Frá vinstri: Haraldur Þór Jónsson oddviti sveitarstjórnar og sveitarstjóri Skeiða- og Gnúpverjahrepp…
Frá vinstri: Haraldur Þór Jónsson oddviti sveitarstjórnar og sveitarstjóri Skeiða- og Gnúpverjahrepps, Guðmundur Haukur Jakobsson forseti sveitarstjórnar Húnabyggðar og Pétur Arason sveitarstjóri Húnabyggðar.“Við erum ásamt öðrum orkusveitarfélögum að blása ferskum vindum og nýrri orku inn í umræðuna um orkulöggjöf landsins“.

Blönduósi, 15.3.2023

 

Sveitarstjórn Húnabyggðar tók á fundi sínum í gær undir bókanir Skeiða- og Gnúp­verjahrepps og Samtaka Orkusveitarfélaga um nauðsyn þess að breyta raforkulögum til tryggja framgang orkuframleiðslu í landinu á eftirfarandi hátt:

 

Sveitarstjórn Húnabyggðar tekur undir bókun Skeiða- og Gnúpverjahrepps frá 15. febrúar og bókun Samtaka Orkusveitarfélaga 17. febrúar þar sem m.a. var farið fram á við ríkisstjórn Íslands að tryggt verði í lögum að hagsmunum þeirra nærsamfélaga þar sem orka á uppsprettu sína njóti efnahagslegs ávinnings. Sveitarstjórn Húna­byggðar tekur að öllu leiti undir þessar bókanir og leggur á það áherslu að staldrað verður við í skipulagsmálum er varðar frekari uppbyggingu orkumannvirkja á meðan sátt næst í þessu máli. Hér er átt við allar framkvæmdir í raforkumálum í sveitar­félaginu þ.e. vatnsaflsframkvæmdir, vindorkuframkvæmdir og framkvæmdir við flutningskerfi orkuframleiðslunnar. Sveitarstjórn Húnabyggðar skorar á ríkisstjórn Íslands að finna lausnir á þessu máli í samvinnu við sveitarfélögin og tryggja þannig og flýta fyrir þeirri nauðsynlegu uppbyggingu raforkukerfisins sem blasir við m.a. vegna fyrirliggjandi orkuskipta.

Hagvöxtur landsins byggir að miklu leiti á orkuframleiðslu og mörg verkefni sem nú eru í bígerð út um allt land og ekki síst á suðvestuhorninu eru háð aukinni orku­framleiðslu þar sem orka er uppseld í íslenska orkukerfinu. Fyrirliggjandi orkuskipti eru einnig háð aukinni orkuframleiðslu og því blasir það við að tryggja þarf orku­framleiðslu til að mæta þessari eftirspurn. Þau sveitarfélög þar sem orka er framleidd hafa bent á þá augljósu staðreynd að lítil sem engin hagvöxtur er í nær­samfélagi orkumannvirkja og því þurfi að breyta. Venjuleg atvinnustarfsemi skilar tekjum inn í þau sveitarfélög þar sem þau starfa t.d. í formi fasteignaskatta og út­svars. Í tilfelli orkuframleiðslu er þessu ekki þannig farið þar sem einungis lítið brot af virkjunar­mannvirkjum bera fasteignaskatt (u.þ.b. 5%) og hlutfallslega eru mjög fá störf tengt þessum mannvirkjum og næstum öll sérfræðistörf eru á höfuð­borgar­svæðinu. Þannig að meðalstórt eða stórt fyrirtæki (óháð iðnaði) skilar mun meiri verð­mætum inn í nærsamfélagið en orkuframleiðslan gerir og að þessu leiti er orkufram­leiðslan ekki góður nágranni.

