Þingeyrakirkja - saga

Þingeyrar eru eitt kunnasta stórbýli í Húnaþingi og kirkjustaður. Þingeyrar eru ein mesta jörð á landinu, engjalönd, afréttir, laxveiði og selveiði. Þingeyrar standa í miðju héraði, á lágri hæðarbungu er veit suður og austur að óshómum Hnausakvíslar þar sem hún rennur í Húnavatn.

Frá Þingeyrarkirkju er ein víðasta og fegursta útsýn í Húnavatnssýslu og þótt víðar sé leitað. Sér þaðan norður um Strandir, austur á Skaga og suður til jökla. Landrými er mikið og frábær engjalönd við Húnavatn og Hnausakvísl. Munu Þingeyrar að fornu og nýju ein mesta jörð á landinu.

Húnavatnsþing mun hafa verið haldið á Þingeyrum en "engar minjar þess eru kunnar og þess er ekki getið eftir setningu klausturs þar 1133" (Jón Jóhannesson: Íslendinga saga I)

Í sögu Jóns biskups helga Ögmundarsonar segir frá því að mikið hallæri varð snemma á biskupstíð hans. Lét hann þá þingheim á vorþingi á Þingeyrum heita því að þar skyldi reisa kirkju og bæ og yrði sá staður efldur. Markaði hann sjálfur grundvöll kirkjunnar. Hefur kirkja staðið þar alla tíð síðan. Hún var helguð heilögum Nikulási í kaþólskum sið. Prestakallið var lengi aðeins ein sókn en árið 1880 voru Undirfells- og Grímstungusóknir lagðar undir Þingeyraklaustursprestakall. Voru þær síðan skildar frá því aftur næsta ár en Hjaltabakkasókn þá lögð til prestakallsins. Undirfellssókn var lögð til prestakallsins árið 1907. Kirkjur í Þingeyraklaustursprestakalli eru nú auk Þingeyra, á Blönduósi og Undirfelli. Prestssetrið var í Steinnesi að minnsta kosti frá því á 14. öld og til 1970 er það var flutt til Blönduós með lögum.

Kirkja sú er nú stendur á Þingeyrum er með merkustu kirkjuhúsum landsins, byggð af Ásgeiri Einarssyni (1809-1885) alþingismanni er sat staðinn með reisn á árunum 1861-1863 og aftur frá 1867 til æviloka (kollafjarðarnes Str.).  Ásgeir reisti kirkjuna á árunum 1864-1877 og lagði til byggingarinnar 10.000.- af 16.000.- sem hún kostaði og sparaði ekkert til að gera hana sem veglegasta. Kirkjan er hlaðin úr grjóti og steinarnir límdir með kalki í hleðslunni. Sverrir Runólfsson steinhöggvari sá um veggjahleðsluna og munu þeir Ásgeir saman hafa lagt á ráðin um gerð hússins. Naumast finnst steinvala í landi Þingeyra og var hleðslugrjótið allt sótt vestur í Nesbjörg handan Hópsins og dregið á sleðum  með uxa fyrir, yfir ísa að vetrinum. Kirkjuhúsið er með forkirkju, turni og bogadregnum kór sem hlaðinn er út í eitt með kirkjuskipinu. Söngloft er yfir kirkjunni framanverðri og tekur hún alls nær 150 manns í sæti. Hvelfing er bogadregin og blámáluð og á henni gylltar stjörnur sem eiga að vera um 1000 eða jafnmargar og rúðurnar í bogagluggum kirkjunnar. Veggir voru í upphafi sléttaðir að innan með kalkblöndu en 1937 voru þeir steinmúraðir og síðan málaðir hvítir. Helluþak var á kirkjunni í upphafi og lengi síðan en það skaddaðist fyrir allmörgum árum og var þá sett eirklæðning í stað þess.

