Árið 2023 var fyrsta heila rekstrarárið í nýju sveitarfélagi og því spennandi að sjá hvernig árið mundi ganga og hvernig það kæmi út. Það er óhætt að segja að við höfum náð að vinna ákveðinn varnarsigur í mjög óhagstæðu og erfiðu ytra rekstrarumhverfi með háu vaxtastigi og hárri verðbólgu. Húnabyggð er skuldugt sveitarfélag og því bíta ár með hárri verðbólgu og vöxtum sérstaklega illa í fjárhaginn. Gróft reiknað þá hækkaði kostnaður vegna verðbóta um 100 milljónir bara á árinu sem er að líða ofan á þær hækkanir á árunum þar á undan og það munar um minna. Ljóst er að rekstur síðasta árs mun skila tapi en engu að síður varnarsigur þrátt fyrir allt.

Það væri til að æra óstöðugan að fara yfir fjárhagsstöðuna í smáatriðum hér en stutta sagan er að sveitarfélagið skuldar það mikið að hagnaðurinn af grunnrekstrinum nær ekki að dekka fjármagnsgjöld og fjárfestingar. Það er ágætis EBITDA á grunnrekstrinum eða um 12% miðað við útgönguspá en það dugar skammt í árferði eins og núna þar sem afborganir af lánum eru í hæðstu hæðum og fjármangsgjöldin éta upp hagnaðinn og gott betur en það. Við þurfum því að breyta hlutunum hjá okkur og ná að búa til þá stöðu að óháð árferði náum við að búa til það mikinn hagnað úr grunnrekstrinum að við getum framkvæmt án mikillar lántöku. Þannig náum við að flytja sveitarfélagið áfram inn í sjálfbæran vöxt og búum þannig til spennandi framtíð fyrir komandi kynslóðir.

Við gerum ráð fyrir 33 milljóna hagnaði á þessu ári og sjáum reyndar fram á að geta skilað hagnaði næstu þrjú ár miðað við þær forsendur sem við erum búin að setja upp. Það er að sjálfsögðu jákvætt en rétt að benda á að ytri aðstæður þurfa ekki að sveiflast mikið í neikvæða átt til að breyta þeim forsendum sem settar eru upp. Við ráðum ekki við þessi ytri skilyrði en þessar spár gera einnig ráð fyrir að sveitarfélagið sýni mikið aðhald í rekstri, finni leiðir til kostnaðarminnkunar og tekjuaukningar sem og að eignir verði seldar. Við eigum ennþá of mikið af fasteignum og öðrum eignum sem samræmast ekki beint tilgangi þess að reka sveitarfélag og við verðum að losa um eitthvað af þessum eignum.

Það er gríðarlega mikilvægt að geta spilað vörn og sókn á sama tíma og því erum við ekki að skrúfa niður allan kostnað til þess að bæta reksturinn. Á þessu ári er áætlað að fjárfestingar verði rúmlega 300 milljónir sem sýnir vilja okkar til að sækja fram. Fjárfestingar okkar byggja að miklu leiti á lántöku og eins og áður segir erum við skuldsett og verkefni dagsins er að finna leiðir til að vaxa án þess að vera eingöngu háð lántöku. Flest sveitarfélög eru mjög skuldsett og það er dýrt að byggja upp nauðsynlega innviði. Við verðum t.d. að byggja nýjan leikskóla sem fyrst og það er stór áskorun fyrir ekki stærra sveitarfélag með þann fjáhag sem við höfum.

Helstu lykiltölur úr fjáhagsáætluninni eru:

  • Fjárhagsáætlun 2024 gerir ráð fyrir að rekstur A og B hluta verði jákvæður um 268 milljónir fyrir fjármagnsliði.
  • Fjármagnsliðir eru áætlaðir 235 milljónir á árinu 2024.
  • Fjárhagsáætlun 2024 gerir ráð fyrir að rekstrarniðurstaða A og B hluta verði jákvæð um 33 milljónir.
  • Veltufé frá rekstri A og B hluta er áætlað um 299 milljónir á árinu 2024. Gert er ráð fyrir að veltufé frá rekstri á árinu 2023 verði um 202 milljónir sam­kvæmt útkomuspá.
  • Fjárfestingar A og B hluta eru áætlaðar um 327 milljónir króna á árinu 2024.
  • Gert er ráð fyrir lántöku að fjárhæð 300 milljónir á árinu 2024, en af­borganir langtímalána verði 291,5 milljónir króna. Langtímaskuldir munu hækka um 184,2 milljónir á milli ára.
  • Laun og launatengd gjöld 2024 eru áætluð 1.382 milljónir, útkomuspá 2023 gerir ráð fyrir 1.283 milljónum.

