Opinn íbúafundur um stefnumótun nýs sveitarfélags verður haldinn í félagsheimilinu á Blönduósi fimmtudaginn 11. maí frá klukkan 17:00-19:00

 

Af gefnu tilefni er rétt að árétta að við erum að hefja vegferð stefnumótunar nýs sveitarfélags sem mun taka að minnsta kosti sex mánuði. Eitt af því sem við höfum ákveðið er að opna ferlið fyrir íbúum og fá þannig hugmyndir ykkar inn í stefnumótunina. Þetta verður t.d. gert með opnum íbúafundum, Teams fundum og svo er öllum að sjálfsögðu heimilt að senda hugmyndir til okkar á hunabyggd@hunabyggd.is (merkt “Stefnumótun”).

 

Það að við hefjum þessa vegferð núna þegar sauðburður stendur yfir var meðvituð ákvörðun og að sjálfsögðu ekki gerð til að sjá til þess að bændur gætu ekki verið með. Eftir að hafa rætt þetta var ljóst að það skiptir engu máli í hvaða mánuði við byrjum það er alltaf eitthvað sem hægt er að finna að varðandi aðra viðburði og verkefni sem eru á sama tíma.

 

Því var ákveðið að hefjast handa en tryggja að fleiri en eitt tækifæri myndu gefast öllum til að vera með og við munum t.d. auglýsa sérstaka fundi í dreifbýlinu þegar sauðburði líkur. Bændur sem núna eru uppteknir yfir sauðburði geta því sinnt honum og komið næst þegar kallað verður til fundar um sama málefni.

 

Það er einnig rétt að árétta að við þurfum að fara í stefnumótun með ýmsa hluti og við náum ekki að fara yfir öll mál á einum fundi. Því verður um fundarröð að ræða þar sem mismunandi málefni eru í fókus hverju sinni o.s.frv.

 

Við fögnum því að um þetta hafi skapast umræða sem þýðir að mikill áhugi er fyrir því að mæta á fundina og það er vel.

 

Við hlökkum til að sjá sem flesta fimmtudaginn 11. maí á fyrsta fundinum.

Getum við bætt efni þessarar síðu?