Margir stórmerkir gripir eru í Þingeyrakirkju eða hafa heyrt henni til. Ber þar fyrst að nefna altarisbríkina sem er frá tímum Þingeyraklausturs og talin gerð í Nottingham á Englandi á 15. öld en sumir álíta hana eldri. Er hún með upphleyptum myndum úr alabastri og hefur verið með vængjum en þeir eru nú horfnir. Sagt er að  bríkina hafi átt að selja úr landi og var búið að flytja hana út í Höfðakaupstað en hún skemmdist á leiðinni. Gengu kaupin til baka og var bríkin flutt aftur til Þingeyra. Var hún síðar lagfærð og Guðmundur "bíldur" Pálsson gerði yfir hana tréskurðarmynd af himnaför Krists og skar einnig út umgerð með rósabekk utan um hvort tveggja. Þá er í kirkjunni merkilegur predikunarstóll, gefinn af Lauritz Gottrup árið 1696. Er hann líklega hollenskur að gerð, sexstrendur, með myndum af Kristi og postulunum á hliðunum. Hann er í barokkstíl, með himni yfir og áletruðu nafni gefandans og ártalinu. Predikunarstóllinn er sunnan megin í kirkjunni en að norðanverðu er skírnarsár sem einnig er gefinn af Lauritz Gottrup, árið 1697. Hann er í svipuðum stíl, áttstrendur og á hliðum hans myndir af atburðum úr biblíunni. Yfir honum er einnig himinn með dúfumynd og áletrun um gefandann og ártalið. Í honum er stór, áttstrend skírnarskál úr tini með ártalinu 1693. Ýmsir fleiri merkir gripir eru í kirkjunni, svo sem oblátuöskjur, kaleikur með patínu og vínkanna sem Jóhann Gottrup, sonur Lauritz Gottrup, gaf kirkjunni. Í forkirkjunni er legsteinn sá er var yfir gröf Lauritz Gottrup og konu hans í gamla kirkjugarðinum á Þingeyrum, steinhella mikil með skjaldarmerki Gottrups og merkjum guðspjallamannanna og langri áletrun.

Nokkrir merkir munir úr Þingeyrakirkju eru varðveittir í Þjóðminjasafni Íslands en Hermann Jónasson skólastjóri, sem bjó á Þingeyrum á árunum 1896-1905, seldi ýmsa gripi kirkjunnar. Má þar nefna líkneski af Kristi og postulunum sem voru á bitanum milli kórs og framkirkju en Sveinn Ólafsson myndskeri hefur nú gert eftirmyndir þeirra og var þeim komið fyrir í kirkjunni 1983. Þá er einnig í Þjóðminjasafni minningartafla um Lauritz Gottrup og fjölskyldu hans.

Munkaklaustur var stofnað á Þingeyrum árið 1133 og úr því var staðurinn eitt af mestu menntasetrum Íslands næstu aldir á eftir. Er það fyrsta klaustur sem stofnað var á landinu. Þar voru skrifuð ýmis fornrit sem varðveist hafa. Þeirra á meðal er Sverris saga konumgs, meistaraverk að máli og talin auk þess sannfræðileg heimlid. Höfundur hennar er Karl Jónsson ábóti. Oddur munkur Snorrason á Þingeyrum (uppi á 12. öld) skráði Ólafs sögu Tryggvasonar. Ýmsar Íslendingasögur eru einnig taldar skráðar í Þingeyraklaustir. Klaustrið stóð allt til siðaskipta, árið 1550, rúmlega 400 ár. Frá því er sagt að er Auðun biskup rauði kom í vísitasíuferð í Þingeyraklaustur árið 1318 hafi klausturbræður tekið honum óvinsamlega, læst fyrir honum klaustri og kirkju og neitað að ræða við hann. Höfðu þeir og safnað að sér vopnuðu liði ef biskup ætlaði sér að beita valdi sem ekki varð.

Jón Espólín segir frá því að árið 1374 hafi Þorgautur hirðstjóri látið taka Einar Dint úr Þingeyraklaustri til fanga, "hann prófaðist morðingi síðan og var kviksettur, en það var þá venja um þá er myrtu menn" (Árbækur).

