvinnu- og menningarnefndar þann 16. Júlí klukkan 10:00.
- Pride viðburður
Erindi barst frá íbúa varðandi þáttöku Húnabyggðar í Pride viðburði. Ekkert slíkt hefur verið skipulagt af Húnabyggð, en tekið er vel í að aðstoða aðila sem vilja gera eitthvað því tengt. Maríönnu Þorgrímsdóttur falið að afla frekari upplýsinga um þær hugmyndir sem verið er að vinna með.
- Annað
Ekkert annað lá fyrir fundinum.