Um leið og ég óska öllum íbúum Húnabyggðar gleðilegrar þjóðhátíðar minni ég á að þetta var að sjálfsögðu sérstakur þjóðhátíðardagur í okkar sögu því þetta er fyrsti þjóðhátíðardagur sameinaðs sveitarfélags, Húnabyggðar.

Kallar það ekki á „Hæ hó og Jibbý jei?“, það hefði ég haldið enda hálft ár til jóla og ég um það bil að fara að lesa upp ljóð eftir löngu dauðann kall. Þetta sígilda lag Upplyftingar (hæ hó jibbí jei) nær á mjög svo íslenskan hátt að ramma inn stemninguna á þjóðhátíðardaginn sem snýst ekki hvað síst um blöðrur, pylsur, lúðraþyt og veðrið að sjálfssögðu sem eins og alltaf ræður mestu.

En um okkar sveitarfélag blása ferskir vindar um þessar mundir vil ég leyfa mér að fullyrða. Hér er alltaf sól eins og við vitum og Tóbías okkar í turninum minnir okkur á á hverjum degi. Það er erfitt að setja mælikvarða á þetta meinta sólskyn í Húnabyggð, því það er að mínu mati ómetanlegt. Þetta sífellda jákvæðnipot er til háborinnar fyrirmyndar og að sjálfsögðu eigum við öll að taka það okkur til fyrirmyndar og eftirbreytni, því eins Bastín segir „að lifa í friði langar jú alla til, ekki satt?“.

Jákvæðni smitar út frá sér, eitt bros getur dimmu í dagsljós breytt og þegar maður er jákvæður þá áður en maður veit af sér maður jákvæða hluti í kringum sig. Einhver að reisa nýtt hús, eða að taka í gegn gamalt hús, gera fínt í kringum húsið sitt eða að laga þak. Svo er alltaf einhver að keyra með steypubrot upp á Skúlahorn (vandlega falin í garðaúrgangi). Það að vera að horfa í kringum sig og sjá það sem vel er gert og hrósa fólki fyrir það er listform sem fæst okkar eru snillingar í (sbr. að ég gat ekki látið vera með að láta smá kaldhæðni fylgja með í síðustu setningu).

Þarna eigum við öll mikið inni og ég held að við verðum að hjálpast að í þessu, þetta er eitt af stóru verkefnunum okkar í því að vera sameinuð í einu sterku samfélagi. Samfélagi þar sem fólki líður vel, þar sem það er pláss fyrir alla og allir fá að njóta sín. Þurfum alls ekki öll að vera sammála en við verðum að vera samtaka í að flytja samfélagið okkar áfram þannig að það verði enn betra fyrir börnin okkar og börnin þeirra.

Við eigum auðvitað öll að vera sammála um að búa til sterkara, skemmtilegra, fjölbreyttara, sveigjanlegra og hamingjusamara samfélag þó að við mögulega greinum á um leiðirnar að því markmiði. En markmiðið á að vera skýrt og við eigum alltaf að muna að hjálpa hvert öðru á þessari vegferð. Ef nágrannanum mínum gengur vel þá gengur mér líka vel, við erum alltaf sterkari saman en í sundur.

Það hefur töluvert veri rætt um hamingjuna hér á svæðinu og þau tíu ykkar sem mættu á íbúafund um það mál fyrir um tveimur vikum í Félagsheimilinu á Blönduósi vita allt um það. Þar var fræðimaður að velta fyrir sér af hverju hamingjan ætti frekar undir höggi að sækja hér en hjá nágrönnum okkar fyrir vestan Gljúfrá. Þar voru margar áhugaverðar mögulegar ástæður eins og að þau hafa verið sameinuð í meira en 20 ár, samfélag kvenfólks þar virðist sterkara og menningarlífið blómlegra. Eitt sem fræðimaðurinn talaði um vakti sérstaka athygli mína en hann talaði um að hér á svæðinu væru ýmis merki um flokkadrætti (getur verið ýmiskonar en t.d. birst í flokkapólitík) en er almennt þessi við/þið hugsun, þar sem maður setur fólk í ákveðin box og skilgreinir sjálfan sig á annan hátt eða í öðru boxi. Síðan kom enn áhugaverðari útlistun á þessu sem var sú að ein af ástæðunum væri mögulega sú staðreynd að hér var Kvennaskóli á sínum tíma og hvað gerðu ungir drengir á þeim tíma til að vekja á sér athygli? Það var ekki að dansa einhvern endurtekin skrítin dans og setja hann á TikTok, nei það var að kaupa sér kagga og koma á honum stífbónuðum fyrir utan Kvennaskólann. Sá sem átti flottasta kaggann var líklegastur til að fylla bílinn af föngulegu kvenfólki. Hér er mögulega komin rót vandans, öfund út í náungann? Áhugaverð tilgáta fræðimanns svo ekki sé meira sagt. Ég hlustaði síðan á mjög áhugavert útvarpsviðtal frá 1967 við gamla sveitarhöfðingja úr Vatnsdal þar sem menn eins og t.d. Lárus í Grímstungu, Grímur í Saurbæ, Gísli á Hofi, Guðmundur og Jón í Ási voru teknir tali. Þar var borin upp spurning af útvarpsmanni hvort að enn væru Vatnsdælingar þekktir fyrir að vera smákóngar? Ekki vildi viðmælandinn nota orðið smákóngar en tók fram að nú væru menn að jafnaði vel settir, allir ættu nóg fyrir sig og að engin ástæða væri lengur til að öfundast hver út í annan. Í þessu var einhver fallegur sannleikur þ.e. að þegar allt kemur til alls þá höfum við það gott og því engin ástæða til að öfundast við neinn.