Í svartadauða eftir aldamótin 1400 lagðist klaustirð nær í eyði og er sagt að aðeins einn munkur hafi þá verið eftir í klaustrinu á Þingeyrum.

Talið er að enginn bær hafi verið jafn stór og vel hýstur sem Þingeyrar enda sátu þar auðmenn og höfðingjar öld fram af öld. Meðal höfðingja, sem sátu Þingeyrar, skal eftirfarandi getið. Jón Jónsson (1536-1606) lögmaður, mikill atkvæðamaður og þjóðhollur. Hann beitti sér fyrir ýmiss konar umbótum á högum landsmanna við konung. Gerði hann tilraun til að fá verslunarháttu lagfærða en á árangurs. Að hans undirlagi var lögbók Íslendinga, Jónsbók, prentuð á Hólum árið 1578.

Annar umbótamaður um landshagi, er sat Þingeyrar, var Lauritz Gottrup (1648-1721) lögmaður. Hann var talinn einn hinna merkustu útlendra fyrirmanna sem hér dvöldust á fyrri tíð. Var hann áhugasamur um landsmál og vildi láta gott af sér leiða enda urðu umbótatillögur hans Íslendingum til verulegra hagsbóta. Hann lét reisa allveglega timburkirkju á Þingeyrum árið 1695 og gaf til hennar ágæta gripi sem fyrr var getið. Sonur Lauritz var Jóhann Gottrup (um 1691-1755) sýslumaður er tók við Þingeyraklaustri árið 1731 en varð að sleppa því aftur sökum óreiðu og skulda. Jóhann átti lengsum í stöðugum deilum og málaferlum enda óeirinn talinn og ofsafenginn. Óhófsmaður var hann og eyddi öllum auði foreldra sinna, þannig að hann komst á vonarvöl og dó blásnauður.

Bjarni Halldórsson (1703-1773) sýslumaður bjó síðustu æviár sín á Þingeyrum, maður mikill fyrir sér, harðlyndur, mikillátur og héraðsríkur. Hann var lögvitur, hafði sjálfur samið lögbókarskýringar og enda þótt hann træði illsakir við ýmsa höfðingja og ætti í málaferlum við þá hafði hann í fullu tré við flesta samtíðarmenn sína. Sonur Bjarna, Páll Vídalín (1728-1759) stúdent, var námsmaður mikill og þótti frábærlega vel gefinn. Eftir hann hafa nokkrar bækur og ritlingar verið gefnir út á latínu. Auk þess orti hann á latínu og hafa sum kvæða hans verið prentuð.

Þorleifur Kortsson lögmaður bjó í rúma tvo áratugi, 1663-1685, á Þingeyrum. Hann var mjög aðsópsmikill í því að hafa hendur í hári galdramanna og fá þá brennda og eru heimildir fyrir því að einhverjir þeirra hafi verið brenndir heima á Þingeyrum.

Björn Magnússon Ólsen (1850-1919) prófessor fæddist að Þingeyrum. Hann var kunnur málvísindamaður og fyrsti rektor Háskóla Íslands. Eftir hann liggur fjöldi rita og ritgerða, auk þess sem hann sá um ýmsar fræðilegar útgáfur. Ennfremur fæddist Jón Eyþórsson (1895-1968) veðurfræðingur á Þingeyrum. Hann hefur öðrum Íslendingum fremur unnið að jöklamælingum og jöklarannsóknum. Eftir Jón liggja mörg merk ritverk. Legstaður hans er hið næsta kirkjuvegg á Þingeyrum.

(Landið þitt Ísland, Þorsteinn Jósepsson Steindór Steindórsson, 1980) og (Íslenska vegahandbókin 1998). 

 

Mitt á milli kirkjunnar og gamla kirkjustæðisins er sporöskjumyndað garðlag í túninu og kallast Lögrétta. Það er friðlýst og talið hinn forni þingstaður Húnvetninga.

(Vatndalur Hveravellir, Elsa Gunnarsdóttir Þuríður Helga Jónasdóttir, Leiðsöguskólinn Gönguleiðsögn vorið 2006)

Getum við bætt efni þessarar síðu?