Vinnuskóli Húnabyggðar býður unglingum á aldrinum 13-15 ára í sveitarfélaginu upp á skemmtilega og lærdómsríka sumarvinnu. Áhersla vinnuskólans er að hafa starfsumhverfið hvetjandi og gefandi og að undirbúa starfsmenn hans undir framtíðarstörf á vinnumarkaði. Helstu verkefni vinnuskólans er að gera umhverfi íbúa og gesta Húnabyggðar notalegt og fallegt.

Umsóknarfrestur er til 22. maí 2025.

Hér er hægt að sækja um.

Vinnutilhögun

Vinnutilhögun unglinga er misjöfn eftir aldri en sjá má vinnutímabil þeirra hér að neðan:

▪ Árgangur 2012 vinnur hálfan vinnudag 10. júní til og með 17. Júlí.

▪ Árgangur 2011 vinnur heilan vinnudag 10. júní til og með 31. júlí.

▪ Árgangur 2010 vinnur heilan vinnudag 10. júní til og með 31. júlí.

 

Vinnutími hálfs vinnudags eru fjórir tímar á dag frá 8:00-12:00 mánudaga til fimmtudaga. Þetta eru samtals 16 klukkustundir á viku.

Vinnutími heils vinnudags eru sjö tímar á dag frá 8.00-12.00 og 13.00-16.00, mánudaga til fimmtudaga. Þetta eru samtals 28 klukkustundir á viku.

Hafa ber í huga að starfsfólk vinnuskólans á rétt á bæði matar- og kaffitímum. Matartíminn er frá 12-13 og á þeim tíma getur starfsfólk farið heim í mat. Kaffitími er 35 mín. á dag og er skipt í tvennt, 20 mín. fyrir hádegi og 15 mín. eftir hádegi. Kaffitími er tekinn á þeim sem starfað er á hverju sinni.

Sérstök athygli er vakin á því að vinnuskólinn er lokaður á föstudögum.

Mæting er í Þjónustumiðstöð, Ægisbraut 1.

Launakjör

Laun eru samkvæmt opinberum reglum þar um:

▪ Hjá árgangi 2012 er tímakaup 688 kr. auk orlofs sem er 13,04%.

▪ Hjá árgangi 2011 er tímakaup 826 kr. auk orlofs sem er 13,04%.

▪ Hjá árgangi 2010 er tímakaup 1101 kr. auk orlofs sem er 13,04%.

 

Helstu verkefni

Verkefni Vinnuskólans eru fjölbreytt en helstu verkefni eru:

▪ Sópa götur, plön og gangstéttar.

▪ Hverfahreinsun, ruslahreinsun og plokk.

▪ Beðahreinsun og gróðursetning sumarblóma.

▪ Rakstur og meðhöndlun slegins grass og gróðurs.

▪ Aðstoða við Sumarfjör og leikskóla Húnabyggðar.

▪ Önnur tilfallandi störf

Gagnlegar upplýsingar

Hópunum er dreift í ýmis verkefni innan bæjarins og gott er að þau séu á hjólum (með hjálm á sér) til að koma sér á milli staða. Flokksstjóri fylgir hópnum öllum stundum og er hlutverk hans að leiðbeina og aðstoða unglinga við störf sín. Í flestum tilfellum er um að ræða fyrstu kynni unglinga af launuðu starfi og því áríðandi að vel takist til. Mikilvægt er að samskipti og samtöl við flokkstjóra séu á vingjarnlegum nótum án þess að það bitni á vinnuframlaginu. Fréttir af starfi vinnuskólans má nálgast á facebook-síðu hans og Abler.

Reglur Vinnuskólans

Reglur Vinnuskóla Húnabyggðar gilda jafnt á vinnutíma sem og við félagsstörf á vegum skólans.

▪ Flokksstjóri er verkstjóri á vinnustað. Næsti yfirmaður hans er yfirflokkstjóri.

▪ Öllu starfsfólki ber að vera vinnusamt, stundvíst, heiðarlegt og kurteist.

▪ Veikindi og önnur forföll ber að tilkynna strax í gegnum Abler (það verður kynning á því í byrjun sumars). Ef ekki hefur borist tilkynning um forföll í þrjá daga er litið svo á að starfsmaður hafi hætt störfum.

▪ Notkun tóbaks er bönnuð. Sama gildir um áfengi, rafrettur/vape og önnur vímuefni.

▪ Sjoppu og búðaferðir eru ekki leyfðar á vinnutíma, þ.m.t. kaffitíma.

▪ Nemendum ber að ganga vel og þrifalega um á vinnustað og fara vel með þau áhöld sem notuð eru.

▪ Í kaffitímum er ætlast til að starfsfólk hafi hollt og gott nesti. Ekki er leyfilegt að vera með orku- og gosdrykki.

▪ Notkun farsíma er ekki leyfileg á vinnutíma.

▪ Allir starfsmenn útvega sér sjálfir hlífðarfatnað og bera starfsmenn ábyrgð á eigin fötum og eigum.

▪ Hjálmaskylda er hjá ungmennum 16 ára og yngri. Ef ekki er notast við hjálm er hjól gert upptækt og foreldri/forráðamaður getur nálgast það í húsnæði vinnuskólans.

 

Brot á reglum Vinnuskólans

Þegar vandamál koma upp er flokksstjórum uppálagt að tala við viðkomandi starfsmann og setja sig í samband við forráðamenn. Flokksstjóra ber jafnframt að láta yfirmenn vinnuskóla vita af málinu án þess að þeir komi að því að öðru leyti nema þess sé óskað. Ef viðkomandi starfsmaður bætir ekki ráð sitt má eiga von á frekari áminningu og tímabundinni brottvísun sem venjulega er þrír dagar. Í stöku tilfellum dugir þetta ekki til og er þá starfsmanni vísað frá vinnu það sem eftir er af vinnutímabilinu. Það skal þó tekið fram að yfirleitt tekst að leysa vandamál áður en grípa þarf til frekari aðgerða. Reynslan sýnir að samvinna milli starfsmanna vinnuskóla og forráðamanna er lykilatriði við úrlausn hina ýmsu mála sem upp kunna að koma.

 

Frekari upplýsingar veitir Kristín Ingibjörg Lárusdóttir á netfangið: kristin@hunabyggd.is

Getum við bætt efni þessarar síðu?