Það hefur kostað mikla orku og í raun blóð, svita og tár að ná almennilega utan um fjáhag sveitarfélagsins eftir sameininguna. Við erum loksins komin á þann stað að við getum sagt að heildaryfirsýnin er nokkuð góð. Við höfum unnið að því á síðasta ári að innleiða verkalag þar sem sveitarfélagið er gert upp mánaðarlega. Þetta er að hafast og gjörbreytir þeim möguleikum sem við höfum til að taka réttar ákvarðanir á réttum tíma. Þetta mun einnig þýða að okkur ætti að takast að skila ársreikningi fyrir árið 2023 mun fyrr en áður hefur verið gert.

Það er engum íbúa sveitarfélagsins til hagsbóta að sveitarfélaginu gangi illa og/eða að það sé illa statt fjárhagslega. Þetta er staðreynd sem vert er að minna fólk á í hita leiksins þegar fólk veltir fyrir sér hvað sé eiginlega að gerast á skrifstofunni. Ef sveitarfélaginu gengur illa bitnar það á öllum, það er því sameiginlegt verkefni okkar allra að moka okkur í gegnum þennan skafl. Ég hef skilning á því að fólk velti fyrir sér sumum þeim ákvörðunum sem teknar hafa verið á síðasta ári en stundum þarf að tipla á bremsurnar þegar verið er að forgangsraða takmörkuðum fjármunum. Fólk verður líka að treysta því að ákvaðarnir um fjárútlát sveitarfélagsins eru ekki geðþóttaákvarðanir teknar í tómarúmi heldur mat þeirra sem bera ábyrgð á því að hagsmunir sveitarfélagsins gangi fyrir á hverjum tíma fyrir sig.

Það eru að mínu mati mjög margir möguleikar þegar kemur að fjáhag sveitarfélagsins. Kostnaður verður til á mörgum stöðum enda starfsemin fjölþætt og flókin og aðgerðir til betri stýringar á kostnaði eru hér margar eins og reyndar í öllum fyrirtækjum. Það sama á við um tekjur, þær koma úr mörgum áttum og eru fjölþættar. Það eru líka tekjustraumar sem eru ónýttir og það er ekki ábyrgt að horfa fram hjá því miðað við stöðu sveitarfélagsins. Við erum að hækka gjaldskrár almennt um 10% sem er töluvert og nú heyrast raddir um að sveitarfélög eigi að fara varlega í slíkar hækkanir. Það er mikilvægt í þessu samhengi að fólk átti sig á því að hækkanir á gjaldskrám hér þýða ekki að hér sé dýrast að búa, alls ekki. Það skiptir að sjálfsögðu öllu máli í þessu samhengi hvaða tölur er verið að hækka og þann samanburð stöndumst við vel miðað við önnur sveitarfélög. Það má t.d. benda á að óformlegur samanburður á leikskólagjöldum 14 sveitarfélaga (Stykkishólmur, Skagafjörður, Grundarfjörður, Borgarbyggð, Ísafjörður, Dalvík, Akureyri, Norðurþing, Múlaþing, Hornafjörður, Árborg, Reykjanesbær og Mosfellsbær) sýnir að Húnabyggð er með lægsta heildarkostnað (dagvistundargjöld og fæðiskostnaður) upp á 22.420kr. sem er helmingi minna en þar sem verðið er hæðst. Hér segir því hækkun í prósentum ekki alla söguna.

Það sama á við um fasteignagjöld en Húnabyggð nýtir í flestum tilfellum þann gjaldstofn til fulls sem ekki öll sveitarfélög gera. Það verður samt að muna þegar þetta er rætt að flest þau sveitarfélög sem nýta ekki þennan gjaldstofn að fullu eru mun stærri en við og eru á þannig markaðssvæði að þau selja lóðir sem ekki er gert hér. Það er ekki óalgengt að lóðir kosti 20-40 milljónir á höfuðborgarsvæðinu og þá er ekki búið að gera neitt. Fasteignir eru líka eins og við vitum mun ódýrari hér en annarsstaðar og þótt laun séu að meðaltali lægri á okkar svæði þá leyfi ég mér að efast um að það halli mikið á fólk hér hvað þennan samanburð varðar. Hækkun gjaldskráa sorphirðu eru enn hærri en almennar hækkanir og hér þarf að hafa í huga að sveitarfélögum er samkvæmt lögum óheimilt að niðurgreiða sorphirðu. Við ákváðum að gera þetta í skrefum og því eru hækkanir í sorphirðu hærri en aðrar hækkanir en gerast á nokkrum árum í stað þess að koma í einni hækkun.

