Það stundum sagt að mikið sé að gera á stórum heimilium og það má svo sem til sanns vegar færa með sveitarfélagið að þetta ár hefur verið ansi annasamt. Hvort að þetta sé stórt heimili er síðan spurning um hvað miðað er við. En þó við séum ekki mörg erum við víðfemt sveitarfélag og það er í mörg horn að líta svo mikið er víst.

Í einhver horn hef ég náð að líta á þessu ári en á mikið eftir og ég hlakka til að sjá meira. Ég fór í fyrsta sinn fram að Hveravöllum nýlega og sá að það er svæði sem ég þarf að skoða mun betur. Ekki það að ég hef komið nokkuð oft upp á Auðkúluheiði, bæði upp á palli á fjárbíl í gamla daga og í seinni tíð til að ganga til rjúpna. En einhvernveginn hef ég ekki oft farið lengra en að Seyðisá, sem er fögur séð af brúnni eins og við vitum. En það er gríðarlega fallegt á Hveravöllum og svæðið spennandi. Þaðan ókum við yfir Krákshraun en ég verð að viðurkenna að ég áttaði mig ekki á því að það væru svona stórar hraunbreiður í sveitarfélaginu okkar. Þetta var ekki síður magnað að skoða og gígurinn við Krák er stókostlegur og þarna eru svæði sem mig langar að skoða mun betur.

Eins fólk eflaust man þá voru ansi langir frostakaflarnir í byrjun árs en það þýddi að hægt var að nýta sér það til útivistar. Við hjónin fórum ansi oft upp á Hólmavatn í Vatnahverfi og gengum þar á gönguskíðum hringinn á frosnu vatninu. Ég sé að það eru aðrir sem þetta gera en samt ekki margir og engir krakkar eru að leik á frosnu vatninu. Stundum sér maður ekki möguleikana þegar þeir eru við hliðina á manni en Vatnahverfið er frábært útivistarsvæði ekki síst á veturna og þar er ýmislegt hægt að gera. Eins fórum við töluvert í Tindastólinn á skíði bæði svigskíði og gönguskíði. Tindastóll er ekki nema hálftíma frá Blönduósi og ég er lengur upp í Bláfjöll frá Kópavogi. Ég ætla að reyna að vera duglegri í vetur að kanna möguleika svæðisins, hef t.d. alltaf langað að fara á gönguskíðum í gegnum Laxárdalinn og nú er komin nægur snjór að minnsta kosti. Ég sé stórt tækifæri í vetrarútivist fyrir okkur hér á svæðinu. Það er stutt og þægilegt fyrir fólk að sunnan að koma hingað á skíði. Með meiri uppbyggingu veitinga- og gistimöguleika hér opnast á tækifæri til að byggja upp þjónustu við vetrarútivist.

Í sumar fór ég í nokkrar styttri hestaferðir og þar sannaðist fyrir mér hversu fallegt sveitarfélagið er. Fór t.d. um Svínadal og var sögð sagan af því þegar fyrir all mörgum árum þá ungur drengur, sem er svolítið mikið skyldur mér, benti á styttu við Geithamra og sagði „Þarna er stytta af fyrsta geðsjúklinginum“. Í einum reiðtúrnum náði ég ekki langt því ég fékk svo slæmt þursabit þegar ég var að leggja á eftir fyrsta áfangann að ég varð að hætta og fara heim í bæ þrátt fyrir ítrekarð tilraunir góðs fólks til að nudda mig í gang aftur. Í þeim túr var farið yfir Húnavatn og ég missti af því og var ekki sáttur, en sem betur fer fékk ég annað tækifæri nokkru seinna og náði að upplifa það. Það er óhætt að segja að reiðleiðir hér í sveitarfélaginu okkar séu margar, góðar og fjölbreyttar. Til dæmis er reið yfir Hópið sennilega, af öðrum reiðleiðum ólöstuðum, fallegasta reiðleið á Íslandi og á einhvern hátt dulmögnuð lífsreynsla. Hér sitjum við á gullkistu hvað tækifæri varðar.

Í sumar vorum við að vinna töluvert í Vatnsdalnum, það var búinn til stigi sem fékk nafnið Himnastiginn og vakti mikla athygli og ferðamenn nota stigann mikið. Vatnsdalurinn er dæmi um svæði með endalausa möguleika og það eru áhugaverðir staðir að því er virðist við hvert fótmál. Ég gekk upp á Jörundarfellið í fyrsta skipti á árinu. Það var nokkuð löng ganga en ég byrjaði frá Hjallalandi og gekk upp á hjallana og upp á það til móts við Mosaskarð og þaðan norður aftur og upp á Jörundarfell. Það var ægifagurt upp á hátindinum, heiðskýrt og ég sá svo langt sem augað eygði í allar áttir. Er ekki sagan að maður sjái í sjö sýslur frá Jörundarfelli? Sjö sýslur eða ekki, þetta var magnað og ég kom þreyttur og ánægður heim að þessu loknu. Seinna á árinu gekk ég upp á fjallið frá Hofi, upp með Grjótá og á Sandfell. Það staðfestist hér með að það er bæði fallegt og bratt að ganga á fjöllin í Vatnsdal.

