Sveitarfélögin, Húnaþing vestra, Árneshreppur, Kaldrananeshreppur, Strandabyggð,  Blönduósbær,  Húnavatnshreppur,  Skagabyggð og Sveitarfélagið Skagaströnd, eiga saman Byggðasafn Húnvetninga og Strandamanna á Reykjum, Hrútafirði. Byggðasafnið er rekið af Húnaþingi vestra samkvæmt þjónustusamningi þar um.

Reykir

Á Byggðasafni Húnvetninga og Strandamanna er áhersla lögð á líf og störf fólks og síðari hluta 19. aldar og byrjun þeirrar 20.  Á safninu eru tvær sýningar í sitthvorum sýningarsalnum. Í fyrsta lagi er sýning hákarlaveiðar við Húnaflóa, en tímabil hákarlaveiðanna var merkilegt tímabil í atvinnusögu héraðanna við Húnaflóa. Þar má berja augum einn af lykilgripum safnsins, hákarlaskipið Ófeig frá Ófeigsfirði á Ströndum. Hann var byggður árið 1875 Farið er yfir söguskipsins, sem er eina skip sinnar tegundar sem varðveist hefur á Íslandi, sýndir eru gripir sem allir tengjast hákarlaveiðum á einhvern hátt, sagt er frá menningunni sem skapaðist í kring um veiðarnar og fleira.

Í stærri sýningarsal safnsins er áhersla lögð á íslenska sveitasamfélagið líkt og það var í kring um aldamótin 1900. Áhersla er lögð á efnismenningu þessa sveitasamfélags. Til sýnis eru þrjú hús úr héraðinu: Tungunesbærinn, stofa úr gamla bænum á Svínavatni og baðstofa frá Syðsta-Hvammi. Hægt er að fara inn í öll húsin, skoða þar munina í rólegheitum og jafnvel setjast niður og slaka á. Í stóra sýningarsalnum eru nokkrar afmarkaðar minni sýningar sem fjalla til dæmis um matargerð fyrr á tímum, sakamál úr Húnavatnssýslum, sögu kvenna og um Grænlandsdvöl Rannveigar H. Líndal á árunum 1921-1923 svo dæmi séu tekin.

Byggðasafn Húnvetninga og Strandamanna er staðsett á Reykjum í Hrútafirði í Húnaþingi vestra, tæpum kílómeter frá þjóðvegi eitt. Auk þess að bjóða upp á sýningar hefur byggðasafnið undanfarin ár haldið utanum safnakennslu fyrir Skólabúðirnar á Reykjum. Safnið kennir rúmlega 3000 grunnskólanemum á ári allsstaðar að af landinu. Kennt er þrisvar sinnum í viku yfir vetrartímann.  Safnið stendur einnig fyrir ýmsum öðrum uppákomum t.d. fyrirlestrum og námskeiðum.

Á Byggðasafni Húnvetninga og Strandamanna eru hákarlaveiðum við Húnaflóa gerð góð skil. Safnið er að hluta til byggt utan um hákarlaskipið Ófeig sem smíðaður var 1875 eingöngu úr rekaviði. Ófeigur er 11.9 m á lengd og 3.3 m á breidd. Hann bar 55 tunnur lifrar. Hákarlavertíðin stóð síðari hluta vetrar og var Ófeigur notaður til hákarlaveiða til ársins 1915, alls 33 vertíðir. Frá 1915 til 1933 var hann hafður til viðarflutninga.

Sjá vef Byggðasafnsins á Reykjum

Getum við bætt efni þessarar síðu?