Ég held að menning sé einn af lyklunum í því að við getum búið til gott samfélag og þess vegna fagna ég því sérstaklega að leikfélagið hafi eftir níu ára hlé sýnt á þessu ári. Þetta eru í raun risastórar fréttir og ég bind miklar vonir við að þau nái að halda dampi og keyra eitthvað skemmtilegt í gang fyrir okkur á nýju leikári. Þið munið mörg eftir hvernig þetta var fyrir ekki svo mörgum árum, fólk var í Kiwanis, JC, kvenfélögum og allskonar sjálfboðavinnu í þágu samfélagsins. Nú eru breyttir tíma við höfum öll einhvernvegin minni tíma til að vera saman og hjálpa hvert öðru. Ég held að það sé ekki síst í þeim augnablikum sem við hlægjum saman, grátum saman, gleðjumst saman sem við myndum þessi sterku tengsl sem aftur styrkir samfélagið sem við lifum í. Þegar við sjáum að þrátt fyrir að vera ósammála um ýmsa hluti að við hlægjum að sömu bröndurunum, þá sjáum við að við erum saman í þessu ferðalagi.

Þessir fersku vindar sem ég minntist á áðan eru bæði hlýjir og sterkir þessa stundina. Þið sjáið öll uppbygginguna í gamla bænum, nýsköpunarfyrirtæki eru að opna, nýtt róbótafjós í burðarliðnum, nýr leikskóli er á teikniborðinu, aðilar hafa sýnt áhuga á því að búa til íbúðarúrræði fyrir aldraða, nýtt úrræði fyrir fólk með fötlun verður byggt á næstu misserum, við erum að leggja okkar lóð á vogarskálarnar að orkulögum verði breytt, við erum að hugsa algjöra nýsköpun í úrgangsmálum og að skoða möguleika á grænum iðngarði, við erum í viðræðum við aðlia um að byggja hér upp í ferðamannaiðnaði, von er á nokkrum hleðslustöðvum o.fl. o.fl.

Ég vildi að ég gæti lofað ykkur malbiki á flugvöllinn og heitu vatni en ég get það ekki. Ég treysti mér til að gera allt til að hjálpa ykkur með heita vatnið, en treysti á hjálp með flugvöllinn.

Kæru íbúar Húnabyggðar, ég er stolltur íbúi þessa sveitarfélags og þessa samfélags og veit að þið eruð það líka. Stollt er gott, það er ekki það sama og dramb, en við eigum öll að vera út með kassann og bjartsýn það er engin ástæða til annars. Ég hef sagt að það eigi t.d. allir að þekkja lambakjötið úr Húnabyggð og það á að vera nokkurra ára biðlisti eftir því. Að sama skapi á að vera biðlisti eftir jakkafötum úr Húnabyggðartweeti. Við erum með þetta allt fyrir framan okkur, hjálpum hvert öðru að græja þetta, hjálpum þeim sem vilja sýna frumkvæði að gera eitthvað, deilum hugmyndum, reynslu, þekkingu.

Það rignir stundum og blæs, stundum er kafaldsbylur, nýstingskuldi, svartnætti og myrkur. En það kemur alltaf ljós, það styttir alltaf upp um síðir. Munum að brosa, hrósa og hjálpa hvert öðru, það kostar ekki neitt!

Það vantar mögulega malbik á flugvöllinn, heitt vatn og aðra smáhluti en eitt höfum við sem ekki er hægt að taka frá okkur og það er hugvitið. Af því eigum við nóg og nú tökum við höndum saman og virkjum hugvitið, sem er hin eiginlega virkjun Húnabyggðar.

Og í guðanabænum gleymum aldrei að hafa gaman að þessu á meðan við erum að græja þetta saman.

Ég vil enda þetta á því að segja Hæ Hó og Jíbbý Jei það er kominn 17. júní, gleðilega þjóðhátíð og eigið frábæran dag!

 

Með kveðju

Pétur Arason

Sveitarstjóri Húnabyggðar

Getum við bætt efni þessarar síðu?