Dagskrá hátíðarinnar og ýmsar upplýsingar  má finna á www.textilmidstod.is

Allar upplýsingar er einnig að finna á facebooksíðu Prjónagleðinnar hér

Dagskráin er að venju mjög fjölbreytt og áhugaverð og mikill áhugi og meðbyr er með hátíðinni.

Danska prjónakonan og hönnuðurinn Lene Holme Samsøe verður gestur hátíðarinnar að þessu sinni. Hún mun setja svip sinn á hátíðina þar sem hún kennir á nokkrum námskeiðum, verður með vinnustofu fyrir sætaferðakonur, fyrirlestur á opnunarkvöldinu og áritar bækur sínar á Garntorginu.

Námskeiðin eru hryggjarstykkið í Prjónagleðinni og þau eru að seljast eins og heitar lummur. Uppselt er á þau mörg, en þó má enn finna laus pláss fyrir áhugasama. Námskeiðin verða alls konar; m.a. í prjóni, hekli, tufting, orkeringu og spuna. Í fyrsta sinn verða á námskeið í TextílLabi Textílmiðstöðvarinnar, bæði í tufting sem og á stafrænu prjónavélina Kniterate sem er sú eina sinnar tegundar á Íslandi.

Boðið verður upp á nokkra fyrirlestra t.d. um lettneskar vettlingahefðir og svo mun textíllistakonan Tinna Þórudóttir Þorvaldar fjalla um litina og lífið í sínum fyrirlestri.

Textílmiðstöðin ætlar í samstafi við Pétur Oddberg Heimisson sem stundum er kallaður Prjóna Pétur að halda viðburð sem heitir Karlar prjóna. Þar gefst körlum kostur á að koma og fá leiðsögn og kennslu í prjónaskap hjá Pétri sem er reynslumikill prjónari. Viðburðurinn verður haldinn á Hótel Blönduósi. Allir karlmenn sem eiga þann draum að læra að prjóna eða rifja upp handtökin sem þeir lærðu í grunnskóla eru hvattir til að bretta upp ermarnar og mæta. Það verða prjónar og garn á staðnum og það kostar ekkert inn á viðburðinn.

Garntorg Prjónagleðinnar fer fram í Íþróttamiðstöðinni. Þar munu yfir 20 aðilar selja vörur sínar, garn og allt sem prjónaskap tilheyrir. Áskaffi góðgæti mun selja veitingar á Garntorginu og þar verður mjög stórt og huggulegt svæði þar sem hægt verður að setjast með prjónana í rólegheitunum, spjalla og fylgjast með mannlífinu á torginu. Ýmsar sýningar verða á Garntorginu, m.a. verða þau verk sem bárust í hönnunar – og prjónasamkeppni hátíðarinnar til sýnis auk sýningar á lettneskum vettlingum, prjónaskap Höllu Ármannsdóttur og ævintýralegum hekluðum búningum. Á Garntorginu verður einnig tóvinnusvæði og er spunafólk hvatt til að mæta með rokkana sína, snælur og kamba og leyfa gestum og gangandi að fylgjast með tóvinnunni.

Opnunartímar á Garntorginu:

Föstudagur 9.júní kl. 16-19

Laugardagur 10.júní kl. 11-18

Sunnudagur 11.júní kl. 10-14

 

Að þessu sinni gefst gestum einnig kostur á að grípa í að sauma í Vatnsdælurefilinn í Kvennaskólanum og að kynna sér starfsemi TextílLabs Textílmiðstöðvarinnar. Prjónamessan er orðin fastur liður á Prjónagleðinni sem og prjónagangan og opið hús í Ullarþvottastöð Ístex.

 

Það verður sem sagt nóg um að vera alla helgina.

Getum við bætt efni þessarar síðu?