Í lok sumars prófuðum við að halda smá viðburð í Þórdísarlundi, veðrið lék ekki alveg við okkur en það helliringdi á meðan að dagskráin stóð yfir. En mjór er mikils vísir og við vorum t.d. að prófa í fyrsta skipti að skipuleggja útihlaup á svæðinu. Nokkuð margir mættu miðað við að þetta var varla auglýst og við bindum vonir við að fleiri verði með á næsta ári. Enn og aftur, svæðið okkar hentar vel til allrar útivistar og það á sannarlega við um fólk sem hefur gaman af því að ganga, hlaupa og/eða hjóla út í náttúrunni. Hér er ímyndunaraflið eina hindrunin í því að skipuleggja eitthvað sem gestir væru tilbúnir til að heimsækja og upplifa með okkur.

Ég fór í tvennar fjárgöngur og einar stóðgöngur í haust og það var virkilega gaman. Þetta er frábær leið til að kynnast landinu og fólkinu sem hér býr. Fyrstu göngurnar sem ég fór í voru fram á Grímstunguheiði þar sem ég var með í síðasta deginum þegar féð er rekið niður heiðina og í hólf við Grímstungu. Daginn eftir smöluðum við fénu í Undirfellsrétt og réttað var í góðu veðri fram eftir degi. Síðan fór ég í dagsgöngur þar sem byrjað var upp á Þverárfjalli og þaðan rekið yfir Járnhryggi, niður Ambáttardal, Hvammshlíðardal og komið niður við Þverá. Það var frekar napurt og kalt þennan dag en skemmtilegt engu að síður. Að lokum fór ég eins og við fjölskyldan höfum reyndar gert í mörg ár í stóðgöngur á Laxárdal. Þetta er mjög skemmtileg reið og þó hrossum hafi fækkað mikið virðist mannfólkinu fjölga og maður er manns gaman. Ég hlakka til að taka þátt í þessu næsta haust og þá mun ég prófa eitthvað nýtt sem ég hef ekki prófað áður. Ég hef sagt það við bændur að ég telji að þessir „viðburðir“ sem göngur og réttir sannarlega eru, eru tækifæri til sóknar. Ég veit að það er til fólk sem mundi borga með bros á vör til að fá að upplifa eitthvað af þessu eða hluta þess. Auðvitað þarf að hugsa þetta eins og annað og ég rak mig á það sjálfur í haust að þú sendir ekki hvern sem er í göngur. En það þarf að finna viðskiptavinkilinn á þessu, því hann er þarna ef fólk hefur áhuga á því að finna og nýta sér hann.

Við höfum reynt að byggja ofan á þá menningarviðburði sem við höfum nú þegar eins og Húnavökuna og Prjónagleðina og eins höfum við reynt að skapa fleiri slíka eins og áðurnefndan Vatnsdalsviðburð. Einkaaðilar hafa einnig verið duglegir við að prófa sig áfram með viðburði og heilt yfir var árið fullt af allskonar spennandi og mismunandi viðburðum bæði stórum og smáum. Það er gríðarlega mikilvægt þegar byggja á upp sterkt samfélag að menningarlífið sé einnig sterkt og fjölbreytt. Áður en ég fór í jólafrí fór ég á tónleika í bíósalnum í félagsheimilinu með Jólahúnum. Þetta voru í einu orði sagt frábærir tónleikar. Það var einhvernveginn allt sem virkaði, allir þátttakendur stóðu sig afburðavel, salurinn var troðfullur af fólki og stemningin var frábær. Það er greinilega nóg af hæfileikum í Húnabyggð. Ég var upp á svölunum og sat þar ásamt öðrum sem höfðu á orði að hafa ekki setið þarna síðan að þau voru krakkar. Það er að mínu viti mjög mikilvægt að við ölum kynslóðirnar okkar upp þannig að við komum sem oftast saman til að upplifa. Upplifa hlátur, grátur, spennu, drama, hátíðleik, gleði o.s.frv. saman. Það sýndi sig þarna að það þarf ekki endilega að leita langt yfir skammt til að búa til slíka upplifun. Þetta var fyrir mig magnaður endir á mögnuðu ári. Ári sem var vissulega mjög annasamt og á köflum erfitt og stundum óþolandi erfitt en sólin á lögheimili í Húnabyggð, þannig að það styttir alltaf upp um síðir.

Þrátt fyrir erfiðar ytri aðstæður með háum vöxtum og verðbólgu þá ríkir þrátt fyrir allt bjartsýni í Húnabyggð og framkvæmdir fólks á árinu bera því gott vitni. Það er uppbygging á svæðinu, knattspyruliðið fór upp um deild og þetta er stöngin inn hjá okkur eins staðan er í dag.

Megi árið sem er að líða vera vísir þess sem koma skal, það bullar allt og kraumar í tækifærapottinum okkar og bráðum kemur blessuð suðan upp.

Ég óska öllum íbúum Húnabyggðar gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári, hafið það sem allra bezt yfir hátíðarnar.

Með góðri kveðju,

Pétur Arason

Getum við bætt efni þessarar síðu?