Það eru margir sem reyða sig á umsvif sveitarfélagsins og því ekki gott ef seglin eru dregin saman, enda er það ekki ætlun okkar þvert á móti. Það skiptir líka máli að þessum umsvifum sé vel stýrt og að kostnaði og gæðum sé stýrt af festu. Það er sérstakt viðhorf að mínu mati að sveitarfélagið sé verkkaupi sem borgi alla reikninga möglunarlaust og að kostnaður og/eða gæði séu ekki í forgrunni. Ef eitthvað ætti sveitarfélagið að vera kröfuharðari en almennt gerist þar sem við höndlum með almannafé, peningana ykkar. Það að eitthvað sé gefins og eða sjálfsagt þegar kemur að þessu bitnar bara á íbúum sveitarfélagsins. Ég tek því hlutverki alvarlega að verja hagsmuni ykkar og tel að séu hagsmunir sveitarfélagins varðir af festu leggi það stoðir undir sjálfbærni þess til lengri tíma litið. Þetta þýðir ekki að við séum ósveigjanleg í samningum eða óviljug til að greiða götu þeirra sem hér vilja byggja upp starfsemi o.s.frv., alls ekki. En viðskiptahugmyndir einkaframtaksins þurfa að vera sjálfbærar og krefjist þær stöðugrar eftirgjafar eða aðstoðar opinberra aðila eru það ekki góðar viðskiptahugmyndir.

Orkumálin eru ennþá stærsta hagsmunamál sveitarfélagsins og útkoman úr þeim breytingatillögum sem nú liggja hjá nefnd á vegum fjármálaráðuneytisins munu ráða miklu um fjárhagslega framtíð okkar. Það er sérstakt að sjá að nú er búið að slá þann tón að sveitarfélög séu að hindra orkuuppyggingu í landinu. Það er allavega alveg kýrskýrt að það eru ekki orkusveitarfélög sem hafa í gegnum tíðina tafið slíka uppbyggingu. Þetta er marglaga vandamál sem nú er uppi og þáttur yfirvalda og orkufyrirtækja í þeirra eigu er stærstur þar sama hvað hver segir. Það er t.d. ljóst að búið er að yfirselja orku úr núverandi kerfi sem er því ekki lengur sjálfbært. Það er ekki tíðarfari um að kenna að Þórisvatn hefur lága vatnsstöðu það er einfaldlega bara ekki þannig. Við heimamenn þurfum líka að líta í eigin barm hvað orkumál varðar og hugsa vel hvort að núverandi skipulag svæðis okkar sé til þess fallið að verja framtíðarhagsmuni orkumála á svæðinu? Það tel ég ekki og nýleg dæmi um orkuskerðingar til gagnaversins hér sýna að orkuaðgengi til atvinnuuppbyggingar hér er brothætt og landeigendur sem semja við orkufyrirtæki um uppbyggingu þeirra bera mikla ábyrgð í þessum málum.

Þetta ár mun verða litað af því að við þurfum að bora ofan í gögnin og skilja betur hvernig kostnaður og tekjur verða til og eru sett saman. Stækkunarglerin verða tekin upp og allir hvattir til að sýna ráðdeild og skynsemi í rekstri sveitarfélagsins sem er mjög mikilvægt. Þetta er að mínu mati ekki leiðinlegt eða neikvætt verkefni, þvert á móti, það er skemmtilegt og hvetjandi að nýtja fjármunina betur og koma þeim í virkni þar sem mest þarf á þeim að halda. Þetta verður vissulega krefjandi og erfitt verkefni en aldrei leiðinlegt. Að sama skapi verður við leitandi logandi ljósi að tækifærum til vaxtar, þar er búið að henda allskonar hráefnum í pottinn og eins og ég hef áður sagt þá mun suðan koma upp. Það er bara spurning hvar og hvenær.

Eins og áður sagði viljum við ekki bara vera í vörn heldur sækja og á árinu verða umtalsverðar framkvæmdir. Lang stærsti hluti þessara framkvæmda snúa að grunninnviðum sem gagnast flestum ef ekki öllum þ.e. framkvæmdum tengdum grunn- og leikskóla, íþróttahúsi, fráveitu o.s.frv. Eðli málsins samkvæmt er stærstur hluti fjárfestinga í þéttbýli sveitarfélagsins. Það má ekki horfa á það þannig að það halli á dreifbýlið af þeim sökum, sveitarfélagið er ein heild og grunninnviðir eru fyrir alla íbúa sveitarfélagsins óháð því hvar þeir búa. Verði af sameiningu við Skagabyggð á árinu stækkar sveitarfélagið umtalsvert og dreifbýlið verður mun stærra. Það verður áhugaverð og skemmtileg áskorun ef af verður en ég trúi að sameiginlegir hagsmunir fólksins hér á svæðinu séu það afgerandi að við stöndum tryggari fótum sameinuð.

Það er jákvæð undiralda í sveitarfélaginu þegar kemur að atvinnuuppbyggingu og nýtingu tækifæra. Það er að mörgu leiti allt til alls til að ná árangri og fókus á smáatriði og atriði sem deila má um meiga ekki verða til þess að ala á neikvæðni og við/þið menningu sem gagnast engum og allra síst framtíð sveitarfélagsins. Það má með smá bjartsýni segja að búið sé að beisla klárinn og nú sé þetta spurning um að fara í alvöru grunntamningu þannig að í framhaldinu megi gefa klárnum lausan tauminn inn í framtíðina.

 

Með kveðju

Pétur Arason

sveitarstjóri

Getum við bætt efni þessarar síðu?