Sem betur fer er staða fyritækja í orkuframleiðslu og -dreifingu góð og nú þegar kakan er að stækka með aukinni framleiðslu eru það augljósir hagsmunir allra að nærsamfélögin sem taka á sig það rask sem þessum framkvæmdum fylgir fái eitthvað í sinn hlut til að byggja upp þau samfélög sem þar eru. Hér eru einfaldlega verið að biðja um að þessi nærsamfélög orkuframleiðslu fái í sinn hluta sömu tekjur og hlýst af allri annarri atvinnustarfsemi innan þessara samfélaga. Það er því ekki verið að fara fram á neitt annað en að þessi starfsemi fari eftir sömu leikreglum og önnur starfsemi í landinu. Það er einnig vert að taka fram að nýjar hugmyndir ganga út á að auknar greiðslur af orkuframleiðslu fari ekki eingöngu til þess sveitarfélags þar sem virkjunarstæðið eða vindmyllan er heldur verður að horfa til áhrifasvæðis framkvæmdanna t.d. vatnasvæði þegar um vatnsaflsvirkjun er að ræða og sjónsvið í tilfelli vindmylla. Þá verða einnig að koma til greiðslur vegna þeirra raforku­flutningsmannvirkja sem liggja þvert í gegnum flest sveitarfélög. Breytt skipting kökunar mun því hafa áhrif á mörg sveitarfélög ekki bara þau sem skilgreind eru sem orkusveitarfélög.

Það er ljóst að ef að þessum sanngjörnu kröfum verður mætt mun það flýta fyrir framkvæmdum og auka líkurnar á því að við náum þeim markmiðum sem við höfum sett okkur um aukna atvinnuuppbyggingu, orkuskipti o.s.frv. Það er mikið áhyggjuefni að við erum í raun á eftir áætlun hvað orkuframleiðslu varðar og langt á eftir áætlun hvað orkudreifingu varðar. Það er rökrétt að hugsa að verði af þessu breytingum verði til það sem kallað hefur verið freistnivandi sveitarfélaga þ.e. að ef sveitarfélög fái auknar tekjur af orkuframleiðslu þá freistist þau til að samþykkja hvaða framkvæmdir sem er. Það er rétt að sveitarfélög eru almennt illa fjármögnuð og allar tekjur eru því vel þegnar til að auka sjálfbærni þeirra. En staðreynd málsins er sú að samkvæmt lögum er unnið eftir rammaáætlun þar sem virkjunarkostir eru skilgreindir og þeim forgangsraðað. Það mun eftir sem áður vera hlutverk stjórnmálanna og hagsmunasamtaka að skilgreina þá valkosti sem vinna á með. Það er síðan hlutverk sveitarfélaga að veita framkvæmdaleyfi þegar þessir kostir koma úr rammaáætlun. Sveitarfélög geta því ekki stýrt því upp á sitt einsdæmi hvaða virkjunarkostir eru skilgreindir í landinu.

Orkuframleiðsla er marglaga mál, þetta er undirstaða hagvaxtar í landinu, þetta er lykilinn að því að við getum farið í orkuskipti, þetta er risastórt umhverfismál og þetta er undirstaða ýmiskonar nýsköpunar sem sprettur annaðhvort beint (t.d binding kolefnis) eða óbeint frá greininni. Ef nærsamfélagið þar sem orkan er búin til nýtur engra ávaxta af þessari verðmætasköpun, þá er ekki bara vitlaust gefið heldur er verið að þjóðnýta viss svæði landsins til hagsbóta fyrir önnur sem er að minnsta kosti ósanngjarnt og annars algjörlega ótækt.

Óvissa og óskýrar reglur í þessum málaflokki eru ekki í boði því það kallar annars vegar á að framkvæmdum seinkar að óþörfu og hins vegar að bara eitthvað gerist eins og stefnir í með vindorkuuppbyggingu í landinu. Við skorum því á ráðmenn, allt stjórnmálafólk, forsvarsfólk orkufyrirtækja, sveitarstjórnarfólk, náttúruverndarsinna og alla landsmenn að íhuga þetta mál af alvöru og skoða hvort að núna sé ekki rétti tíminn til að breyta orkulögum fyrir alla orkugjafa á þann hátt að sátt skapist um þá uppbyggingu sem fyrir liggur.

Það er til ágætis hugleiðing sem hljóðar „Þegar vindar (breytinga) blása, búa sumir sér til skjólveggi á meðan aðrir búa til vindmyllur“. Inntakið í þessu er að við verðum að nýta þau tækifæri sem felast í þeirri stöðu sem við erum í og sækja fram saman og nýta þá virkjunarkosti sem við eigum á skynsamlegan hátt í sátt við náttúruna, nærsamfélögin, þá sem nota orkuna og alla hagsmunaaðila.

Getum við bætt efni þessarar síðu?