Þann 27. nóvember, sl. var farsældarráð Norðurlands vestra formlega stofnað með undirritun á samstarfssamningi og samstarfsyfirlýsingu í Krúttinu á Blönduósi. Með stofnun farsældarráðsins hefst formlegt og mikilvægt samstarf allra sveitarfélaga og helstu stofnana sem þjónusta börn og fjölskyldur á svæðinu. Farsældarráðið verður vettvangur sameiginlegrar stefnumótunar og samráðs í samræmi við lög nr. 86/2021 um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna. Stofnun ráðsins markar upphaf að nýju samtali og aukinni samvinnu á milli þjónustuaðila ríkis og sveitarfélaga.
Sveitarfélögin á Norðurlandi vestra; Húnaþing vestra, Húnabyggð, Skagaströnd og Skagafjörður, skrifuðu undir samning um sameiginlega ábyrgð á farsældarráðinu. Þau undirrituðu jafnframt samstarfsyfirlýsingu með þjónustuaðilum og stofnunum landshlutans: Sambandi sveitarfélaga á Norðurlandi vestra, Fjölbrautarskóla Norðurlands vestra, Heilbrigðisstofnun Norðurlands, Heilbrigðisstofnun Vesturlands, Lögregluembætti Norðurlands vestra, Sýslumanninum á Norðurlandi vestra, svæðisstöðvum íþróttahéraða og kirkjunni á Norðurlandi vestra. Einnig mun óstofnað ungmennaráð Norðurlands vestra eiga sæti í farsældarráðinu.
Á nýju ári mun farsældarráðið halda sinn fyrsta fund og hefja vinnu við að móta fjögurra ára aðgerðaáætlun fyrir Norðurland vestra.
